Á 34 platta af Jóni í lit

Sædís Hrönn Samúelsdóttir er búin að koma sér vel fyrir …
Sædís Hrönn Samúelsdóttir er búin að koma sér vel fyrir á heimili sínu í Hafnarfirði. Árni Sæberg

Sædís Hrönn Samúelsdóttir á fallegt og skemmtilegt heimili í Hafnarfirði. Sædís lýsir heimilisstílnum sínum meðal annars sem listrænum og litaglöðum. Litagleðin fer ekki á milli mála og safnar Sædís til að mynda Jóni í lit sem lífgar upp á heimilið. 

Sædís segist ekki hafa tekið þátt í svarthvítu tískubylgjunni sem tröllreið öllu í innanhúshönnun fyrir nokkrum árum. Þrátt fyrir að það sé kannski eitthvað grátt heima hjá henni fer ekki mikið fyrir því. „Mér finnst það alveg fallegt en mér líður bara ekki vel í svona,“ segir Sædís. 

Sædís sækir innblástur af Pinterest og skoðar Skreytum hús-hópinn á Facebook reglulega en er sérstaklega hrifin af litum og íslenskri hönnun og þá sérstaklega íslenskri hönnun í fallegum litum eins og Jóni í lit sem hún safnar. Sædís segist ekki muna nákvæmlega hvenær hún hafi byrjað að safna Jóni í lit, kannski fyrir þremur fjórum árum. Nú eru komnir 34 plattar í safnið og Sædís segist ekki vera hætt.

Sumir hljóta að vera í sama litnum?

„Nei, þeir eru komnir í yfir 40 og svo eru svona spes litir sem koma í takmörkuðu upplagi. Þeir eru nefnilega svona margir,“ segir Sædís um safnið sitt. 

Vöruhönnuðurinn Almar Alfreðsson tók afsteypur af gömlum platta og gaf út í lit árið 2011 í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar. Sædísi langar í gamlan platta en hefur ekki enn fundið slíkan.

Hluti af safni Sædísar.
Hluti af safni Sædísar. Árni Sæberg

Sædís safnar ekki bara íslenskri hönnun heldur skapar hún hana líka. „Ég fór í hönnunarnám í Iðnskólanum í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum. Ég var til dæmis að gera helling í málmahönnun og var að vinna í járni. Ég er með fatahengi sem ég gerði og sófaborð. Þetta er alveg skemmtilegt en það tekur heillangan tíma að læra þetta. Maður er að sjóða eins og gellan í Flashdance.“

Sædís hannaði og smíðaði stofuborðið sitt.
Sædís hannaði og smíðaði stofuborðið sitt. Árni Sæberg

Það er erfitt að vinna járn heima svo Sædís er aðallega að prjóna og sauma. Þegar hún er heima situr hún gjarnan í gömlum Lazyboy-sófa sem hún tímir ekki að henda og prjónar.

„Prjóna og sauma, ég geri þetta allt. Ég fer sjaldnast eftir uppskriftum. Yfirleitt bara eitthvað sem ég geri sjálf. Teikna þetta og skissa þetta stundum. Það sem ég er aðallega að gera þessa dagana eru föt,“ segir Sædís sem segist líklega hafa erft handavinnuhæfileikana frá móður sinni. Það hafi hins vegar ekki verið verra að fara í hönnunarnámið þar sem hún lærði fleiri aðferðir.

Hvað er á óskalistanum fyrir heimilið?

„Kitchen aid-hrærivél. Mig dreymir um hana í fallegum lit. Það kæmi ekki til greina að fá sér hvíta. Það er ekki minn stíll, ef ég myndi fá hvíta þá myndi ég mála hana,“ segir Sædís að lokum og hlær.

Sædís hannaði og smíðaði þennan koll.
Sædís hannaði og smíðaði þennan koll. Árni Sæberg
Sædís skreytti ljósakrónuna með litríkum hnyklum en hún prjónar einmitt …
Sædís skreytti ljósakrónuna með litríkum hnyklum en hún prjónar einmitt mikið. Árni Sæberg
Bleikur er í uppáhaldi hjá Sædísi.
Bleikur er í uppáhaldi hjá Sædísi. Árni Sæberg
Þessi bleika hilla er hönnun Sædísar.
Þessi bleika hilla er hönnun Sædísar. Árni Sæberg
Sædís útbjó þessa hilluinnréttingu sem kemur sér vel í eldhhúsinu.
Sædís útbjó þessa hilluinnréttingu sem kemur sér vel í eldhhúsinu. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál