Flutti til Egilsstaða og nýtur þess

Ljósmynd/Guðný Lára

Linda Sæberg flutti nýlega til Egilsstaða ásamt Steinari Inga Þorsteinssyni, manninum sínum, og börnum þeirra. Auk þess eiga þau mjög þreytta og gamla kisu sem heitir Þórhildur. Heimilið er persónulegt og hlýlegt en Linda hefur unun af því að gera fallegt í kringum sig. 

Linda starfar sem aðstoðarmaður skipulags- og byggingarfulltrúa í Fljótsdalshéraði og svo rekur hún netverslunina Unalome þar sem hún selur vörur frá Balí.
Ljósmynd/Guðný Lára

Parið festi kaup á 190 fm húsi á tveimur hæðum á þessu ári en húsið fengu þau afhent 1. júní. Síðan þá hafa þau staðið í ströngu við að koma sér fyrir.

„Það sem heillaði okkur við húsið var að gengið er inn á efri hæðina með fjölskyldurými og eldhúsinu, en herbergi og þvottahús eru á neðri hæðinni. Einnig var staðsetningin á óskalistanum, en við erum með leikvöll fyrir aftan hús og Selskóg í allri sinni dýrð fyrir framan húsið. Það voru síðan gluggarnir í stofunni og birtan inn um þá sem náðu mér algjörlega. Það er algjört ævintýri hvernig sólin skín hér inn og þegar kvöldsólin nær hingað verður allt heimilið gyllt,“ segir Linda.

Þegar Linda er spurð út í sinn heimilisstíl segist hún vera svolítið skandínavísk með örlitlum boho-stíl með persónulegum blæ. Stíllinn hennar Lindu er líka litaður af Balí en þar bjó fjölskyldan um tíma. Það að flytja til Egilsstaða eru í raun ekki mikil viðbrigði fyrir Lindu því hún ólst upp á Reyðarfirði eða frá sex ára aldri en flutti svo til Reykjavíkur 18 ára gömul. Síðan þá hefur hún búið í Danmörku og á Balí og er nú komin heim. Eða allavega í bili. Þau eru þó alltaf með einhver ævintýri á prjónunum.

Ljósmynd/Guðný Lára

Linda hefur heilmikinn áhuga á heimilinu og segir að mestallur tími hennar fari í að sinna því.

„Ég eyði miklum tíma á Pinterest og Instagram að skoða myndir af heimilum. Mér finnst gaman og gott að halda því hreinu og hér eiga allir hlutir sér sinn stað. Ég dúllast mikið heima við og punta heimilið auk þess sem ég fæ nýjar hugmyndir til að breyta oft í viku,“ segir hún.

Hvað skiptir þig mestu máli þegar heimilið er annars vegar?

„Það myndi vera að hér sé hlýlegt og notalegheit í bland við fallegt. Að fólki finnist gott að vera á heimilinu, að það sé til gott kaffi og súkkulaði með því og það augljósa – að það sé nóg af plöntum úti um allt.“

Ljósmynd/Guðný Lára

Hver er þinn uppáhaldsstaður á heimilinu?

„Uppáhaldsstaðurinn er klárlega stofan okkar. Þar er ekki sjónvarp heldur notalegt; plötuspilari, kerti og hengistóllinn okkar – sem er fullkominn til að slaka á í. Hjónaherbergið er líka í uppáhaldi, en það er hlýlegt og þar er gott að kúra eða loka sig af með góðum þætti í tölvunni.“

Hvaðan koma húsgögnin á heimilinu?

„Húsgögnin eru allt frá því að vera fjöldaframleidd úr IKEA eða sérstakir hlutir sem ég hef erft, látið sérhanna, borið með mér frá Asíu eða eins og til dæmis hlutur sem ég eyddi öllum mínum peningum og meira til þegar ég var einstæð móðir í háskólanámi til að eignast! Litlu hlutirnir, skrautmunirnir, eru síðan öllu persónulegri og skipa stórann sess í hjartanu.

Ljósmynd/Guðný Lára

Linda er ævintýrakona

Linda er með BA í félagsráðgjöf og diplómu í lýðheilsuvísindum og þegar hún komst að því að hún gengi með barn númer tvö gat hún ekki hugsað sér að vera í fæðingarorlofi í svartasta skammdeginu því hún hafði gengið í gegnum það áður.

„Þegar ég var ólétt að Esjari var ég sett 21. nóvember, á 10 ára afmælisdegi dóttur minnar, Önju. Ég sá að ég yrði aftur í fæðingarorlofi yfir dimma vetrarmánuði, sem var alls ekki heillandi tilhugsun. Við fórum því fljótlega að skoða þann möguleika að dvelja í einhvern tíma á heitari slóðum í orlofinu. Eftir nokkra útreikninga kom í ljós að við gætum ferðast til Asíu og lifað góðu lífi á fæðingarorlofinu mínu og námslánum Steinars, sem var í fjarnámi við Háskóla Íslands. Við Anja höfðum lengi verið dolfallnar yfir Balí og smituðum Steinar þegar hann kom inn í líf okkar. Eftir að hafa byrjað með þá hugmynd að vera í þrjár til fjórar vikur erlendis enduðum við á því að selja bílana okkar, leigja út íbúðina og ferðast með „one-way-ticket“ til Balí áður en Esjar náði þriggja mánaða aldri. Það sem okkur fannst best við þessa ákvörðun okkar, fyrir utan auðvitað hvað við lærðum rosalega mikið af þessu ævintýri, var að með því að eyða fæðingarorlofinu svona náðum við að kynnast þessum nýja einstaklingi okkar í ró og næði. Steinar fékk að vera í átta mánuði allan daginn með honum og við saman og Anja fékk tíma með mér eftir komu nýja einstaklingsins sem hún hefði ekki fengið jafn mikið af heima út af hinu daglega lífi á Íslandi,“ segir Linda.

Hvernig er venjulegur dagur í lífi fjölskyldunnar?

„Eftir að ég fór að vinna og Esjar í leikskóla nú í ágúst er venjulegur dagur hjá okkur mjög venjulegur og íslenskur. Við vöknum öll saman á morgnana og hefjum daginn. Við erum svo heppin hér að skólinn hennar Önju byrjar ekki fyrr en 8:50, svo við erum alveg laus við allt stress á morgnana. Auk þess er gríðarlega jákvætt að það er ekki erfitt fyrir hana að vakna eða einhver neikvæðni í henni því að hún sefur lengur og vaknar í meiri birtu og ró. Seinnipartinum reynum við Steinar að ná saman heima með Esjar, en okkur finnst mikilvægt að vera saman á þessum tíma sem oft getur verið krefjandi. Steinar er þó einnig í bæjarstjórn hér og oddviti Héraðslistans, svo hann lendir nokkrum sinnum í mánuði í fundarsetu seinnipartinn. Anja er mjög virk í tómstundum og vinmörg svo hún er úti um allt í sínu félagslífi. Við borðum síðan saman kvöldmat, hjálpumst að við frágang á heimilinu og að koma Esjari í svefn. Við stundum síðan jóga og fótbolta, en annars fara kvöldin í mikil notalegheit á heimilinu sem við Steinar eyðum í sófanum að lesa bækur eða vinna, ég í Unalome.is og hann í pólitíkinni. Nú eða bara fyrir framan sjónvarpið.

Um helgar reynum við að brjóta vikuna upp með því að keyra um Austurlandið og kíkja á áhugaverða staði í nágrenninu, njóta náttúrunnar hér í kring eða vera saman heima fyrir. Síðustu mánuðir hafa þó vissulega farið mikið í að nota allan frítíma í að standsetja húsið okkar.“

Fjölskyldan er samheldin og segir Linda að þau kunni vel að njóta litlu hlutanna í lífinu.

„Við kunnum vel að meta litla og notalega hluti líkt og gott kaffi og súkkulaði með því, góða bók, hlusta á góða tónlist, njóta fallegrar náttúru og sólarlagsins. Okkur finnst gaman að ferðast og höfum gert mikið af því síðan við Steinar kynntumst. En við höfum mörg markmið sem okkur langar að afreka og fá út úr lífinu,“ segir hún og bætir við:

„Við Steinar erum þó einnig mjög ólík þar sem Steinar er rólegur og þolinmóður maður, en ég hvatvís, skapstór og langar helst að gleypa heiminn strax í dag. Við náum þó að vega hvort annað upp á ágætan hátt. Við mæðgur deilum áhuga á fallegum hlutum og getum báðar grátið yfir fallegum lögum. Við höfum líka mikla sköpunarhæfni og erum að hanna okkar eigin línu saman sem við munum setja í sölu á Unalome í haust.“

Ljósmynd/Guðný Lára
Ljósmynd/Guðný Lára
Ljósmynd/Guðný Lára
Ljósmynd/Guðný Lára
Ljósmynd/Guðný Lára
Ljósmynd/Guðný Lára
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál