Bjart og glaðlegt í Kópavogi

mbl.is/Kristinn Magnússon

Piia Susanna Mettälä kom fyrst til Íslands sem skiptinemi fyrir hartnær 14 árum. Árið 2005 sneri hún aftur til landsins, og hóf íslenskunám. Þegar náminu lauk tóku örlögin í taumana en viku áður en hún hugðist flytja til Óslóar hitti hún eiginmann sinn. Dvölin í Noregi varð því endaslepp og var Piia aftur komin til Íslands hálfu ári síðar. Nú hefur fjölskyldan stækkað, en Piia og eiginmaður hennar eiga tvo drengi. Fyrr á árinu flutti fjölskyldan svo í fallegt einbýlishús í Kópavogi þar sem hún hefur komið sér vel fyrir. 

„Ég skemmti mér svo vel þegar ég kom hingað í fyrsta sinn að ég varð að koma aftur. Ég flutti því hingað með vinkonu minni. Eftir að hafa verið hér um nokkurn tíma ætlaði ég að flytjast til Óslóar þar sem ég hugðist leggja stund á listfræðirannsókn. Viku áður hitti ég manninn minn, sem var alveg týpískt. Ég fór þó til Noregs en flutti aftur hingað eftir hálft ár, og er hér enn. Við fluttum reyndar tímabundið til Finnlands þegar eldri sonur minn kom í heiminn, en komum aftur hingað í ágúst 2008,“ segir Piia og kímir þegar blaðamaður bendir á að tímasetningin hafi kannski ekki verið kjörin.
mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfðum keypt íbúð hér, þannig að við vorum svolítið föst. Þetta var ekki alveg nógu góð byrjun,“ bætir Piia við. En skyldi vera mikill munur á því að búa á Íslandi og Finnlandi.

„Já, það er öðruvísi. Ég er þó búin að búa svo víða, þegar ég var 18 ára flutti ég til Sviss sem au-pair, svo var ég að vinna í Þýskalandi og á Ítalíu. Síðan fór ég til Englands í nám í listasögu, og þaðan til Austurríkis. Ég fór svo aftur til Finnlands til að ljúka náminu mínu, áður en ég kom hingað í skiptinám,“ segir Piia og bætir við að nú sé Ísland þó heima fyrir henni.

„Börnin eru í skóla hér en við eigum einnig hús og fyrirtæki hér. Maðurinn minn vinnur hérna, svo við verðum bara hér áfram. Við förum þó svona tvisvar til þrisvar á ári til Finnlands til að heimsækja fjölskylduna mína.“

Hjónin festu kaup á húsinu, sem stendur við Fossvogsdalinn, í mars síðastliðnum. Síðan þá hafa þau verið dugleg að dytta að og segist Piia hafa verið nær stanslaust með pensilinn á lofti undanfarna mánuði. Hurðir og karmar hafa til að mynda fengið yfirhalningu, auk stigans sem var dökkur að lit. Þess að auki fékk eldhúsinnréttingin, sem er upprunaleg, andlitslyftingu en í dag er yfirbragð hússins því bæði bjartara og hlýlegra.

„Ég og maðurinn minn vorum sammála um að þetta hús hefði mikla möguleika, og við gætum gert það flott. Það er í skandínavískum stíl og okkur finnst svæðið æðislegt. Við vildum vera áfram í þessu hverfi, strákarnir ganga í skóla hér. Við erum búin að mála alla fyrstu og aðra hæðina. Loftin á efri hæðinni voru gul, en eru núna hvít. Við erum einnig búin að skipta um gólfefni í barnaherbergjunum og erum að fara að skipta um gólfefni á hjónaherberginu. Við máluðum innréttinguna í eldhúsinu, sem og borðplötuna. Mig langar líka að skipta um gólfefni í eldhúsinu, en þarf aðeins að hugsa málið betur. Við eigum síðan eftir að mála eina umferð enn yfir stigann,“ segir Piia og viðurkennir að hún sé orðin örlítið þreytt á framkvæmdunum. Hjónakornin hafa því ákveðið að láta kjallarann eiga sig um sinn.

Piia viðurkennir að hún fái að ráða mestu þegar kemur að því að innrétta heimilið. Eiginmaðurinn á sér þó eigið afdrep, eða litla skrifstofu, þangað sem húsfreyjan hættir sér sjaldan. Þegar Piia er síðan spurð hvort íslenska stílnum svipi til þess finnska segir hún að Finnar eigi líkast til meira sameiginlegt með Dönum og Svíum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Finnar eru aðeins framar, en Íslendingar koma aðeins á eftir. Það sem var mjög kúl í Finnlandi fyrir nokkrum árum er nú að detta í tísku hér á landi,“ játar Piia. „Sjálfri finnst mér mjög mínimalísk heimili vera flott, en ég gæti ekki búið í svoleiðis húsi. Ég kann til dæmis vel að meta gömul húsgögn, og afi mannsins míns smíðaði mörg húsgögn sem er að finna á heimilinu. Hann gerði til dæmis rúmin í herbergi strákanna, auk þess smíðaði hann skenk sem er í stofunni. Ég hef síðan málað suma af þessum hlutum svo þeir passi betur hér inn. Þetta eru hlutir með sál, og þegar maður er búinn að lappa upp á þá eiga þeir vel við. Ég kaupi einnig gjarnan húsgögn á netinu, eða í Góða hirðinum, sem ég get pússað, málað eða lakkað. Fólkið í kringum mig veit að ég hef gaman af því að gera upp hluti og kemur því gjarnan færandi hendi. Vinkona mín gaf mér til dæmis fallega danska stóla sem ég ætla að taka í gegn á næstunni,“ segir Piia.

Nýjustu kaupin á heimilinu er forláta hengirúm sem Piia flutti með sér heim frá Finnlandi í sumar. Hengirúmið, sem setur skemmtilegan svip á stofuna, er í miklu uppáhaldi hjá yngstu fjölskyldumeðlimunum, enda afar kósý. Sjálf á Piia þó í svolitlum erfiðleikum með að velja uppáhalds stað í húsinu, enda fjölskyldan fremur nýlega flutt inn.

„Svefnherbergið okkar er til að mynda ekki tilbúið, þannig að við sofum bara þar. Ætli ég verði ekki bara að nefna eldhúsið og stofuna. Hengirúmið er alveg nýtt, og strákarnir elska það. Ég held að það eigi eftir að verða í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni þegar fram líða stundir,“ segir Piia að endingu.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál