Hefur flutt 10 sinnum á 12 árum

Kristborg Bóel Steindórsdóttir hefur flutt 10 sinnum á 12 árum.
Kristborg Bóel Steindórsdóttir hefur flutt 10 sinnum á 12 árum.

Kristborg Bóel Steindórsdóttir fjölmiðlakona hefur flutt 10 sinnum á 12 árum og finnst það skemmtilegt. Hún leggur mikið upp úr því að hafa fallegt í kringum sig en hefur sjaldan átt aukapeninga til að kaupa dýr húsgögn. Með hagsýni og skapandi hugsun nær hún alltaf að búa sér til fallegt umhverfi. 

Fyrir tólf árum flutti ég frá Reykjavík, aftur á æskuslóðir austur á land. Á þessum árum hef ég afrekað það að skilja tvisvar sinnum og er það vissulega ástæða tveggja þessara öru húsnæðisskipta, svona í bland við það að vera á leigumarkaði sem er aldrei sérlega tryggt ástand,“ segir Kristborg Bóel aðspurð hvers vegna hún hafi flutt svona oft.

Kristborg Bóel segist hafa gaman af því að flytja en frá því hún var stelpa hefur henni alltaf þótt gaman að breyta og bæta.

„Í raun þykir mér það virkilega skemmtilegt, þó svo sumar aðstæður séu vissulega meira upplífgandi en aðrar. Ég hef mikinn áhuga og ánægju af öllu innanhússbrasi og einnig þeirri hreiðurgerð sem flutningum fylgir. Þegar ég var lítil sneri ég reglulega öllu á hvolf í herberginu mínu, ég veit ekki hvað rúmið og rörahillurnar voru búnar að fara marga hringi milli veggja í það heila,“ segir hún.

Það eru til fjölmörg trix sem auðvelda flutninga og lumar Kristborg Bóel á einu slíku.

„Merkja kassa vel! Annars finnst mér langbest ef ég hef haft færi á því að flytja á þann hátt að ég hendi kössum markvisst inn í það herbergi sem þeir eiga heima í stað þess að stafla öllu inn í alrýmið. Ég veit fátt meira yfirþyrmandi en kassafjall á stærð við áramótabrennu og hafa ekki hugmynd um hvað kemur upp úr hvaða kassa.“

Það að flytja kallar á verksvit og handlagni. Það þarf að taka niður hillur og ljós og fleira í þeim dúr. Þegar Kristborg Bóel er spurð út í þessi atriði segist hún reyna að bjarga sér sjálf.

„Sko. Ég bý ein og bara reyni eftir fremsta megni að redda mér sjálf. Eða nei, auðvitað bý ég ekki ein, heldur er ég eini fullorðni einstaklingurinn á svæðinu. Mér finnst minna mál að taka niður dót en setja upp, þá stundum hringi ég í vin. Ég dreg mörkin svo við allt það sem rafmagni viðkemur, ég er skíthrædd við það.“

Óþarfa dót fékk að víkja í desember þegar Kristborg Bóel fór í mikið átak í að losa sig við óþarfa sem hafði safnast upp á heimilinu.

„Síðustu ár hef ég alltaf verið að hallast meira að einfaldleikanum. Ég hef síðustu mánuði meðvitað reynt að einfalda líf mitt og draga úr streitu. Í því tilliti hefur mér þótt gott að einfalda mitt nánasta umhverfi sem er heimilið mitt. Ég fann fyrst almennilega fyrir þeirri þörf eftir að ég skildi haustið 2015, að ég vildi bara halda eftir hlutum og dóti sem ég væri að nota, mér þættu fallegir og skiptu mig máli. Þá fór ég markvisst í gegnum mestallt dótið mitt, auk þess sem ég hef aldrei náð að sanka að mér miklu umframdóti á þessum eilífu flutningum.

Í desember losaði ég mig svo við 300 hluti af heimilinu, hluti, föt eða annað sem ekki hefur lengur hlutverk hjá okkur og eiga skilið að eignast innihaldsríkara framhaldslíf annars staðar. Vel þekkt er hjá þeim sem aðhyllast svokallaðan mínímalískan lífsstíl að fara reglulega í gegnum eigur sínar og grynnka á þeim með markvissum hætti. Þá er algengt að fólk velji ákveðinn mánuð og losi sig við einn hlut fyrsta dag hans, tvo hluti annan daginn og svo framvegis þangað til mánuðurinn er liðinn.

Svo er ég ekta steingeit, enda fædd 2. janúar, á sjálfan vörutalningardaginn. Það stjörnumerki hefur verið kennt við mikið skipulag og ég tengi vel við það, mér líður best ef ég hef yfirsýn yfir heimilið mitt, veit hvað ég á og hvar hlutirnir eru,“ segir hún.

Hvað drífur þig áfram þegar kemur að flutningum?

„Mér þykja flutningar vandræðalega spennandi og skemmtilegir og þykir í raun ekkert súrt við þá nema að þrífa mig út, það er líka virkilega leiðinlegt. Flutningar eru líka ákveðið upphaf og ég er orðin alger meistari í að koma mér vel fyrir og gera umhverfið að mínu á skömmum tíma.“

Nú ertu búin að einfalda lífið mikið, yrðir þú ekki mjög fljót að flytja næst?

„Í raun hef ég síðastliðin tólf ár ekki safnað miklu umframdóti og því varð engin stórfengleg breyting við desembergjörninginn, en dót virðist fjölga sér á ævintýralegan hátt í kringum mann. Ég hef búið á sama stað núna í tvö og hálft ár og sigli fljótlega inn í enn eitt flutningstímabilið. Ég er farin að huga að því og þar sem ég náði bara rétt að byrja á geymslunni í desember er hún á dagskrá í næsta barnlausa tímabili, en ég ætla að haga þeirri yfirferð þannig að ég taki ekki einn einasta hlut með mér á nýjan stað nema hann þjóni tilgangi eða bindist mér tilfinningaböndum, en þá á ég til dæmis við jólaskraut eða listaverk eftir börnin mín.“

Börnin hennar fjögur á góðri stund í borðstofunni.
Börnin hennar fjögur á góðri stund í borðstofunni.

Hvernig finnst þér best að hafa umhverfi þitt?

„Sko. Það er eitthvað stórmerkilegt og ferlega skemmtilegt að gerast innra með mér. Mig langar að gera breytingar á heimili mínu, byggja við það sem fyrir er. Ég veit ekki hvort heimilisstíllinn minn í dag flokkast undir naumhyggju. Nei, ég held ekki, frekar mætti kalla hann einfaldan, eða látlausan. Ég hef rekið heimili í rúm tuttugu ár. Á þeim tíma hefur aldrei verið til neinn extra peningur á heimilinu, hvort sem ég hef verið í sambúð eða búið ein, til þess að hægt sé að kaupa dýr húsgögn eða hluti, hvað þá skipta öllu út eins og margir gerðu í góðærinu. Í dag finnst mér það afar jákvætt, þó svo að á sínum tíma hefði ég verið til í að taka þátt í flippinu.

Búslóðin mín hefur því safnast að mér hægt og rólega, ég hef tekið hluti inn og hent öðrum út. Fátt í henni er mér það kært að ég ætti erfitt við að losa mig við það. Jú, ég hef reyndar sagt að fyrr myndi ég ganga um í sömu fötunum í fimm ár heldur en að losa mig við hvítu Sjöurnar mínar fjórar, eldhússtólana mína hannaða af Arne Jacobsen, en þá keypti ég mér fyrir peningana sem ég fékk í þrítugsafmælisgjöf. Ekki heldur myndi ég nokkurn tímann losa mig við gömlu kommóðuna sem pabbi gerði upp handa mér; líklega 100 ára gömul kommóða úr gegnheilum viði. Annað, já alveg eins.

Ég hef sem sagt staðið mig að því að hanga á Pinterest síðustu vikur og skoða Bohemian-innréttuð heimili. Ó, hvað mér finnst þau falleg. Allt þetta flauel, blóm, litir, mynstur og bast – já bara þessi sjúklega miklu þægilegheit. Ég er reyndar líklega „Bohemian light“ – myndi vilja blanda þessu við minn stíl.

Nú setja líklega nokkrir spurningarmerki við það sem ég er að segja svona í ljósi þess að ég hef að undanförnu talað fyrir því að vera með lítið í kringum mig og losa mig við óþarfa. Mér finnst þetta algerlega geta farið saman, enda hef ég alltaf sagt að ég sé ekki að losa mig við dót til þess eins að losa mig við það, heldur vel ég að láta það frá mér sem vekur ekki hjá mér gleði eða rímar við minn smekk.

Næst þegar ég flyt og þá sérstaklega þegar ég kemst í mitt eigið húsnæði ætla ég að færa mig nær þessu. Heimili fyrir mér er griðastaður þar sem öllum á að líða vel, svona eins og fuglum í hreiðri. Mér finnst þessi stíll samnefnari fyrir það, afslappaður og kósí.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál