Ljúfa lífið á Lálandi

Flísarnar setja svip sinn á eldhúsið.
Flísarnar setja svip sinn á eldhúsið. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson

Lóa Dís Finnsdóttir og Torfi Agnarsson fluttu til Danmerkur síðasta haust og hafa nú komið sér vel fyrir á eyjunni Lolland eða Lálandi. Síðan þau fluttu hafa þau verið önnum kafin við að koma Gula húsinu á sléttunni í stand. Heimilið er heillandi en þegar Lóa Dís var beðin um að lýsa stílnum sagði hún að hann væri Retro-Fushion. 

„Við fluttum til Danmerkur 15. september 2017. Ríkisstjórnin hafði hrunið þá nóttina, sem okkur fannst mjög táknrænt og undirstrikaði svolítið stökkið okkar. Þrátt fyrir að vera búin að koma okkur vel fyrir á Íslandi þá vantaði okkur tilbreytingu og ný ævintýri. Við vorum orðin smáþreytt á okkar fallega landi, hagkerfinu, asanum, veðurfarinu og ríkisstjórninni, þar sem lítið sem ekkert gerist,“ segir Lóa Dís sem er grafískur hönnuður en eiginmaður hennar er ljósmyndari.
Eldhúsið er fallega innréttað.
Eldhúsið er fallega innréttað. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson
Fjölskyldan gerir matseðil fyrir vikuna.
Fjölskyldan gerir matseðil fyrir vikuna. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson
Eyjan er veggfóðruð og kemur eins og gleðisprengja inn í …
Eyjan er veggfóðruð og kemur eins og gleðisprengja inn í eldhúsið. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson
Í eldhúsinu eru skemmtileg smáatriði eins og hilluberarnir segja til …
Í eldhúsinu eru skemmtileg smáatriði eins og hilluberarnir segja til um. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson

Það er mikil vinna að flytja heila fjölskyldu á milli landa.

„Maður fær það svo sannarlega bætt upp og því vel þess virði að leggja það á sig að okkar mati. Bæði höfðum við búið erlendis og kynnst því hvernig er að vera smár í hinum stóra heimi. Torfi lærði og vann í um 10 ár sem ljósmyndari í Los Angeles í Kaliforníu og ég lærði og vann sem grafískur hönnuður í Danmörku og tók síðar MBD í Mílanó. Þannig að við vissum hvað beið okkar,“ segir hún.

Hvað varð til þess að þið fluttuð til Danmerkur?

„Eftir að hafa horft á þáttinn hennar Lóu Pind, Hvar er best að búa – Danmörk, þar sem hún heimsótti Íslendinga sem reka gistiheimilið Guesthouse Fjelde á Lálandi, vaknaði áhugi okkar á þeirri litlu eyju. Láland leit út fyrir að vera staður sem gæti boðið upp á skemmtileg tækifæri og þar virtist húsnæðisverð einnig vera mjög viðráðanlegt. Þannig [að] við hentum okkur í kynningarvinnu varðandi það að hefja líf á Lálandi og eyddum páskunum 2017 á netinu í að skoða bæði fasteignir, kynna okkur þetta svæði og sjá hvort þetta væri eitthvað sem við gætum og langaði að láta verða að veruleika.

Í júníbyrjun vorum við á leið til Hamborgar í brúðkaup og ákváðum að nota það tækifæri til að skoða okkur um á Lálandi. Með tveggja og hálfs tíma keyrslu og 45 mínútna ferjuferð vorum við komin til Lálands. Að sjálfsögðu var gist á Guesthouse Fjelde hjá Ríkeyju og Reyni sem tóku ótrúlega vel á móti okkur. Nú hófst húsaleitin á Lálandi, fasteign sem gæti rúmað okkur öll, en saman eigum við fjögur börn, ásamt atvinnustarfsemi okkar í einu og sama húsinu. Þess vegna var leitað að húsi í sveit þar sem útihús fylgir með í kaupum og einnig langaði okkur að vera aðeins fyrir utan bæinn, svolítið út af fyrir okkur,“ segir Lóa Dís og bætir við:

„Við enduðum svo með að fara fjórar ferðir síðasta sumar til Danmerkur, í leit að rétta húsnæðinu, síðan til að ganga frá kaupunum og sinna hinum ýmsum pappírsmálum sem fylgja því að vera útlendingur að kaupa fasteign í DK. Ríkey og Reynir á Fjelde voru okkur mikil hjálp og gátu miðlað mikið af sinni reynslu, en þau voru þá búin að vera á Lálandi í 2 ár.“

Þessi hurð var sérsmíðuð af hjónunum.
Þessi hurð var sérsmíðuð af hjónunum. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson

Láland, eða pönnukakan eins og hún er líka nefnd út af flatneskju sinni, er eyja suður af Sjálandi. Eyjan er helsti sumarleyfisstaður Dana en á eyjunni eru bæði fallegar strendur og mikið af góðri afþreyingu.

„Við erum 75 mínútur að keyra norður til Kaupmannahafnar og rúmlega 45 mínútur með ferju yfir til Puttgarden í Þýskalandi. En nú er verið að búa til göng yfir til Þýskalands sem gerir ferðalagið yfir að 15 mínútum. Láland ásamt eyjunum Falster, Møn, Fejø, Femø, Askø og Bogø eru kallaðar Sydhavsøerne og bera nafn með rentu því veðursældin hér er oft meiri en annars staðar í Danmörku. Láland er um 1.250 ferkílómetrar og íbúarnir tæplega 61 þúsund.“

Í einni af ferðunum síðasta sumar fundu þau draumahúsið. Gula húsið á sléttunni sem var umvafið trjám.

„Okkur fannst húsið strax mjög fallegt og situr það í miðjum 10.000 fm arkitektagarði sem er einstaklega fallegur með hinum ýmsu ávaxtatrjám og runnum. Eigninni fylgdi útihús í sæmilega góðu ástandi – en þar erum við að einangra og endurgera sem ljósmyndastúdíó og alhliða vinnustofu/verkstæði með nokkrum notkunarmöguleikum. Mörg húsanna sem við skoðuðum voru eldri bóndabýli, líkt því sem við keyptum en útihúsin hins vegar í slæmu ásigkomulagi eða óþarflega stór fyrir okkur. Hér fundum við 140 fm „hlöðu“ sem hafði verið tekin töluvert í gegn af fyrri eiganda þó að sjálf grindin sé yfir 130 ára gömul. Við sáum það gerlegt að endurbyggja stærsta hluta, skipta um klæðningu, setja stóra glugga og hurðir og gera hana virkilega skemmtilega,“ segir hún.

Húsið sjálft er 170 fm að stærð en það var tekið mikið í gegn árið 2001. Það var þó ekki alveg eftir smekk hjónanna og því ákváðu þau losa sig við flestallt sem inni í húsinu var og gera það að sínu.

„Þó að húsið væri fyllilega í innflutningshæfu ástandi þá sáum við tækifæri til að gera það eins og passaði okkur. Við sópuðum því mestöllu út, seldum það sem hægt var að selja og hófumst handa.

Okkur fannst mikilvægt að opna húsið eins og við mögulega gátum en það gerir það að verkum að rýmið stækkaði og það birti mikið til. En það sem einkennir bindingsverkshús er lítil lofthæð.

Við rifum niður veggi, reistum nýja, settum nýtt gólfefni, nýtt eldhús og baðherbergi svo eitthvað sé nefnt. Með þessu breyttist skipulag hússins talsvert. Eldhúsið er hjarta hússins, enda vitum við fátt skemmtilegra en að bralla í eldhúsinu og gleymum okkur gjarnan við hinar ýmsu prófraunir. Eyjan í eldhúsinu kemur sér líka vel þegar gesti ber að garði því þar getum við eldað samtímis og minglað við gestina,“ segir hún.

Gömlu bíóstólarnir eru sögufrægir en þau keyptu þá á flóamarkaði.
Gömlu bíóstólarnir eru sögufrægir en þau keyptu þá á flóamarkaði. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson

Lóa Dís segir að þau séu komin langt með framkvæmdir en eigi þó enn eftir að taka nokkur rými í gegn eins og þvottahús, inngang, gestaherbergi og klára baðherbergi.

„Framtíðarplanið er svo jafnvel að opna upp á efri hæð hússins og setja þar kvista sem á eftir að gjörbreyta mynd þess, þá sérlega að utan,“ segir hún.

Þegar Lóa Dís er spurð að því hvort þau séu handlagin segir hún svo vera, en játar að þau séu handlagin hvort á sínu sviðinu.

„Torfi er meira í grófvinnunni svo sem að smíða á meðan ég fer meira í framkvæmdir innan veggja hússins. Ég er þó alveg ágætur handlangari. En saman höfum við náð að framkvæma næstum allt það sem komið er. Við höfum þó fengið góða hjálp en Finnur pabbi minn, sem er sjálfstætt starfandi járniðnaðarmaður í Grundarfirði, reisti stálgrindina í útihúsinu og rafmagnið tók Gunnar Páll að sér, elsti sonur Torfa, en hann er rafvirki og tæknifræðingur að mennt og býr ekki langt undan eða á Fjóni. Restinni höfum við í raun fundið út úr með ráðgjöf frá vinum og ættingjum og jafnvel starfsfólki byggingarvöruverslananna á svæðinu,“ segir hún.

Horft úr stofunni inn í stofu og borðstofu.
Horft úr stofunni inn í stofu og borðstofu. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson

Lóa Dís segir að þau Torfi hafi mikinn áhuga á að hafa fallegt í kringum sig og játar að þau heillist af áhugaverðum hlutum.

„Við erum nokkuð heimakær, þó svo að við elskum að ferðast líka, en það verður til þess að við getum vel eytt góðum tíma í að gera heimilið okkar og fyrirtæki þannig að okkur líði vel og að það sé upplífgandi. Við höfum verið nokkuð nösk að finna nýja og notaða muni og húsgögn á netinu og á flóamörkuðum sem eru allt í kringum okkur hér á Lálandi. Til að minnast á eru bláu „bíóstólarnir“ úr Falconer Salen sem er tónlistarhús í Kaupmannahöfn og gráa ljósið yfir sófaborðinu er uppgert og er af göngugötu sömu borgar.“

Heimilisstíll hjónanna er nokkuð breiður.

„Við gætum lýst honum sem fushion-retró með skvettu af litagleði og stuði en samt fílum við nettan iðnaðarstíl. En það eru smáhlutirnir sem kannski lýsa okkur best og er það sem persónugerir heimilið okkar, allt þetta litla og jafnvel skrýtna. Við höfum bæði mjög gaman af hlutum með sál og sögu þó að stílhrein hönnun slái líka alltaf í gegn. Bæði móður- og föðuramma mín hafa gefið mér hluti sem þær höfðu erft eftir sitt fólk og einnig kom ýmislegt frá dánarbúi foreldra Torfa, hlutir sem þau höfðu erft frá sínu fólki. Margt af þessu er þó enn í kössum hér hjá okkur þar sem framkvæmdir eru ekki búnar. Við stundum það svo að skipta út hlutum inni hjá okkur með því að pakka sumu niður í kassa tímabundið og tökum annað fram í staðinn. Þannig fáum við að njóta og nota flest af okkar dóti án þess þó að verða leið á því. En þar sem við erum nettir mínimalistar gengur ekki að hafa allt frammi í einu,“ segir hún.

Blái liturinn fer vel í stofunni.
Blái liturinn fer vel í stofunni. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson

Fjölskyldan unir sér best þegar það eru einhverjar framkvæmdir í gangi. Þau elska að gera upp gamalt dót eða finna gömlum hlutum nýtt hlutverk. Hún segir að þetta geti líka verið töluverð áskorun.

„Af þessum ástæðum óttuðumst við alls ekki að takast á við þetta verkefni sem við vinnum ötul að og unnið er samhliða „alvöru“ vinnunni okkar. Einnig eru ýmsar hugmyndir í loftinu varðandi stúdíóið, annað en hönnun og ljósmyndun. En það bíður betri tíma.

Hjónin vinna mikið saman enda fara grafísk hönnun og ljósmyndun prýðilega vel saman.

„Við munum líklega kalla okkur Nørr32 Studio. Ástæðan er einföld, við búum og vinnum á Nørreskovvej 32 og finnst það heiti því passlega langt, einfalt, lýsandi og skilst í flestum löndum. Nú sjáum við til hvernig fer með það heiti, en þegar stúdíóið fer að verða klárt kemur að því að re-branda fyrirtækið/okkur og fara í kynningarstarfsemi hér í Danmörku og Þýskalandi. Vonandi hoppa þá inn danskir og þýskir kúnnar í bland við íslensku og amerísku kúnnana okkar.

Heimasætunni okkar finnst heldur ekki amalegt að það sé alltaf einhver heima þegar hún kemur hjólandi heim úr skólanum. En fyrir henni er danska ævintýrið alveg að ganga upp og hún blómstrar og dafnar. Eðlilega saknar hún fólksins síns heima á Íslandi, líkt og við – en þá kemur sér líka vel að það er frekar einfalt að komast heim til Íslands.

Hún var ekki með tungumálið þegar hún byrjaði í skólanum og reyndi lítið að tala það fyrstu tvo mánuðina en reddaði sér á ensku. Eftir u.þ.b. tvo mánuði var hún altalandi á dönsku. Hún fékk aðstoð hjá skólanum með námsefnið og fór úr bekknum sínum nokkrum sinnum í viku í það sem kallast „to sproget klassen“ sem er fyrir krakka sem eru af erlendum uppruna og vantar tungumálaaðstoð,“ segir Lóa Dís.

Danmörk fer mjúkum höndum um fjölskylduna og segir Lóa Dís að þeim líði mjög vel.

„Lífið hér er einhvern veginn á öðrum hraða en á Íslandi, minna stress, meiri ró yfir öllu og allt annað verðlag á hlutunum, fyrir utan hita og vatn. Veturinn er mun styttri og sumrin lengri og algjörlega yndisleg. Einnig finnst okkur það frábær kostur að vera á meginlandinu og höfum við nýtt okkur Evrópu töluvert. Danir eru almennt mjög þægilegt og skemmtilegt fólk. Hér brosir fólk til þín í matvöruversluninni og býður oftar en ekki góðan daginn. Oft hefur maður lent í smá spjalli um daginn og veginn þó svo að við þekkjumst ekkert. Það er ótrúlega næs. Okkur finnst mjög dýrmætt að eiga þennan rólega og fallega griðastað í danskri sveitasælunni, vitandi af iðandi menningarlífinu í Köben í um klukkustundar fjarlægð, svo ekki sé minnst á að hafa meginland Evrópu við næsta götuhorn.“

Guli liturinn er ekki bara á húsinu að utan heldur …
Guli liturinn er ekki bara á húsinu að utan heldur fær að lauma sér inn líka. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson
Gula húsið stendur fyrir sínu.
Gula húsið stendur fyrir sínu. Ljósmynd/ Torfi Agnarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál