„Ég er með hreingerningaræði“

Kolbrún Kolbeinsdóttir.
Kolbrún Kolbeinsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbrún Kolbeinsdóttir verðbréfamiðlari býr í fallegu raðhúsi uppi við Elliðavatn ásamt dóttur sinni Elísabetu Mettu, kærasta hennar Ágústi Frey og syni þeirra Viktori Svan. Hún elskar að taka til og þrífa.

Kolbrún er margslunginn persónuleiki. Hún vinnur krefjandi vinnu í eignastýringu Íslandsbanka, stundar golf eins mikið og hún getur, sinnir barnabarninu af kostgæfni, elskar að þrífa, að ferðast og njóta lífsins. Hún er ein með öllu, alin upp í Bretlandi og er andi heimilisins svolítið breskt. Heimilið ber svo sannarlega merki þess að eigandinn elskar að þrífa og gera huggulegt í kringum sig. „Frá því ég var lítil stelpa hef ég haft áhuga á því að hafa fallegt í kringum mig. Ég var alin upp á fallegu heimili sjálf svo væntanlega hef ég fengið þetta frá foreldrum mínum.“

Gulu gúmmíhanskarnir mikið notaðir

Er heimilið alltaf svona hreint?

„Já, ég er með hreingerningaræði. Tengdasonur minn segir oft: Jæja, þá er hún búin að setja upp gulu gúmmíhanskana. Þetta er nánast geggjun hjá mér, í það minnsta smábilun. Málið er bara að ég elska að þrífa og að hafa fallegt og hreint í kringum mig. Ég er skipulögð í eðli mínu og geri hlutina einfalda. Allt á sinn stað og ég er róleg með allt hreint og fallegt þar sem ég bý.“

Hvernig geturðu komið þessu þrifæði áfram?

,,Þú verður bara að koma og búa hjá mér, ég skal kenna þér,“ segir Kolbrún og brosir. Síðan lýsir hún einföldu kerfi þar sem hún kemur heim, fer úr vinnufötunum inni í skúr. Fer þar í útifötin og leggur af stað í göngu með hundinn sinn.

Hefurðu alltaf búið utan við miðborgina?

„Nei, ég hef átt mitt miðborgartímabil. Ég bjó á sínum tíma á Bergstaðastræti og síðan á Öldugötu. En þessi staður við Elliðavatnið er draumur fyrir mig og fjölskylduna. Svo ekki sé talað um hundinn minn sem elskar að fara í langa göngutúra um fallega náttúruna hér í kring.“

Heimili Kolbrúnar er mjög tímalaust. Spáir hún í nýjustu tísku og strauma?

„Nei, þegar ég geri heimili mitt þá vil ég hafa það tímalaust, í mínum anda. Ég er ekki með neina sérstaka tísku í huga. Ég vel það sem mér finnst fallegt og það sem er hlýlegt og svo held ég upp á hvít húsgögn og innréttingar. Mér finnst það skapa hreint og fallegt umhverfi.“

Veröndin er framlenging af húsinu

Hvað um veröndina. Hún er paradís, ekki satt?

„Veröndin er draumur og þú ættir að prófa að sitja úti yfir sumartímann með mér. Þvílíkt skjól og sæla sem þessi skjólveggur skapar í kringum mann. Ég bý í raðhúsalengju þar sem vaninn er að hafa brúnan við á veröndinni. Mig langaði að hafa veröndina gráa, líkt og veggina í húsinu svo hún myndi sýnast eins og framlenging af húsinu. Ég blanda svörtum blómapottum við og er mjög ánægð með útkomuna. Það var síðan í fyrra sem ég lét setja skjólvegginn þar sem mér fannst víðáttan of mikil í garðinum og ekki nægilega skjólsælt. Birgir vinur minn sem er þaulvanur að gera upp hús teiknaði vegginn fyrir mig. Hann er eiginmaður Ingu Bryndísar sem á Magnolíu og þau eru kærir vinir mínir sem ég hef átt lengi. Hann sendi mér þrjá ægilega sæta menn frá Lettlandi sem settu upp vegginn. Notagildi pallsins hefur aukist til muna við þessar einföldu framkvæmdir. Ég mæli með fyrir alla að skoða möguleikana á að búa til skjól svo hægt sé að nota garðinn betur.“

Hvernig er að vera með gler í veggnum. Þarf að pússa hann reglulega?

„Nei, veistu ég held að ég hafi aldrei pússað þetta gler.“

Kolbrún segir að fjölskyldulífið sé mjög ánægjulegt og einfalt. Unga fólkið hennar sé að safna fyrir íbúð og hún njóti góðs af því að hafa barnabarnið, hann Viktor Svan, svona nálægt sér. „Hann er algjör draumur, alltaf brosandi og dásamlegur. Það er allt önnur tilfinning að vera amma. Það er dásamlegt að verða móðir en að vera amma er það æðislegasta sem ég hef upplifað.“

Hvernig komið þið ykkur fyrir stórfjölskyldan inni á heimilinu? „Ég er í mínu svefnherbergi með góðu rými, fataherbergi og nýt þess að eiga stundir þar. Litla fjölskyldan er í gamla herbergi dóttur minnar, þar sem þau hafa breytt aðeins skipulaginu eftir að barnabarnið kom til sögunnar. Við færðum fataslá og aðra aukahluti inn í bílskúrinn. Dóttir mín málaði og gerði herbergið fallegt eftir sínu höfði. Hún ákvað að fjárfesta í góðu rúmi úr Epal fyrir barnið og mér finnst það æðislegt. Þetta rúm vex með barninu til sjö ára aldurs. Síðan finnst mér himnasængin sem hún fékk í Petit gera svo sæta veröld í kringum drenginn.“

Hannaðir þú allt sjálf í húsinu?

„Já, ég gerði það. Ég hef í gegnum tíðina verið dugleg að skoða bresk hönnunarblöð. Ég lét smíða sem dæmi eldhúsinnréttinguna eftir mínu höfði. Hann Gísli heitinn gerði það, en Gísli er sonur Guðmundar blinda sem átti smíðaverkstæðið Víði, sem var einskonar sveitasetur alvegið niðri við Elliðavatnið.“

Hvað hefur þú búið hér lengi?

„Ég flutti hingað á Vatnsenda árið 2000. Það hefur mikið breyst síðan þá. Vegirnir voru ekki malbikaðir og húsafjöldinn talsvert annar.“

Afkastar miklu og nýtur lífsins

Hver er lykillinn að góðu lífi að þínu mati?

„Í fyrsta lagi að eiga fjölskyldu sem maður nýtur að hafa nálægt sér. Að vera í skemmtilegri og krefjandi vinnu. Að eiga áhugamál. Ég er sjúk í golf og reyni að vera eins mikið í golfi og ég get. Ég fer í tvær til þrjár golfferðir á ári og svo stunda ég göngur og geng mikið í kringum Elliðavatnið með hundinn minn. Síðan borða ég hollan mat og rækta líkamann eins vel og ég get.“

Þetta er langur listi af góðum hlutum, þú hlýtur að vera góð að setja mörk?

„Ég reyni. Ég er ekki allan sólarhringinn í vinnunni en ég er í krefjandi vinnu sem endar ekki endilega klukkan fimm. Ég hef góða þekkingu á mínu sviði, hef starfað í banka í mörg ár.“

Hvaða ráð getur þú gefið tengt fjármálum?

„Ég hef lagt í vana minn að eiga fyrir því sem ég geri. Það hefur reynst mér vel. Ég fer ekki út í búð að kaupa hluti nema að ég eigi fyrir þeim. Eins fer ég vel með peninga, ég held að það sé lykillinn að heilbrigðum fjárhag.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
„Ég er með hreingerningaræði“
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál