Fékk alveg frjálsar hendur

mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir

Sæbjörg Guðjónsdóttir innanhússhönnuður fékk það verkefni að hanna 12 fm baðherbergi í nýlegu húsi. Húsið var tilbúið til innréttinga þegar hún var ráðin í verkið síðasta vor. Steinn mætir speglum og er svarti liturinn áberandi. 

„Þar sem upprunalegt skipulag hentaði ekki alveg breytti ég því með því að færa klósettið og stúka það af. Eins byggði ég tröppu upp í innbyggt baðkarið til að útkoman væri svolítið grand og í svokölluðum „roman tub“-stíl. Veggurinn aftan við baðið var svo þykktur að hluta með óbeinni lýsingu sem gefur þægilega stemningu þegar legið er í baðinu. Þó að rýmið sé frekar stórt er lagið á því nokkuð ópraktískt og því ákvað ég að setja langan marmarabekk með innbyggðum einhalla vaski og spegil alveg yfir sem kom virkilega vel út,“ segir Sæbjörg.

Hvernig baðherbergi vildu húsráðendur fá?

„Ég fékk frekar frjálsar hendur og eigandinn, sem er karlmaður, var mjög opinn fyrir nýjum hugmyndum. Mig langaði því til þess að rýmið væri frekar „masculine“ í takt við húsráðanda og hann var mjög sáttur við lokaútkomuna,“ segir hún.

Flísarnar koma frá Parka og heita Moro.

„Flísarinn stóð sig svo alveg frábærlega og á heiður skilinn fyrir vel unnið verk. Bekkurinn og vaskur er úr Fior Di Bosco-marmara og var smíðað af Fígaró,“ segir hún.

Innréttingarnar voru sérsmíðaðar hjá GKS úr dökkbæsaðri eik. Blöndunartækin eru svört en þau voru sérflutt inn að utan.

„Kraninn er mjög skemmtilegur og hægt er að kveikja á honum bæði með skynjara og handfangi,“ segir hún.

Bakkinn kemur frá Vigt, sápur og kollur koma frá Módern. Handklæðaslána smíðaði Suðulist en af henni kemur skemmtilegur skuggi.

Finnst þér íslensk heimili vera að breytast?

„Já, það finnst mér. Fólk er að verða óhræddara við að gera breytingar og mála til dæmis í litum og dekkri tónum. Ég finn líka fyrir því í auknum mæli að mínir kúnnar leita ekki bara til mín með aðstoð við skipulag og hönnun innréttinga, heldur vilja þeir einnig fá mig til að finna til húsgögn, aukahluti og fleira. Það getur farið mikill tími í að finna réttu húsgögnin og gardínur. Fólk er farið að átta sig á því að oft er betra að fá bara aðstoð frá hönnuði sem veit oft hvað er til og hvað gengur upp í rýminu. Ég er líka óhrædd við að kaupa erlendis frá þar sem úrvalið getur oft verið meira en hér heima.“

Hvað er vinsælast núna?

„Blár er ansi vinsæll, en ég held að djúp dökkgrænn og dempaður vínrauðbrúnn verði ansi heitir á næstu árum. Ég er alltaf skotin í messing og bronsi en silfrið fer að koma sterkt inn aftur. Það sem er heitt er „layering“, að blanda saman lögum af réttum litum, efnum, húsgögnum og fylgihlutum á frekar mínímalískan hátt. Allt á sinn stað, áreynslulaust en samt úthugsað. Efnin eru svo áfram aðeins þykkari og meira djúsí eins og velúr og þá sérstaklega svokallaðar viscose-mottur. Ég held svo reyndar að við förum að teppaleggja í auknum mæli í bland við viðar og flísalögð gólf, það er svo kósý.“

Hvað um efnivið eins og granít og marmara, er eitthvað eitt vinsælla en annað í því?

„Mér finnst granítið vera að detta meira út eftir að kvartsið kom en það er þó ennþá notað. Ég hef alltaf verið hrifin af marmara og hann er til í svo óendanlegum gerðum. Íslendingar mættu bara vera aðeins óhræddari við að nota hann.“

mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir
mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir
mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir
mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál