Myndirnar þurfa að vera góðar

Nadia Katrín Banine.
Nadia Katrín Banine.

Íslendingar þekkja Nadiu Katrínu Banine úr þáttunum Innlit/útlit sem sýndir voru á SkjáEinum. Þar heimsótti hún fólk og tók húsnæði í gegn. Sú reynsla nýtist henni vel í starfi en í dag er hún löggiltur fasteignasali hjá Landmark en hún starfar einnig við innanhússráðgjöf. 

Hvað þarf fólk að hafa í huga áður en það setur íbúð á sölu?

„Að vanda til verka, klára frágang og annað smotterí sem hefur kannski setið á hakanum og gera eignina sem frambærilegasta fyrir myndatöku. Snyrtileg og falleg eign segir líka mikið um seljandann og gefur kaupandanum til kynna að vel hefur verið hugsað um eignina.“

Hvernig þarf fólk að taka til fyrir myndatöku? Mælir þú með að fólk minnki dót eða pakki því hreinlega niður eða skiptir það engu máli?

„Það sem fólk er oftast að leita eftir er birta og fermetrar. Þess vegna getur verið mikilvægt að fækka aðeins hlutum og í sumum tilvikum pakka niður. Þegar fólk er að setja eignina sína á sölu þarf á einhverjum tímapunkti að pakka niður og oft er alveg eins gott að byrja bara snemma. Eins getur allt virst þrengra og minna ef mikið er í gluggakistum og á borðplötum og þá getur verið góð hugmynd að hafa nokkra hluti saman í þyrpingu frekar en að dreifa úr þeim. Eins getur verið gott að fjarlægja mjög persónulega muni og trúartákn. Best er fyrir kaupandann ef auðvelt er fyrir hann að sjá sig og sína muni í rýminu sem fyrir er,“ segir Nadia Katrín.

Getur skipt máli að breyta

í íbúðinni fyrir sölu?

„Í sumum tilvikum þá verð ég að segja já. Þetta er oft aleigan hjá fólki sem við erum með í höndunum og miklu máli skiptir að gera henni eins góð skil og mögulegt er. Stundum er uppröðunin þannig hjá fólki að rýmin virðast minni en þau eru í raun og veru og legg ég þá til hugmynd að enduruppröðun til að þau njóti sín sem best. Annað sem mér finnst skipta máli er að hvert rými hafi sitt hlutverk þannig að það virki ekki sem „dautt“ pláss sem nýtist ekki fyrir neitt,“ segir hún.

Hvað um fasteignaljósmyndir, hvað skiptir máli þar?

„Myndirnar eru það fyrsta sem fólk skoðar og skiptir það gífurlega miklu máli að þær séu unnar af fagaðila. Það eru þær sem vekja áhuga hjá fólki og fá það til þess að vilja koma og skoða eignina. Dökkar og óskýrar myndir geta virkilega eyðilagt fyrir sölu. Einnig þarf að huga að því við myndatöku hvað gæti verið falleg forsíðumynd og líklegast til að sýna bestu eiginleika eignarinnar. Svo finnst mér líka mikilvægt að raða myndunum upp í þannig röð að það leiði kaupandann í gegnum eignina. Það er oft ruglingslegt að skoða myndir af fasteignum þar sem það er erfitt að átta sig á flæðinu í íbúðinni.“

Mælir þú með að fólk máli íbúðina fyrir sölu ef hún er orðin sjúskuð?

„Málning er ekki eitthvað sem kostar allt of mikla peninga og vissulega hjálpar það til ef að íbúðin er nýmáluð. Stundum er nóg bara að taka einn og einn vegg. Allt sem fólk gerir til þess að íbúðin líti sem best út hjálpar til en ég myndi ekki mæla með að fólk færi í dýrar framkvæmdir til þess að selja eignina. Það er ekkert endilega að skila sér til baka í verðinu. En hvert tilfelli er auðvita einstakt og er margt sem spilar þar inn í.

Hvað kemur alltaf vel út að gera fyrir sölu?

„Að aðkoman sé falleg og snyrtileg. Hvað er það fyrsta sem fólk upplifir þegar það kemur. Er bjart í eigninni, gott loft og snyrtilegt um að litast? Afgerandi lykt getur til dæmis verið mjög fráhrindandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál