Ætlar að nýta páskana í að mála

Elsa Nielsen.
Elsa Nielsen.

Elsa Nielsen, grafískur hönnuður og eigandi Nielsen hönnunarstofu, býr á Seltjarnarnesi ásamt eiginmanni og þremur börnum. Hún hlustar á tónlistina úr Jesus Christ Superstar um páskana, nýtur samvistar við fjölskylduna en ætlar að undirbúa sýningu sem hún er með í Kaupmannahöfn að þessu sinni. 

Elsa hefur hlotið margar viðurkenningar og verðlaun fyrir grafíska hönnun, bæði hérlendis og erlendis, en skemmst er að minnast tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013 fyrir Brosbókina, barnabók sem hún myndskreytti, hannaði og er meðhöfundur að. Að auki hefur hún myndskreytt og komið að útgáfu fjölmargra annarra barna- og unglingabóka.

Elsa hefur ekki einskorðað sig við sköpun á sviði hönnunar og lista en margir þekkja hana betur fyrir afrek hennar á sviði íþrótta þar sem hún varð margsinnis Íslandsmeistari í badminton og var fulltrúi Íslands í einliðaleik á Ólympíuleikunum í tvígang, í Barcelona 1992 og Atlanta 1996.



Ertu mikil páskakona?

„Ég er mjög mikil stemningskona og finnst páskarnir frábær fjölskyldutími!“

Hvaða merkingu hafa páskarnir fyrir þig?

„Mér finnst páskarnir vera besta fríið á árinu - þá eru allir á sama tíma í fríi og hægt að njóta frísins með fjölskyldunni og nánustu vinum.“

Hvað gerir þú alltaf á páskunum?

„Ég hlusta á Jesus Christ Superstar-plötuna á páskadag eins og pabbi minn gerir alltaf og hefur gert síðan ég var lítil. Það er eitthvað fallegt við það að halda í hefðir sem rifjar upp góða minningar. Ég er mikið fyrir að safna minningum og páskarnir eru tilvalinn tími til þess!“

Hvað gerir þú aldrei á þessum tíma?

„Ég man ekki eftir neinu sérstöku - ekkert svo heilagt hjá okkur!“

Skreytir þú heima um páskana?

„Ég skreyti örlítið heima - set alltaf greinar úr garðinum í vasa og hengi páskaskraut á þær. Við höfum líka alltaf málað egg - blásið úr þeim og málað með akríllitum. Annars finnst mér notalegast að fara í bústað um páskana og höfum gert það næstum hverja einustu pásksa. Við erum mikil spilafjölskylda og njótum þess að spila, borða og njóta uppi í bústað!“

Nú sá ég fallegar skreytingar af kanínum frá þér um daginn – hvað getur þú sagt mér um það?

„Árið 2015 teiknaði ég eina litla trélitamynd á dag allt árið og þær teikningar vekja alltaf góðar minningar. Þegar ég skoða teikningarnar rifjast upp hvað ég var að gera á páskunum þetta árið - við fjölskyldan vorum að sjálfsögðu uppí bústað, við Búrfell í Grímsnesi, og þar teiknaði ég meðal annars, kanínu, súkkulaði-páskaegg, gulan túlípana, akríllitaspjald og fleira páskatengt. Þessar myndir vekja upp góðar minningar. Tilgangur lífsins er akkúrat að safna góðum minningum og njóta á meðan maður getur.“

Þess má geta að þær 365 myndir sem Elsa teiknaði árið 2015 hefur hún nýtt í hönnunarlínu sem kallast #einádag. Nýjasta varan er sængurverasett sem er með öllum 365 myndunum á sængurverinu úr mjúkri 100% bómull og er vinsæl gjafavara um þessar mundir. Sængurverasettið fæst hjá Hlín Reykdal eða á salka.is.

Áttu þér áhugamál?

„Ég á allt of mörg áhugamál! Ég er í frábærum 20 manna hóp sem spilar badminton tvisvar í viku á veturna og svo golf á sumrin. Golf er nýja uppáhaldsíþróttin mín. Svo finnst mér róandi og gefandi að sinna málaralistinni og núna þessa páska er ég að undirbúa mína fyrstu einkasýningu sem er í Kaupmannahöfn í sumar, en það er opnun 2. maí.

Allt mitt páskafrí að þessu sinni fer í að mála og undirbúa sýninguna. Á kvöldin munum við svo ímynda okkur að við séum uppi í bústað - spilum fjölskylduspil, lesum og njótum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál