Bjó í lítilli íbúð og átti of mikið af öllu

Þórdís V. Þórhallsdóttir átti allt of mikið dót.
Þórdís V. Þórhallsdóttir átti allt of mikið dót. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís V. Þórhallsdóttir starfar hjá Landsvirkjun og er sérfræðingur í „lean“ stjórnunarháttum. Hún segir að hún tileinki sér minimalíska hugsun um jólin. Hugmyndina um að eiga nóg, gera nóg en njóta augnabliksins með þeim sem hún elskar yfir hátíðirnar. 

Ég nota minimalíska hugsun bæði í leik og starfi. Þá sér í lagi það sem snýr að mér. Að viðhalda gæðunum í lífinu, einfalda leiðina, minnka bið og sóun og auka virðið.“

Hvert rekur þú upphafið að því að þú varðst minimalisti?

„Ég held að ég hafi alltaf haft þessa hugsun undirliggjandi í huga, þó það hafi ekki verið meðvitað. Hér á árum áður bjó ég í lítilli íbúð. Mér fannst ég alltaf vera að færa til hluti. Hlutir hlóðust upp á matarborðinu og víðar, ég var góð í að skipuleggja, svo flest allt var vel skipulagt í íbúðinni, en ég átti of mikið af öllu. Síðan las ég grein í blaði um fjölskyldu sem átti einungis eitt sett af naglaklippum og ég fór að velta fyrir mér: Er raunverulega hægt að eiga eitt sett af öllu?

Ég byrjaði á því að setja kassa í eitt hornið á litlu íbúðinni minni og ákvað að setja í kassann hluti sem ég vildi losa mig við. Ég hélt að það tæki langan tíma að fylla kassann. Til að gera langa sögu stutta þá fór ég vikulega í Sorpu, í 16 vikur.

Í upphafi byrjaði þetta bara á mér. Enda tel ég eðlilegt að hver og einn taki ábyrgð á þessu gagnvart sér. Eiginmaður minn sem er mikill minimalisti í grunninn fylgdi fast á eftir og síðan börnin mín þrjú. Yngsta barnið og það elsta tóku fyrst við sér, en miðjan mín sá ljósið smátt og smátt. Enda erum við mannfólkið ólíkt í grunninn og mér finnst allir verða að fá að taka þessa hluti á sínum hraða,“ segir Þórdís.

Hún útskýrir hvernig hún hafi upplifað á eigin heimili að of mikið var til af öllu. Sem dæmi átti eiginmaður minn sjö íþróttaboli en hann notaði einungis tvo af þeim. Í staðinn fyrir að eiga fulla skúffa af fatnaði sem maður notar aldrei, af hverju ekki að koma fatnaðinum í umferð á öðrum og gefa sér þá leyfi til að kaupa aðra tvo boli sem maður notar? Ég held að hlutir vilja láta nota sig, og að sama skapi getur verið ánægjulegt að koma hlutunum í verð eða gefa áfram til þeirra sem hafa áhuga á að nota þá.“

Hvað með jólahátíðina? „Í þessari litlu þröngu íbúð sem við bjuggum í, var jólaskrautið fyrir mér. Ég hlakkaði ekki til að skreyta, og hlakkaði alltaf til að taka jólaskrautið niður. Þegar við síðan stækkuðum við okkur þá hélt ég áfram að skoða hlutina í kringum mig og velta fyrir mér hvort mig langaði að halda í þá eða ekki. Hvernig orka var í kringum hlutina og hvort mig langaði kannski bara að eiga mynd af hlutunum og koma þeim síðan áfram. Þetta voru þá hlutir sem áttu tilfinningalegt gildi úr æsku sem dvöldu í kassa og enginn naut.

Þannig hugsun notaði ég einnig á jólaskrautið mitt sem mig langaði ekki lengur að eiga. Það gaf mér síðan tilefni til að kaupa það sem mig langaði að eiga og var í stíl við mig og fjölskylduna mína í dag.“

Margir staðir sem taka við dóti

Hvert ferðu með hluti sem þig langar ekki að eiga lengur? „Ég mæli með Hjálparstofnun kirkjunnar, nytjamarkað þeirra fyrir neðan Grensáskirkju. Síðan mæli ég með leikskólum eða stofnunum sem hægt er að heimsækja og bjóða hluti sem þeir oft nota á þemadögum og fleira þeim dúrnum.“

Þórdís segir fólk stundum misskilja minimalisma. „Þegar fólk kemur inn til mín er ekki endilega það fyrsta sem því dettur í hug hvað er lítið af hlutum. Ég er ekki í keppni við aðra um að eiga sem minnst. Heldur er þetta meira þannig að ég á þá hluti sem mig langar að eiga, allir hlutir eiga sinn stað og ég á oftast ekki fleiri ein eitt sett af hlutunum. Þegar kemur að jólunum þá nýti ég hluti sem eru kannski uppi allan ársins hring, en skreyti þá með greinum og fleira sem minna á jólin.“

Þórdís nefnir sem dæmi skandinavíska álfa sem eru uppi allan ársins hring en breytast í kransaskreytingu fyrir jólin.

Ekki geyma hluti fyrir aðra

Hvað mælir þú með að fólk geri sem eru safnarar en vilja losa um dót hjá sér? „Ég tel mig vera safnara í eðli mínum, þess vegna er ferlið alltaf ákveðið átak fyrir mig. En ég mæli með að fólk geymi ekki hluti sem hafa tilfinningalegt gildi fyrir aðra en þá. Taktu mynd af hlutnum og komdu honum síðan áfram á þá sem munu nota ef þú ert ekki að fara að gera það. Eins þegar kemur að fataskápnum, þá er gott að vera með aukabúð niðri í geymslu. Ef þú ert með fimm peysur uppi í fataskápnum og ein af peysunum er orðin of gömul að nota, þá má alltaf sækja eina niður í geymslu. Það sama má segja um hluti í eldhúsinu. Sem dæmi: Ef þú átt einn fallegan disk að setja undir mat og þig langar að halda í að eiga einn. Færð annan að gjöf, ekki hika við að losa þig við þann eldri og koma á góðan stað þar sem hann verður notaður áfram.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Dót sem vill láta leika við sig

Þórdís segir Toystory 3 lýsa þessari hugsun hvað best. „Þegar aðalpersónan er orðinn unglingur og hættur að leika með dótið sitt þá gefur hann það áfram og segir: Ég geri það af því dót vill láta leika við sig. Það hefur ekki gaman af því að liggja í kassa. Það er falleg hugsun að mínu mati.“

Þegar kemur að samverustund með fjölskyldunni um jólin þá segir Þórdís hugmyndafræði minimalista eiga við. „Ég reyni að gera færri hluti og njóta þeirra betur. Ég hef prófað að vera með mikið að gera og við urðum öll svo þreytt að við fengum ekkert út úr hlutunum. Í staðinn fyrir að baka 17 sortir, af hverju ekki að bara bara eina? Þreyttir foreldrar sem reyna að gera allt fyrir jólin, eru ekki endilega að skapa áhugaverðustu minningarnar með börnunum sínum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál