Fundu listagyðju í Ólafi Stefánssyni

Tvíeykið Loji og Tanja hafa hannað nýjan landsliðsbúning sem verður …
Tvíeykið Loji og Tanja hafa hannað nýjan landsliðsbúning sem verður til sýnis á HönnunarMars. Ljósmynd/Ólafur Daði Eggertsson

Logi Höskuldsson, eða Loji eins og hann kýs að kalla sig, og Tanja Levý eru hugsuðirnir á bak við verkefnið Upp með sokkana! en í sameiningu hönnuðu þau nýjan landsliðsbúning. 

„Þetta er samstarfsverkefni okkar Loga Höskuldssonar myndlistarmanns en við eigum það sameiginlegt að hafa bakgrunn í íþróttum. Hann æfði fótbolta en ég handbolta. Síðan fórum við bæði í skapandi nám. Hann fór í myndlist og ég fór í fatahönnun, en núna vinnum við bæði með textíl. Við ákváðum því að gera nýjan landsliðsbúning sem á að vera sameiningartákn fyrir íþróttir og listir,“ segir fatahönnuðurinn Tanja Levý, sem er annar forsprakki verkefnisins Upp með sokkana!

„Við sækjum innblástur í íslenskan hversdagsleika, en listagyðjan okkar er Ólafur Stefánsson, því okkur finnst hann sameina þetta tvennt. Hann er bæði afreksmaður í íþróttum, og er líka ótrúlega skapandi í hugsun. Allavega komst ég að því þegar ég horfði á heimildamyndina um hann, Óla prik,“ segir Tanja kímin.

„Við einblínum ekki á einhverja þjóðrembu, eða að taka inn fánalitina. Við hugsum meira um íslenskt myndmál, eitthvað sem sameinar okkur,“ segir Tanja aðspurð hvert teymið sæki innblástur. „Það getur verið veður, eða sundmenning, eða brauðtertur, eða eitthvað allt annað sem einkennir Ísland. Við sjáum fegurð í því hversdagslega.“

Hægt er að berja hinn nýja búning augum í Vesturbæjarlaug, en hvernig búningur er þetta og fyrir hverja er hann ætlaður?

„Þetta eru stuttbuxur, stuttermabolir og galli yfir. Ef vel gengur, og það er áhugi fyrir þessu, sjáum við fyrir okkur að gera framhaldsverkefni þar sem við leggjum áherslu á að hanna búning fyrir hverja íþrótt fyrir sig,“ segir Tanja og bætir við að fatnaðurinn henti til hverskonar íþróttaiðkunar.

„Hugmyndin kviknaði þegar við fórum að kynna okkur hönnuðina sem gerðu landsliðsbúningana fyrir síðustu Ólympíuleika. Þá hugsuðum við með okkur, af hverju vinnum við ekki saman, íþróttafólk, hönnuðir og listamenn? Við höfum sjálf upplifað að við séum ekki öll í sama liði og höfum tekið eftir óáþreifanlegri ósamstöðu. Auðvitað er ekki hægt að alhæfa, en það er svolítið eins og það sé annaðhvort eða,“ segir Tanja. Búningur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta fékk mikla athygli á síðasta ári, og hlaut fremur misjafna dóma. Þá sér í lagi frá hönnuðum. Tanja játar að umræðan tengist verkefninu Upp með sokkana! en sé þó ekki beinlínis kveikjan að því.

Þar sem Tanja og Logi hafa bæði grunn í íþróttum og listum þykir þeim mikilvægt að notagildi og fagurfræði fari saman. En hvernig gekk að sameina þetta tvennt í hinum nýja landsliðsbúningi?

„Við veltum þægindum auðvitað mikið fyrir okkur, ásamt því hvað hentar íþróttafólki best. Svo hugsum við líka um efnið og notumst til dæmis við endurunnið pólýester og lífræna bómull,“ segir Tanja, og bætir við að þau hafi mikinn áhuga á að vinna með íþróttafólki.

„Ég er búin að senda Óla Stef. tölvupóst, en hann er ekki búinn að svara. Þannig að nú ætla ég að biðla til hans að svara póstinum sem ég sendi honum, því okkur þætti ótrúlega vænt um að heyra frá listagyðjunni okkar. Það myndi setja punktinn yfir i-ið,“ segir Tanja að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál