Hvernig safnar fólk fyrir íbúð?

Það að eignast íbúð er stórmál og yfirleitt verður ekki af fyrstu fasteignakaupum nema fólk leggi mikið á sig og sé til í að sleppa öllum óþarfa. Ef það væri auðvelt að spara fyrir íbúð myndu allir gera það en svo eru aðstæður fólks misjafnar og þarf að taka marga þætti inn í jöfnuna. Það eru margar leiðir til guðs eins og sagt er en hér eru nokkrar frásagnir af fyrstu íbúðarkaupunum. 

„Ég samdi við eldri systur mína. Fékk veð í hennar íbúð gegn því að ég aflétti því innan 5 ára. Var í 3 vinnum í 2 ár og seldi svo íbúðina, aflétti veðinu og gat keypt næstu íbúð hjálparlaust. Er systur minni ævarandi þakklát,“ segir íslensk kona á fimmtugsaldri.

„Ég fékk smá arf, en keypti alltof dýra íbúð. Ég man að ég lokaði bara augunum og skrifaði undir! Ég bara varð að fá þessa íbúð, og að sjálfsögðu reddaðist það,“ segir íslensk kona á sextugsaldri.

„Ég vann öll sumur frá 13 ára aldri og með skóla. Lagði fyrir það sem fór ekki í mat eða leigu. Keypti svo ponsulitla íbúð, 33 fm, þá 21 árs, seldi nokkrum árum seinna og stækkaði við mig,“ segir kona á fertugsaldri.

„Keyptum fyrstu íbúðina okkar 1999, fengum lán hjá Íbúðalánasjóði, viðbótarlán og svo bankalán fyrir útborguninni. Ég var í námi, vann á 2 stöðum, betri helmingurinn í sinni vinnu. Ég tók engin námslán og þetta var drulluerfitt og við leyfðum okkur ekkert. Fengum lánuð og gefins húsgögn. Mér finnst því miður kröfurnar sem fólk gerir í dag ekki hjálpa, það verður að vera íbúð á vissum stað og liggur við allt nýtt inn. Á þessum tíma keyptum við íbúð á stað sem við vorum sátt við, en það þurfti að taka hana aðeins í gegn, en við sáum þetta sem stökkpall í það sem við vildum seinna.“

„Þegar ég keypti mína fyrstu íbúð var engin krafa um að allt þyrfti að vera eins og hönnunarblaði. Búslóðin var eins og innbú útigangsmanns og mér var sama. Ég vann með skólanum og lagði fyrir. Á leiðinni hafði ég keypt bíl sem ég gat selt seinna þegar mig vantaði peninga upp í lokagreiðsluna. Í þá daga, fyrir um 20 árum, þurfti enginn að eiga flottasta símann, vera stöðugt á ferðalögum um heiminn eða eyða í einhvern lúxus. Maður var bara eins og lúði, en var alsæll því maður átti þak yfir höfuðið,“ segir karl á fimmtugsaldri.

„Ég vann 16 tíma á dag við hvert tækifæri. Og svo hafði pabbi laumast til að leggja fyrir í sjóð það sem ég borgaði heim, það dugði fyrir útborgun í 30 fm íbúð,“ segir kona á fimmtugsaldri.

„Það hefur ALLTAF verið erfitt að kaupa fyrstu íbúðina en kröfurnar hafa breyst gífurlega,“ segir kona á fertugsaldri.

„Ég bar út Moggann sem unglingur og vann með skóla og lagði fyrir og fékk svo lán fyrir rest! Keypti 2012/2013 frábæra íbúð,“ segir kona á fertugsaldri.

Hef aldrei safnað fyrir íbúð

 

Sigurbjörg Arnarsdóttir grafískur hönnuður.
Sigurbjörg Arnarsdóttir grafískur hönnuður.

Sigurbjörg Arnarsdóttir grafískur hönnuður keypti íbúð með systur sinni 1997. Hún segir hér frá því hvernig hún fór að því að safna sér fyrir íbúð og hvernig það hafi verið að búa með systur sinni.


Hvernig safnaðir þú þér fyrir íbúð?

„Ég hef aldrei safnað fyrir íbúð. Ég var nýbúin í námi árið 1997 og átti ekki krónu. Systir mín sem líka var nýlega búin í námi átti 500 þúsund krónur. Við duttum niður á íbúð í miðbænum sem kostaði 5,7 milljónir. Hún var yfirveðsett og það hvíldu á henni 5,2 milljónir. Við buðum bara uppsett verð og fengum hana. Þessi íbúð var alveg í rúst og hafði verið dópgreni áður en við tókum við henni. Við fengum 500 þúsund króna lán í bankanum og komum okkur inn fyrir þann pening með góðri hjálp frá pabba. Á næstu árum bættum við svona 1 milljón til viðbótar í lagfæringar,“ segir hún.

Aðspurð hvernig sambúð þeirra systra hafi verið segist hún mæla með þessu.

„Við bjuggum saman í sjö ár. Að þeim tíma loknum seldum við íbúðina á 14,7 milljónir, þá voru húsbréf í gangi og fengum við yfirverð þegar þau voru seld. Þessir peningar sem við fengum á milli dugðu til þess að við keyptum okkur báðar 3 herbergja íbúðir og eru grunnurinn að þeim eignum sem við eigum í dag.“

Hvernig var að eiga íbúð með systur sinni?

„Það var bara yndislegt að búa með systur sinni. Það er lítill aldursmunur á okkur og okkur kom mjög vel saman og gerir enn í dag.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál