Svona forðastu stress og áhyggjur

Karitas Sveinsdóttir, hönnuður og eigandi HAF studíó.
Karitas Sveinsdóttir, hönnuður og eigandi HAF studíó.

Karitas Sveinsdóttir, innanhússhönnuður og eigandi HAF STORE og HAF STUDIO, segir bjarta liti vinsæla um þessar mundir. Hún segir alltaf í tísku að þiggja aðstoð fyrir fermingar og fólk ætti að sama skapi að forðast stress. 

Hvað er í tísku tengt fermingum í ár?

„Ég myndi segja að bjartir litir væru áberandi um þessar mundir. Fallegt er að velja einn þemalit sem verður mest áberandi í skreytingunum, t.d. í servíettum, kertum og blómum þó svo það sé fallegt að blanda öðrum tónum með í blómavalið. Mér finnst alltaf fallegast að vera með látlausan dúk en leyfa skreytingunum að njóta sín.“

Hvaða blóm munu gera gæfumuninn á borðið?

„Afskorin blóm í mismunandi björtum litum eða fallegar greinar gera veisluborð falleg að mínu mati. Blandaðir vendir af ýmsum gerðum myndi ég halda að yrðu mjög vinsælir, en það eru síðan kannski ekki öll börn sem vilja blóm. Þá er mjög fallegt að blanda saman ýmsum gerðum af afskornum greinum og skreyta með þeim.“

Hvernig skreytir þú fyrir stórar veislur?

„Mér finnst sjálfri alveg ómissandi að hafa nóg af fallegum afskornum blómum, kertaljósum í ýmsum stærðum og það setur líka alveg punktinn yfir i-ið að bera veitingarnar fram á mismunandi kökudiskum og bökkum. Þetta gerir borðið alveg ótrúlega girnilegt og glæsilegt og setur svo skemmtilega dýpt í það þegar veitingarnar eru sumar hækkaðar vel upp á kökudiskum meðan aðrar eru á fallegum bökkum.“

Að hverju ættu fermingarforeldrar að huga?

„Ég myndi mæla með að barnið fengi að taka þátt í undirbúningi og vera með í að velja hvaða litaþema, blóm og skreytingar eru notuð. Það er nokkuð sem ég man sjálf eftir að hafa þótt ótrúlega skemmtilegt og vera partur af skipulagi á minni fyrstu stóru veislu.“

Hvernig nýtist námið þitt í svona vinnu?

„Í raun má segja að þetta tengist ekki beint starfi mínu sem innanhússarkitekt, en ætli það sé ekki frekar áhuginn sem ég hef á því að skreyta og skipuleggja.

Áhugi minn er m.a. ein af ástæðum þess að við hjónin ákváðum að opna HAF STORE; þar fæ ég að njóta áhuga míns á að skreyta og taka á móti pöntunum á vöndum og skreytingum.“

Áttu góða nýja hugmynd sem gæti gert gæfumuninn í fermingarveislunni?

„Það er vinsælt í dag að finna góðan stað, þar sem veislan er haldin, fyrir skreyttan myndavegg. Þar er hægt að taka fjölskyldumyndir sem lifa um ókomna tíð. Ég veit til þess að það sé hægt að leigja alls kyns tæki og tól fyrir slíkar myndatökur, en einnig er mjög skemmtilegt að útbúa og skreyta sinn eigin myndavegg og notast við síma og/eða myndavél.“

Hvað klikkar aldrei að gera í veislum?

„Ég myndi segja að þiggja aðstoð frá þeim sem bjóða. Það geta verið þó nokkur handtökin við svona veisluhöld, hvort sem hún er haldin heima eða í sal. Einnig er það bara að muna að njóta samveru og stundar með fólkinu sem maður elskar.“

Hvað ætti maður að forðast?

„Ég tel mikilvægt að vera í tíma með alla hluti og forðast með því stress og óþarfa áhyggjur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál