Eignir sem líta vel út seljast betur

Ingibjörg Þórðardóttir.
Ingibjörg Þórðardóttir.

Við val á fasteign er gott að skoða hversu auðvelt er að komast til og frá vinnu. Bílskúr eða kjallaraherbergi sem nýta má sem íbúðareiningu og leigja út getur létt greiðslubyrðina. 

Kaup á fasteign ein stærsta einstaka fjárfestingin sem fólk ræðst í á lífsleiðinni, og mikilvægt að velja góða eign sem hæfir þörfum kaupenda hverju sinni. Vitanlega er einnig mikilvægt að eignin haldi verðgildi sínu og auðveldlega gangi að finna kaupanda þegar kemur að því að selja

Ingibjörg Þórðardóttir er löggiltur fasteignasali hjá Híbýli fasteignasölu og fyrrverandi formaður Félags fasteignasala. Hún segir að við val á eign sé það yfirleitt stærð og staðsetning sem ráði mestu, sem og að eignin fullnægi þörfum kaupanda og fjölskyldu hverju sinni. Kaupendur verði t.d. að huga að því hversu greiðlega þeim mun ganga að komast til og frá vinnu, og hvort börnin muni eiga auðvelt með að komast gangandi í skóla og frístundastarf. „Mörgum hugnast að búa miðsvæðis og reyna að lifa bíllausum lífsstíl, en aðrir verða að taka bílinn með í reikninginn og gætu þá valið sér húsnæði á svæði þar sem góðar líkur eru á að umferðartími í og úr vinnu sé sem stystur.“

Flestir flytja nokkrum sinnum

Ingibjörg segir að við fasteignakaup eigi fólk almennt að reyna sjá fyrir nokkur ár fram í tímann hverjar þarfir fjölskyldunnar eiga eftir að verða en flestir þurfi þó að skipta um húsnæði að minnsta kosti fjórum til fimm sinnum á lífsleiðinni, í samræmi við það hvernig fjölskyldan stækkar og þarfir heimilismeðlima breytast.

„Margir hafa áhuga á að eignast fasteign sem býður upp á sveigjanleika í notkun, og jafnvel þannig að unnt sé að búa til aukaíbúð eða innrétta bílskúr sem gæti nýst sem íbúðareining, verið tekjulind og þannig létt greiðslubyrði áhvílandi lána,“ segir hún og minnir jafnframt á að íbúðareigendur ættu að gera ráð fyrir því að verja þurfi ákveðnum fjármunum, jafnvel ár hvert, í viðhald og endurbætur á húsnæði, ásamt því að greiða ýmis gjöld og skatta sem fylgja því að eiga fasteign.

Á undanförnum árum hefur verið mikill uppgangur í byggingu íbúðarhúsnæðis og margir hafa kosið að kaupa nýja fasteign enda fylgi þeim visst öryggi. „En fólk borgar líka hærra verð fyrir nýju eignirnar, m.a. í þeirri trú að vænta megi þess að viðhalds- og viðgerðakostnaður verði í lágmarki fyrstu 10-15 árin eða svo. Er samt aldrei hægt að ganga að því sem vísu að ekki komi til einhverra viðgerða og lagfæringa þó að eignir séu nýjar.“

Fjárfest í verðmætara heimili

Hvað má svo gera til að gera góða eign enn betri, og jafnvel breyta eða bæta svo að hærra verð fáist fyrir hana? Ingibjörg segir gott viðhald lykilatriði enda auki það sölumöguleika fasteigna ef þær eru í góðu ástandi og ekki þörf á kostnaðarsömu viðhaldi og viðgerðum.

Verður líka að undirbúa heimilið vel þegar það er sýnt. „Þegar kaupandi skoðar sig um í fasteign þarf hann að geta speglað sig í henni og liðið eins og hann gæti hugsað sér að búa þar,“ segir Ingibjörg og bætir við að þegar stendur til að sýna eign verði hún vitaskuld vera snyrtileg og í góðu horfi. „Það er upplagt að hafa færri húsgögn og húsbúnað í hverju herbergi til að gefa látlausra yfirbragð, frekar en að láta heimilið virðast ofhlaðið, og fjarlægja hluti sem að yfirkeyra rýmið.“

Þá ætti margt það sem gert er fyrir heimilið að geta skilað sér í hærra verði. „Ef eigandinn ver milljón krónum í vel heppnaða framkvæmd, eins og að gera fallegan pall með heitum potti, eða taka garðinn í gegn og gera heimreiðina glæsilega, þá gæti hann á góðum degi tvöfaldað þá fjárfestingu í gegnum söluverðið. Fólk sem er í fasteignakaupahugleiðingum sýnir eignum sem líta vel út og hefur verið vel sinnt mestan áhuga, og skilar það sér bæði til kaupanda og seljanda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál