Hlakkar til að fá að setjast um borð

Snorri Eldjárn Snorrason sá um yfirhönnun á Vatnajökulsflugvél Icelandair.
Snorri Eldjárn Snorrason sá um yfirhönnun á Vatnajökulsflugvél Icelandair.

Í tilefni af 80 ára afmæli Icelandair ákvað fyrirtækið að heilmerkja flugvél með mynd af Vatnajökli. Snorri Eldjárn Snorrason, listrænn stjórnandi Icelandair á Íslensku auglýsingastofunni, hafði yfirumsjón með hönnuninni. Hann segir það ekki létt verk að koma jökli fyrir á flugvél. 

Hvernig fer maður að því að koma Vatnajökli fyrir á flugvél? 

Það er dálítið snúið að láta eina mynd tákna jafn stórt svæði og Vatnajökull er. Ég vildi að myndin myndi innihalda bæði skriðjökul, fjöll og ísbreiðu. Eftir að hafa skoðað þúsundir mynda af Vatnajökulssvæðinu endaði ég með að vinna mynd af Vatnajökli frá sjónarhóli Svínafellsjökuls. Búkur flugvélarinnar er margfalt breiðari en hefðbundin ljósmynd þannig að það þarf að fikta svolítið í hlutföllum myndarinnar þannig að hún passi inn í form flugvélarinnar og falli vel að merkingum hennar. Þema flugvélarinnar leyfði mér svo að halda mig við ákveðna bláa tóna sem einkenna Icelandair og passa vel við „staðlaðar“ merkingar flugvélarinnar svo sem gulan hreyfil og kóngablátt stélið. Þegar hönnunin er tilbúin og samþykkt þá eru svokölluð Pantone-litgildi ákveðin, en það er kerfi staðlaðra lita. 12 pantone litir voru notaðir við gerð þessarar flugvélar og var þeim blandað saman til að fá róf ólíkra lita. Þegar hingað var komið tók Air Livery, fyrirtæki sem sérhæfir sig í merkingum flugvéla, við.

Það var mikið verk að koma Vatnajökli á eina flugvél.
Það var mikið verk að koma Vatnajökli á eina flugvél.

Hvað tók þetta langan tíma og hvað komu margir að verkinu?

Flugvélin var sprautumáluð í Norwich á Englandi. Teymi þýskra „airbrush“-listamanna, sem einnig gerðu Heklu Auroru, vann verkið. Í heild tók merking vélarinnar 21 dag – eða um 2.500 vinnuklukkustundir og voru 25 manns sem komu að því verki. Það var magnað að fá að fylgjast með því ferli því þessir listamenn voru svo ótrúlega færir.  

Að mörgu þurfti að huga og fjölmargir komu að verkinu.
Að mörgu þurfti að huga og fjölmargir komu að verkinu.

Hvað er það flóknasta við þetta verkefni?

Flóknasti hluti verkefnisins snýr að tæknilegu hliðinni. Það er gríðarmikið regluverk sem fylgir merkingum flugvéla. Starfsfólk í hönnunarteymi DOA (Design Organizational Approval) vann baki brotnu við að ná öllum leyfum í gegn og vinna þetta náið með Air Livery svo allt gæti gengið vel eftir. Til að mynda var starfsmaður DOA, Sigurður Ingi Ljótsson, til staðar meiri hluta tímans í flugskýlinu í Norwich til að passa að allt yrði framkvæmt samkvæmt hæstu gæðakröfum.   

Hvernig er hönnunin inni í vélinni?

Við vildum að þema flugvélarinnar væri gegnheilt og myndi smita í alla þætti hennar. Hugmyndin var að það að stíga um borð í flugvélina væri líkt og að labba inn í íshelli. Flugvélin er því útbúin LED-lýsingu að innan í bláum tónum sem hreyfast á dáleiðandi hátt. Það myndast því mjög sérstök stemmning innan í henni. Einnig er að finna ýmsa fróðleiksmola um Vatnajökul hér og þar innan í vélinni.

Að stíga inn í vélina á að vera eins og …
Að stíga inn í vélina á að vera eins og að stíga inn í íshelli.

Finnst þér skipta máli að farartæki eins og flugvélar búi yfir ákveðinni fagurfræði?

Að útbúa vél líkt og þessa kostar mikla vinnu og sýnir staðfestu Icelandair til að auka upplifun farþega sinna. Þetta er ekki einungis farartæki heldur hluti af heildarupplifuninni. Mér finnst þetta viðhorf æðislegt og ég hugsa að það séu fá flugfélög úti í heimi sem myndu leika þetta eftir. Maður sér líka á viðbrögðum fólks að það kann virkilega vel að meta þetta uppátæki. Það er strax kominn langur biðlisti til þess að fá að fljúga með vélinni og ég get sjálfur ekki beðið eftir að fá að sitja um borð í henni.  

Myndbandið hér að neðan gefur innsýn í vinnuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál