Fasteignamarkaðurinn er að lifna við

Dregið hefur úr óvissu í atvinnulífinu og því hægt að reikna með meiri umsvifum á fasteignamarkaði. Velja þarf fasteign sem hentar bæði þörfum og fjárhag fjölskyldunnar. Gunnar Sverrir Harðarson hjá RE/MAX væntir þess að meira líf hlaupi í fasteignamarkaðinn á næstu misserum, í kjölfar þess að aðilum vinnumarkaðarins tókst að finna farsæla lausn á kjaraviðræðum. „Bæði óvissan í kringum WOW Air og kjarasamningana höfðu þau áhrif að fólk var hikandi við að taka ákvörðun um fasteignakaup. Núna eru kjarasamningar í höfn og ljóst hvað verður um WOW, og hugsa ég að fólk sem hefur notað tímann til að velta fyrir sér áhugaverðum möguleikum í fasteignakaupum láti til skarar skríða.“

Ágætar horfur

Gunnar er mikill reynslubolti og hefur starfað við sölu fasteigna allt frá árinu 2003. Þar áður rak hann jarðvinnufyrirtæki við góðan orðstír og segir það hafa verið góðan skóla í öllu sem við kemur vönduðum frágangi fasteigna og lóða. Gunnar segir algengt að hvers kyns óvissuástand í hagkerfinu valdi því að fólk slái fasteignakaupum á frest: „Jafnvel ef kaupandinn vill ekki sjálfur bíða þá er alltaf einhver í kringum hann sem ráðleggur að betra sé að hafa vaðið fyrir neðan sig, og sjá hvað setur. Núna er þó orðið ljóst að við getum leyft okkur ákveðna bjartsýni með framhaldið, og greinilegt að aðkoma ríkisstjórnarinnar að því að finna lausn á kjaradeilunni miðar ekki hvað síst að því að koma til móts við fasteignakaupendur.“

Að sögn Gunnars verður þó greinilega áfram mikil þörf á nýju húsnæði. „Töluverð uppbygging átti sér stað árið 2017 og 2018 og vonandi að takist að ná í skottið á þeirri uppsöfnuðu þörf sem myndaðist á árunum eftir hrun. Er þó rétt að athuga hvaða áhrif það kann að hafa að viðskiptabankarnir hafa byrjað að setja strangari eiginfjárkröfur vegna húsbyggingarverkefna og því einhver hætta á að nýjar eignir sem áætlað hafði verið að kæmu inn á markaðinn árið 2020 og 2021 verði ekki tilbúnar á tilsettum tíma.“

Stærð og staðsetning

Kaup á fasteign eru sjaldnast auðveld ákvörðun og þarf fólk að vega og meta ótal þætti áður en gert er tilboð í álitlega eign. Meðal þess sem margir standa frammi fyrir er að ákveða hvort velja ætti fasteign miðsvæðis, þar sem fermetraverð er yfirleitt dýrara, eða kaupa ódýrari eign í jaðri byggðarinnar.

Gunnar segir ekki til neitt eitt rétt svar við þessari spurningu og hver og einn verði að gaumgæfa vandlega hverjar þarfir fjölskyldunnar eru, bæði hvað varðar stærð húsnæðis og staðsetningu. „Ég ráðlegg mínum viðskiptavinum að skoða fyrst af öllu hvar vinnan þeirra er: kallar starfið á daglegar ferðir út á Reykjanes, upp á Akranes eða í Kópavoginn? Væri þá mögulega hægt að velja eign í göngu- eða hjólafæri við vinnuna og geta fækkað heimilisbílunum úr þremur í tvo, eða úr tveimur í einn?“

Verður líka að skoða þarfir barnanna og unglinganna á heimilinu: geta þau komist sjálf í skóla og frístundastarf, eða myndi sú fasteign sem verið er að skoða kalla á mikið skutl? Allt hefur þetta áhrif á lífsgæði heimilisfólks og getur líka munað töluverðu fyrir fjárhaginn ef losna má við eins og einn bíl eða bara draga úr akstri. Gæti meira að segja verið heilsubætandi ef staðsetning heimilisins er þannig að auðvelt er að ganga út í matvöruverslun frekar en aka, eða stutt í fallegar gönguleiðir.

„Hvernig hverfi er skipulagt getur haft mikið að segja og gerir það gæfumuninn fyrir barnafjölskyldur ef stutt er á milli skóla og frístundastarfs. Seltjarnarnes er gott dæmi um fjölskylduvænt hverfi þar sem grunnskóli, sundlaug og fimleikahús eru inni í hverfinu miðju og börnin geta gengið þangað sjálf án þess að þvera stórar umferðaræðar.“

Verður síðan að muna að þarfir heimilismeðlima geta tekið breytingum á sama tíma og byggðin þróast. Ný íbúða- og atvinnusvæði verða til, og börnin verða að unglingum sem svo á endanum flytja að heiman. Íbúðin eða einbýlishúsið sem hentaði fyrir tíu eða fimmtán árum er kannski ekki besti kosturinn í dag og hægt að auka lífsgæðin með því að flytja eitthvað annað. „Er gaman að velta fyrir sér hvaða áhrif það gæti svo haft á ferðamynstur heimilisfólks ef Borgarlína verður tekin í gagnið eða sjálfakandi bílar notaðir til daglegra samgangna. Er a.m.k. ekki úr vegi, þegar verið er að skoða álitlega fasteign, að kíkja á aðalskipulagið og reyna að sjá það fyrir hvernig byggðin í kring á eftir að byggjast upp.“

Upplýst ákvörðun

Þegar búið er að velja eign af réttri stærð, og á réttum stað, þarf líka að ganga úr skugga um að eignin sé í góðu ástandi. Mælir Gunnar með því að láta gera úttekt og þannig fá heildstæða mynd af væntanlegri viðhalds- og viðgerðaþörf fasteignar, til að geta tekið upplýsta ákvörðun um kaupin. „Það hefur mátt sjá þá jákvæðu þróun á undanförnum árum að húsfélög í fjölbýlishúsum eru upp til hópa rekin mjög myndarlega, faglega haldið utan um rekstur fasteignanna og hússjóðurinn sterkur, svo að kaupandi þarf síður að hafa áhyggjur af óvæntum sameiginlegum kostnaðarliðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál