Arna er dugleg að breyta heima hjá sér

Heimili Örnu er stílhreint.
Heimili Örnu er stílhreint.

Arna Oddgeirsdóttir hefur komið sér smekkleg fyrir í Keflavík ásamt fjölskyldu sinni. Arna segist hafa haft áhuga á því að gera fínt í kringum sig síðan hún var lítil stelpa. Áhugann hefur hún ræktað vel en Arna heldur úti vinsælli Instagram-síðu, arna_homeinterior, þar sem hún leyfir fólki að fylgjast með fallegu heimili sínu. 

Hefur þú alltaf haft áhuga á innanhúshönnun?

„Frá því að ég man eftir mér hef ég haft óbilandi áhuga á að gera fínt og breyta heimilum. Þegar ég var lítil og fór í heimsókn til frænku minnar tók ég til dæmis iðulega upp á því að fara í skúffur heima hjá henni og endurskipuleggja alla stofuna og breytti öllu punteríinu hennar, setti dúka á öll borð og fleira. Áhuginn hefur aukist með árunum hjá mér og hann hefur líka þróast út i áhuga á hönnun.“

Hvernig lýsir þú heimilisstílnum þínum?

Arna nostrar við að raða saman smáhlutum.
Arna nostrar við að raða saman smáhlutum.

„Heimilið mitt er með skandinavískum stíl en ég reyni að fókusera ekki bara á einn stíl því mér finnst margt annað svo fallegt líka. Mér finnst til dæmis mjög gaman að koma inn á önnur heimili og gera fallegt í allt öðruvísi stíl en er heima hjá mér.“

Hvað gerir heimilið notalegt?

„Það sem er notalegast við heimilð er að sjálfsögðu heimilsfólkið. Þó að í grunninn séu litirnir á heimilinu svart, hvítt og grátt þá er nauðsynlegt að bæta lit með. Það sem gerir heimili hlýlegt og notalegt er til dæmis teppi, púðar, mottur og plöntur.“

Hvert sækir þú innblástur?

„Innblásturinn minn kemur víðs vegar að. Mér finnst rosalega gaman að fara i búðir og skoða hvernig þær raða upp og svo fylgist ég mikið með Instagram og Pinterest, skoða hönnunarbækur og tímarit.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á heimilinu? 

„Uppáhaldsstaðurinn minn er sjónvarpsholið. Ég elska þegar börnin eru komin í ró að leggjast í tunguna á sófanum mínum með teppi, horfa á einhverja góða þætti, kíkja í tölvuna eða prjóna. Það er minn tími.“

Hvað er það síðasta sem þú gerðir á heimilinu? 

„Ég er nú alltaf að standa í einhverjum breytingum. Um daginn keypti ég nýjan sjónvarpsskenk úr IKEA og Sonos soundbar svo það er ekki leiðinlegt að horfa á sjónvarpið núna en stærsta breytingin undanfarið er þegar ég innréttaði stóran hluta bílskúrsins. Unglingurinn minn fékk sér forstofu, herbergi og baðherbergi þar. Svo er á döfinni hjá okkur núna að stækka húsið um 80-100 fermetra og er GJG design byrjað að teikna upp hugmyndir að viðbyggingunni svo það eru spennandi tímar fram undan hjá mér.“

Hvað er á óskalistanum fyrir heimilið?

„Mig langar að fá mér Hay-stóla en maðurinn minn vill Grand Prix-stóla eftir Arne Jacobsen svo það hefur verið erfitt að áhveða hvort verður fyrir valinu en við höfum áhveðið að fá okkur Hay-borðið og -stólana í eldhúsið og sennilega Grand Prix-stólana í borðstofuna þegar viðbyggingin verður tilbúin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál