Er frumleikinn á undanhaldi?

Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður og eigandi Home and Delicius.
Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður og eigandi Home and Delicius. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

„Getur það verið, að á þessum stafrænu tímum sem við lifum, þá sé frumleiki á undanhaldi? Að það verði stöðugt sjaldgæfara að vita af og finna einstaklinga sem eru sannir og heiðarlegir í sínum stíl, í því sem þeir eru, gera og búa til. Skapa í kringum sig. Þetta eru vangaveltur sem verða æ meira áberandi. Mér finnst þetta mjög áhugaverð hugsun, á þeim forsendum að þetta stafræna líf mati okkur endalaust á hugmyndum og upplýsingum. Í raun er þetta yfirþyrmandi mikið, flóð af efni sem við skoðum myndrænt, en í flestum tilfellum án þess að vera sérstaklega að fara djúpt í það eða sækja okkur upplýsingar,“ segir Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður og eigandi Home and Delicius í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

Týnist sköpunargáfan við allt þetta ofurflæði myndefnis? Við verðum meira skapandi einstaklingar við það að fara djúpt í hlutina sem við þurfum á að halda á okkar sviði, læra í gegnum tíðina, gera mikilvæg mistök, þróa okkur, allt til að ná dýpri þekkingu. 

Frumleiki og það að standa virkilega fyrir það sem maður er, gefur okkur sanna rödd. Heimurinn er í raun að verða frekar einsleitur í allri sinni fjölbreytni, að því leiti að maður sér sömu verslanirnar á endalaust mörgum stöðum út um allan heim, allir þurfa að fylgja öllum á samfélagsmiðlum og svo framvegis, sem skilar sér allt í því að sömu hugmyndirnar og sömu myndirnar fara út um allt.

Frumleikinn tapast, sífellt færri fylgja sínu eigin hjarta og gera umhverfið þar af leiðandi skemmtilegra og áhugaverðara. Að fylgja eigin sannfæringu, hlusta á sína innri rödd, vera ástríðufullur, heill og sannur í því sem maður hefur tileinkað sér, hvort sem það er vinna, áhugamál eða annað, í stað þess að leita að samþykki annarra – það er að elska það sem maður gerir.

Mér finnst þetta sérstaklega áhugaverðar vangaveltur á forsendum þess þegar kemur að heimilinu og okkar nánasta umhverfi. Ég hef talað mikið um persónulegt umhverfi sem lýsir þér og þínum. Allt það sem að ofan er sagt má heimfæra á það að skapa sér sinn einstaka heim. En þessi orð þarf að lesa rétt.

Innblástur þeirra sem eru frumlegir kemur alls staðar að. Að sjálfsögðu líka í gegnum samfélagsmiðla, endalaust myndefni, áhugavert fólk. Maður þarf bara að vera meðvitaður um að nota allt þetta ógrynni af efni á sinn hátt og vinna úr því. Finna frumlega hlutann í sjálfum sér, til að skapa sér sinn eigin frumlega heim, fyrir sitt eigið frumlega líf án þess að nokkuð annað skipti þar máli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál