Sigga Heimis leggur á jólaborð

Sigga Heimis lagði fallega á borð.
Sigga Heimis lagði fallega á borð. mbl.is/Hanna

Sigríður Heimisdóttir, eða Sigga Heimis eins og hún er kölluð, er mikið jólabarn. Hún elskar aðventuna og bakar og skreytir fyrir allan peninginn. Hún kaupir ekki dýra dúka á borðið heldur notar hvít lök því þau þola allt. Sigga notaði lökin á jólaborðið og skreytti það eins og henni einni er lagið. 

mbl.is/Hanna
„Aðventan er best, mér finnst hún eiginlega vera jólin. Og þar getum við ýmislegt lært af Svíum því þeir njóta aðventunnar í tætlur. Ég troðfylli allt af kertum og ljósum og svo baka ég ýmsar sortir á aðventunni. Ég var mikið í ýmsum hefðum sem ég hef reyndar lagt niður eins og að gera og skrifa jólakort en nýt frekar tímans með krökkunum mínum og vinum,“ segir Sigga.

Hvernig undirbýrð þú jólin?

„Ég er ekki alveg týpan sem rífur allt í sundur og sterilíserar heimilið en ég geri almenna jólahreingerningu og skreyti svo allt nokkuð duglega. Ég á helling af jólaskrauti en ég hef teiknað mikið af því sjálf og hef svo séð um listræna stjórnun á jólakolleksjónum í gegnum árin. Það kallar á ferðir erlendis og mörg sýnishorn rata með manni heim úr þeim ferðum. Ég legg mikið upp úr að skreyta heimilið og hafa jólastemningu allan desember. Fyrsta sem ég geri á morgnana, reyndar alveg frá því að það fer að dimma á morgnana á haustin, er að kveikja á kertum og spila músík. Í desember verða þetta jólalög en oft klassísk og róleg lög enda músík óneitanlega stór hluti jólanna.“

mbl.is/Hanna

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Notalegt aðventuumhverfi, börnin mín, bestu vinirnir, kertaljós, jólalög og foreldrar mínir. Pabbi á afmæli á aðfangadag og rjúpnalyktin hennar mömmu er ómetanleg.“

Leggur þú mikið upp úr því að leggja fallega á borð?

„Já, það á að vera veisluborð á jólum og áramótum. Það er heljarinnar vesen að græja hvíta dúka og pússa silfur en það á við á þessum tíma árs að mínu mati.“

Í gegnum vinnu þína hjá IKEA ertu með puttanum á púlsinum hvað fólk vill. Finnst þér neysluvenjur fólks vera að breytast varðandi jólin?

„Já, og kannski sem betur fer. Fyrir það fyrsta er fjöldi fólks í heiminum sem heldur ekki jólin hátíðleg. Margir gera sér samt dagamun á þessum dögum þó svo að trúarlegi þátturinn fari sífellt minnkandi og sé jafnvel ekki til staðar. Þess má einnig geta að til dæmis er stemningin öll önnur í Ástralíu í desember enda hásumar þar þá. Í annan stað þá eru fáir sem sleppa sér eins og Íslendingar og þá er ég aðallega að tala um gjafaruglið sem er í gangi hérlendis. Mér blöskrar á hverju ári lýsingarnar á gjöfum sem börn eru að fá hérna heima. Þetta þekkist til dæmis varla í Svíþjóð og mér finnst við hálfklikkuð þegar kemur að gjafahefðinni hér.“

mbl.is/Hanna

Þótt Sigga hafi starfað lengi hjá IKEA þá á hún hluti frá öðrum merkjum. Hún er hægt og rólega að safna stelli frá Royal Copenhagen.

„Ég kaupi gjarnan notað þegar ég finn það á mörkuðum og ég nota það mjög oft enda eðalpostulín.“

Sigga notaði fína Royal Copenhagen-stellið ekki á jólaborðið heldur notaði alfarið hluti úr nýju jólalínu IKEA.

„Í ár tók fjöldi íslenskra hönnuða þátt í að hanna línuna og ég er gríðarlega ánægð með útkomuna. Í ár valdi ég að hafa borðið klassískt, með hvítum, grænum og silfurlit. Mér finnst hvítt og silfur alltaf svo hátíðlegt og ég var svo heppin að kaupa silfurhnífapör á uppboði fyrir nokkrum árum, sem eru öll merkt með S-i. Svo er nauðsynlegt að hafa ljós og kerti. Og ekki gleyma lifandi blómum! Svo er handhægt heimilisráð: það er auðvelt að verða sér úti um greni, og lyktin af því er besta jólalyktin og greni með lítilli ljósaseríu er alltaf fallegt. Svo er annað sem ég hef nýtt mér í mörg ár, en það er að ég kaupi annaðhvort einföld hvít lök eða hvítt bómullarléreft í metravís sem kostar mjög lítið og nota sem dúk. Þá er ekkert mál þó að hellist niður, það má sjóða og klóra efnið og svo má endurnýta þetta endalaust,“ segir hún.

Hvað finnst þér skipta máli þegar lagt er á borð?

„Að gefa sér tíma og nostra við það. Það er alveg partur af jólastemningunni að leggja á borð og ég man að ég og mamma gerðum það oft saman á Þorláksmessu þegar ég var yngri. Þetta er algjörlega tíminn til þess að hleypa skreytiperranum út og leyfa honum að leika sér!“

mbl.is/Hanna

Ertu alveg hörð á því að jólin byrji á slaginu sex? „Mér finnst hátíðlegt að vera tilbúin sirka sex. En sirka sex þýðir svona einhvers staðar á milli sex og sjö.“

Hvað langar þig í í jólagjöf?

„Ég á allt og mér finnst ég vera að drukkna í dóti. Og mér verður hálf-illt við að hugsa um peningaeyðsluna sem á sér stað á þessum tíma. Best væri að fá tíma og upplifun með fólkinu mínu og ég meina það,“ segir hún og brosir.

mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna mbl.is/Hanna
mbl.is/Hanna
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál