Kristborg Bóel losar sig við 300 hluti

Krisborg Bóel Steindórsdóttir ætlar að losa sig við 300 hluti …
Krisborg Bóel Steindórsdóttir ætlar að losa sig við 300 hluti í desember.

Kristborg Bóel Steindórsdóttir blaðamaður á Austurfrétt, rithöfundur, bloggari, sjónvarpskona og Instagram-stjarna ákvað að færa sjálfri sér aðeins öðruvísi jóladagatal í ár. 

„Í desembermánuði mun ég í heildina losa mig við 300 hluti af heimilinu, hluti, föt eða annað sem ekki hefur lengur hlutverk hjá okkur og eiga skilið að eignast innihaldsríkara framhaldslíf annarsstaðar.

Hugmyndina fékk ég þegar ég tók viðtal fyrir Austurfrétt við Ágústu Margréti Árnadóttur á Djúpavogi en hún hún ætlar að losa 2100 hluti af sínu heimili í desember.

Vel þekkt er innan þeirra sem að aðhyllast svokallaðan minimalískan-lífsstíl, að fara reglulega í gegnum eigur sínar og grynnka á þeim með markvissum hætti. Þá er algengt að fólk velji ákveðinn mánuð og losi sig við einn hlut fyrsta dag hans, tvo hluti annan daginn og svo framvegis þangað til mánuðurinn er liðinn. Ágústa kaus að hjóla í þetta í desember og gera úr því hálfgert jóladagatal í leiðinni, þar sem aðfangadagur verður síðasti dagurinn. Hún ákvað að taka þetta skrefinu lengra og margfalda með sjö, einn skammt fyrir hvern heimilismeðlim, í heildina 2100 hluti.

Ég ætla aðeins að losa um „eina einingu“ þrátt fyrir að við búum fleiri á heimilinu að staðaldri. Ég ákvað líka að snúa tölfræðinni við, ég losaði 24 hluti 1. desember, 23 hluti 2. desember og svo koll af kolli þar til á aðfangadag þegar ég kveð einn hlut. Mér fannst sú leið henta mér betur, að vera með meiri þunga í yfirferðinni fyrri hluta mánaðarins,“ segir Kristborg Bóel.  

Hvers vegna ákvaðstu að gera þetta?

„Ég hef síðustu mánuði meðvitað reynt að einfalda líf mitt og draga úr streitu. Í því tilliti hefur mér þótt gott að einfalda mitt nánasta umhverfi sem er heimilið mitt. Ég fann fyrst almennilega fyrir þeirri þörf eftir að ég skildi haustið 2015, að ég vildi bara halda eftir hlutum og dóti sem ég væri að nota, mér þættu fallegir og skiptu mig máli. Þá fór ég markvisst í gegnum mest allt dótið mitt, auk þess sem ég hef flutt oftar en góðu hófi gegnir undanfarin ár og alltaf losað eitthvað í hvert skipti. Ég átti því ekki mikið umfram-magn af dóti núna, en það er ótrúlegt hvað safnast þó bara á tveimur árum og ég veit að ég á eftir að fara létt með að klára þetta 300 hluta markmið. Svo er ég ekta steingeit, enda fædd 2. janúar, á sjálfan vörutalningadaginn. Það stjörnumerki hefur verið kennt við mikið skipulag og ég tengi vel við það, mér líður best ef ég hef yfirsýn yfir heimilið mitt, veit hvað ég á og hvar hlutirnir eru.“

Þessi tiltekt er rétt að byrja, hvernig líður þér með þetta? Hverju mun þetta skila?

„Í rauninni er ég rétt tæplega hálfnuð í dag vegna þess að ég snéri kerfinu við og byrjaði á því að losa 24 hluti og vinn mig svo niður, en ég er því búin að koma 147 hlutum í ferli.

Mér líður mjög vel með þetta, en við erum eins misjöfn og við erum mörg, það sem hentar mér er alls ekki það sem hentar einhverjum öðrum. Sumir vilja hafa mikið í kringum sig og það er bara frábært, en það hentar mér hins vegar ekki lengur.

Ég var einmitt spurð að því um daginn hvort ég myndi þá núna bara losa mig við allt sem mér væri gefið. Það er alls ekki þannig og ég er ekki að losa mig við hluti bara til þess að losa mig við hluti. Það er ekki þannig að ég ætli ekki að eiga neitt lengur, hætta að taka við gjöfum eða kaupa mér það sem vantar inn á heimilið. Ég er ekki að stefna að því að íbúðin mín sé að verða eins og skurðstofa með tóma veggi og bara ein stáltöng á borðinu. Engan vegin. Ég er mikil heimilismanneskja og finnst gaman að koma mér fyrir og gera heimilið að þeim griðarstað fyrir fjölskylduna sem hann á að vera. Það er þó alltaf mitt að velja hvað ég vil hafa í umhverfi mínu alla daga og ég vel að halda því sem við erum að nota, okkur finnst fallegt eða veitir okkur gleði.

Þegar ég tala um „hluti“ þá hefur það víða merkingu í þessu samhengi. Það geta verið föt sem annað hvort eru slitin eða heimilismeðlimir hættir að nota. Einnig leikföng sem ekki eru lengur í notkun eða þá skemmd. Það geta verið hlutir til heimilishalds, en ég þarf til dæmis ekki að eiga fimm trésleifar. Götóttir sokkar, of litlir skór, rifið teygjulak eða hálftómar túbur með útrunnu kremi og svo framvegis.

Núna þegar yfirferðin er hálfnuð er ég búin að fara yfir öll rými og skápa í íbúðinni minni, að unglingaherbergjunum undanskildum, þau bara gera þetta á sínum forsendum, hafi þau áhuga á því. Einnig hef ég farið einstaka ferðir í geymsluna og þar bíður mín verðugt verkefni. Hvað þarf kona til dæmis að eiga mörg skrúfjárn af sömu stærð? Já og af hverju á ég fimmtán skrúfjárn? Hvað ætla ég líka að flytja oft með fullan kassa af snúrum sem ég hef ekki notað í fimm ár og veit ekki einu sinni af hverju eru?

Enn sem komið er hefur ekkert farið í ruslið nema fjögur uppþornuð naglalakksglös. Hitt er á leiðinni í Rauða krossinn, bæði hlutir og lín. Einn poki er á leiðinni í hjálparstarf kirkjunnar sem var að auglýsa eftir betri fötum á börn og fullorðna. Útiföt sem hafa legið ónotuð um hríð sendi ég í gistiskýlið í Reykjavík sem var að auglýsa eftir slíku. Það er því engin spurning að út frá mínum bæjardyrum séð er þetta „win-win situation“ – ég kem umhverfi mínu í það horf sem ég vil hafa það og vonandi kem þeim hlutum sem ég vil kveðja á stað sem þeir nýtast betur á.

Ég finn töluverðan áhuga á þessum málum í samfélaginu sem og að fólk er að leggja sig fram um að einfalda jólahátíðina til muna. Ég hef skrifað um hvort tveggja á bloggsíðunni minni og svo sýni ég daglega frá hreinsunareldinum á Instagramsíðunni minni og þar í geng hafa nokkrir hlutið öðlast nýtt líf síðustu daga,“ segir Kristborg Bóel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál