Hrifnust af látlausu jólaskrauti

Ljósmynd/Sara Dögg

Innanhússhönnuðurinn Sara Dögg Guðjónsdóttir er mikið jólabarn, enda á hún afmæli í desember. Þrátt fyrir það er hún hrifnust af látlausu jólaskrauti og er alls ekki litaglöð þegar kemur að því að skreyta. Sara Dögg dekkaði sérlega smekklegt borð fyrir jólablaðið í fremur mínímalískum stíl. 

Sara Dögg Guðjónsdóttir.
Sara Dögg Guðjónsdóttir. Ljósmynd/Hildur Erla Gísladóttir

„Ég á afmæli í desember svo að það er tvöföld hátíðarhamingja. Jólalögin byrja líka snemma að heyrast á mínu heimili,“ segir Sara Dögg, en hvað finnst henni best við jólin?

„Það er upplifunin hverju sinni, en það er erfitt að lýsa henni. Ég myndi reyna að lýsa þessu þannig að ég fæ mikla hlýju í hjartað í kringum hátíðirnar, þetta er „season to be jolly“. Það er samansafn af stundum eins og að jólaskreyta, baka, velja besta molann úr Mackintosh-dollunni, horfa á rómantískar jólamyndir og svo auðvitað öll matarboðin og spilakvöldin með fjölskyldu og vinum.“

Sara Dögg segir að jólahefðirnar hafi tekið svolitlum breytingum á síðasta ári, þegar hún, kærasti hennar og sonur héldu sín fyrstu jól þrjú saman.

„Við höfum alltaf farið til Eyja og haldið jól og áramót með fjölskyldum okkar. Um síðustu jól héldum við okkar fyrstu jól þrjú saman hér í Reykjavík og sköpuðum nýjar hefðir. Við vorum þó að sjálfsögðu með foreldra okkar á línunni allan tímann sem við vorum að matreiða, þar má engu breyta,“ segir Sara Dögg og bætir við að uppáhalds jólamaturinn sé hamborgarhryggur og sósan hans pabba.

„En ég held í þessar klassísku hefðir, búðarrölt á Þorláksmessu, náttföt, súkkulaði og jólamynd á aðfangadegi og síðan spilakvöld og jólabjór á milli jóla og nýárs.“

Þegar Sara Dögg er spurð hvort hún skreyti mikið fyrir jólin segir hún svo ekki vera, enda sé hún enn að safna jólaskrauti.

„Það kemur með árunum. Ég er meira fyrir látlaust jólaskraut og er alls ekki litaglöð þegar kemur að því að skreyta, þrátt fyrir að vera alin upp við rauð jól. Sonur minn heitir Nóel, sem þýðir einfaldlega Jól á nokkrum tungumálum. Vinkona mín gaf mér jólakúlu með nafninu hans í fyrra og mér þykir afar vænt um hana.“

Sara Dögg byrjar jafnan snemma að kaupa gjafir, þó hún sé yfirleitt enn að á Þorláksmessu.

„Ég er bæði snemma í því og sein þegar kemur að nokkrum gjöfum,“ segir Sara Dögg, sem veit fátt betra en að kúra með strákunum sínum yfir jólamynd og konfekti á aðventunni. Þá segir hún að kvikmyndin The Holiday komi henni alltaf í jólaskap. En hvaða jólalag skyldi koma henni í gírinn?

„Ég get ómögulega valið lag, en jólaplötur Nat King Cole og Michael Bublé koma mér í jólaskapið.“

Þegar Sara Dögg er spurð hvort hún sé búin að finna jóladressið segist hún eiga nokkur inni í skáp.

„Ég hugsa að ég nýti það sem ég á. Síður svartur kjóll er alltaf klassískt og fallegt val,“ segir hún að lokum og óttast augljóslega ekki að fara í jólaköttinn.

Ljósmynd/Sara Dögg
Ljósmynd/Sara Dögg
Ljósmynd/Sara Dögg
Ljósmynd/Sara Dögg
Ljósmynd/Sara Dögg
Ljósmynd/Sara Dögg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál