Ísland besta land í heimi til að lesa

Ljósmynd/ Íris Ann

Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands, og eiginmaður hennar, Halldór Lárusson hagfræðingur, festu kaup á Gamla Apótekinu á Akureyri í fyrra. Þau kalla staðinn „Place to Read“ þar sem samspil íslenskrar hönnunar, náttúru og bókmennta skapar einstakt andrúmsloft og upplifun. 

Húsið er hannað með það í huga að þangað sé dásamlegt að koma og gefa sér tíma til að lesa. Húsið er leigt út undir þessum formerkjum.

Ég starfaði sem prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og í tengslum við það starf stofnaði ég og rak Spark Design Space sem var farvegur fyrir framúrskarandi íslensk hönnunarverkefni. Við hjónin lesum mikið og höfum mikinn áhuga á húsum. Þess vegna má segja að „Place to Read“ sé staður þar sem við setjum saman allt sem við höfum áhuga á.“

Sigríður bendir á hversu stór hluti hagkerfisins byggist nú á ferðaiðnaðinum. „Við vorum búin að ganga með þessa hugmynd í maganum að Ísland væri í raun besta land í heimi til að lesa bækur. Bókmenntaarfurinn er jú okkar helsti menningararfur og það að lesa bækur er orðið svo mikill lúxus. Vont veður er plús frekar en mínus því það er fátt betra en að sitja inni við arineld með góða bók í brjáluðu veðri. Hingað ætti fólk að koma til að lesa.

Þegar við fréttum að gamla apótekið á Akureyri væri til sölu kom þetta allt heim og saman,“ segir hún.

Ástand hússins var bágborið

Gamla apótekið stendur við Aðalstræti 4 og er eitt elsta húsið í innbænum. Húsið, sem var byggt árið 1859 fyrir Jóhann Pétur Thorarensen lyfsala, var stærra en almennt þekktist á þessum tíma. Í upphafi bjó Jóhann í risinu en rak apótekið á neðri hæðinni. Apótekið var starfrækt í húsinu til 1929 en þá var neðri hæðinni breytt í íbúð.

„Ástand hússins var orðið mjög bágborið. Húsið var forskalað árið 1956 og orðið fúið, missigið og illa farið. Við keyptum húsið af Minjavernd, en markmið þeirra var að endurgera það sem næst upprunalegri mynd. Gert var ráð fyrir fjórum íbúðum í húsinu. ARGOS ehf. arkitektastofa annaðist teikningar að húsinu. Minjavernd á mikið hrós skilið fyrir verkefnið að mínu mati.“

Aðspurð hverjir komi í húsið segir Sigríður að hún hafi hugsað þetta fyrir Íslendinga en Halldór hafi verið á því frá upphafi að húsið ætti að vera fyrir erlenda ferðamenn. „Niðurstaðan er sú að viðskiptavinir okkar eru bæði erlendir ferðamenn og Íslendingar. Sumir koma til að lesa en aðrir hafa engan áhuga á því.

Innréttað með íslenskri hönnun

Það eru kamínur í öllum íbúðunum. Andrúmsloftið í húsinu er dásamlegt og skapast þegar falleg hönnun, litir og natni við hverja einustu fjöl kemur saman. Það eru engin sjónvörp í húsinu en þar má finna myndlist eftir Ragnar Kjartansson, Guðmund Odd Magnússon, Daníel Magnússon, Daníel Bjarnason og Bjarna H. Þórarinsson. Rán Flygenring teiknari hefur teiknað mjög skemmtilegar upplýsingateikningar í húsið, til dæmis um það hvenær er óhætt að vera nakinn í gufubaðinu og hvernig brauðristin virkar en einn gestur hélt að brauðristin væri þráðlaus hátalari svo það er eins gott að merkja allt vel,“ segir Sigríður. Aðalbókasafnið í húsinu er í stóru íbúðinni á neðri hæðinni. Þar er einnig stórt eldhús. „Þegar fjölskyldur koma saman í húsinu hefur hver angi fjölskyldunnar gott rými. Síðan geta allir komið saman í stóru íbúðinni og eldað saman, setið á bókasafninu, farið í gufubað og heitan pott. Þetta er staður til að næra sig og endurhlaða batteríin.“

Hvað hefur húsið kennt þér um hönnun og heimili? „Við ákváðum allt sem við gerðum í húsinu í samtali við Minjavernd, þeir hafa lagt ómetanlega vinnu og þekkingu í húsið. Ég hefði aldrei haft þolinmæði í það sem var gert af þeirra hendi þarna. Handverkið í húsinu er einstakt og þegar við höfðum sett okkar mark á húsið þá kenndi það mér að eitthvað svona sérstakt eins og þetta hús verður aldrei til í höndunum á einni persónu.“

Sigríður segir að hugsunin frá upphafi hafi verið að nota íslenska hönnun eins mikið og unnt er í húsinu. „Við erum með íslensk rúm, rúmfatnaður og handklæði eru frá Scintilla, lampar eftir Hrafnkel Birgisson, prik eftir Brynjar Sigurðarson, hillur eftir mig og Snæfríð Þorsteins, leirtau eftir Bjarna Sigurðsson. Sápurnar í húsinu eru frá Sóley organics og fleira í þeim dúrnum. Í raun má segja að þegar ég lokaði Spark hafi íslenska hönnunin sem ég lagði áherslu á þar færst yfir í húsið.“

Nú er læsi þjóðarinnar, sér í lagi barnanna okkar, mikið í umræðunni. Hvernig færðu börnin þín til að lesa? „Við Halldór erum mikið fyrir að lesa. Við erum með ólíkar áherslur. Sameiginlega höfum við áhuga á ferðabókum frá fólki sem fer á fjarlægar slóðir og er frábærir rithöfundar eins og til dæmis William Dalrymple og Patrick Leigh Fermor. Halldór hefur mikinn áhuga á sögu og stjórnmálum og skáldsögum. Ég er mikið fyrir ævisögur kvenna. Svo er alltaf skemmtilegt að detta inn í bækur sem maður hefði aldrei valið sjálfur. Ég dett oft inn í bækurnar sem Halldór velur og þannig opnast nýir heimar fyrir manni. Börnin sjá foreldrana lesa, sem hefur áhrif á þau, en okkar börn eru ekki eins mikið fyrir lestur og við enn sem komið er enda samfélagsmiðlarnir erfiður keppinautur. Hins vegar er ég með gott ráð sem ég get deilt með þér sem er að nudda fæturna á börnunum þegar þau byrja að lesa. Þetta geri ég kannski í svona 15 mínútur og síðan halda þau áfram við lesturinn. Enda getur góð bók haldið manni við efnið lengi.“

Ljósmynd/ Íris Ann
Ljósmynd/ Íris Ann
Ljósmynd/ Íris Ann
Ljósmynd/ Íris Ann
Ljósmynd/ Íris Ann
Ljósmynd/ Íris Ann
Ljósmynd/ Íris Ann
Ljósmynd/ Íris Ann
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál