Hvað þarftu að eiga til að geta keypt?

Jónína Björg Benjamínsdóttir.
Jónína Björg Benjamínsdóttir.

Það getur stundum virst alveg ómögulegt að eiga fyrir innborgun vegna íbúðarkaupa. Alla jafna þarf kaupandinn, við fyrstu kaup, að geta greitt úr eigin vasa um 15% af kaupverðinu sem þýðir að hann þarf að hafa tiltækar 4,5 milljónir til að kaupa 30 milljóna króna fasteign, en 6 milljónir ef fasteignin kostar 40 milljónir. Hækkar hlutfallið upp í 20% ef ekki er um fyrstu kaup að ræða. Eiga flestir nógu erfitt með að greiða upp greiðslukortaskuldirnar og koma böndum á yfirdráttinn.

Jónína Björg Benjamínsdóttir segir að með því að hafa góða yfirsýn yfir fjármálin, og skipuleggja sparnaðinn, geti draumurinn um að eignast fasteign verið nær en hann kann að virðast í fyrstu. „Ég myndi segja að sparnaðarráð númer eitt væri að vera með viðbótarlífeyrissparnað. Þannig má leggja fyrir 4% af launum, fyrir skatt, og fá 2% mótframlag frá vinnuveitanda. Nýleg lagabreyting leyfir fólki að nýta þessa inneign skattfrjálst, annað hvort sem hluta af útborgun fyrir íbúð við fyrstu kaup eða til afborgana af óverðtryggðum lánum ellegar til að greiða af höfuðstól,“ útskýrir Jónína en hún er fjármálaráðgjafi hjá Arion banka.

Reglurnar leyfa að taka árlega út allt að 500.000 kr af viðbótarlífeyrissparnaðinum, í allt að tíu ár, og segir Jónína upplagt að nýta þennan valkost til að lækka höfuðstól fasteignaláns og stækka þannig eignarhlutann í fasteigninni. „Ef einstaklingur er t.d. með 350.000 kr í mánaðarlaun getur hann með þessum hætti greitt aukalega um 250.000 kr árlega, og samanlagt nærri 2,5 milljónir yfir þetta tíu ára tímabil sem lögin leyfa. Þetta gera mjög margir en auðvitað þarf hver og einn að meta hvort hann telji það góðan kost fyrir sig að nýta hluta viðbótarlífeyrissparnaðarins með þessum hætti.“

En yfirleitt þarf meira til og ráðleggur Jónína að setja um það bil 10% af launum í reglubundinn sparnað og er þá innborgun vegna fasteignakaupa í sjónmáli eftir nokkur ár. „Ef að par getur lagt fyrir samtals 100.000 kr á mánuði þá tekur um það bil fjögur ár að safna 5 milljónum króna, en fimm ár ef sparaðar eru 80.000 kr mánaðarlega.“

Munar um litlu útgjöldin

Sumum gæti þótt það óvinnandi verk að leggja svona mikið fyrir, og finnst þeir eiga nógu erfitt með að láta enda ná saman. Jónína segir að þegar heimilisútgjöldin eru sett undir smásjá komi samt oft í ljós leiðir til að hagræða. „Nota má lausnir eins og hugbúnaðinn frá Meniga, eða Kladdann frá Umboðsmanni skuldara þar sem fólki er hjálpað að skrá og greina heimilisútgjöldin frá degi til dags. Niðurstaðan kemur oft á óvart, og eru það ekki síst litlu útgjöldin sem eiga það til að safnast upp. Getur t.d. munað heilmikilu að hætta að kaupa kaffibolla og bakkelsi í skóla-kaffiteríunni hvern einasta morgun.“

Vissulega er róðurinn þungur hjá mörgum, sérstaklega ef fæða þarf marga munna og greiða háa leigu, en Jónina segir að með aga og yfirsýn eigi yfirleitt að vera hægt að finna leiðir til að spara eins og 10%. „Matarinnkaupin eru oft sniðugur staður til að byrja: að fara ekki út í búð öðruvísi en með innkaupalista, skipuleggja matseðil vikunnar og freistast ekki til að kaupa inn eitthvað sem ekki þarf, eða stelast út á skyndibitastað í dagsins amstri.“

Þegar par ákveður að spara fyrir fasteign er síðan áríðandi að ræða málin vel, og vera samstiga í aðhaldinu. Er hætt við núningi ef öðrum aðilanum þykir hann vera að fórna miklu en finnst hinn láta of mikið eftir sér. „Fólk ætti að gæta þess að ganga ekki allt of langt, og þó það megi kannski komast af án þess að eiga fjölda para af nýjum skóm inni í skáp þá þýðir það ekki að það sé endilega betra að ganga um í aðeins einu slitnu skópari með gati á tánni. Leyfa þarf nauðsynlegum útgjöldum að halda sér, og þó svo að sparnaðarátakið geti kallað á fórnir má fólk ekki gleyma að sinna sjálfu sér.“

Gott að byrja snemma

Því fyrr sem fólk temur sér að spara, því betra, og segir Jónína að það sé mjög jákvætt að bæði skólar og foreldrar eru farnir að huga betur að því að kenna börnum fjármálalæsi. „Sautján ára unglingur er ekki endilega að hugsa mikið út í það að eftir tíu ár gæti hann verið giftur, kominn með sina eigin íbúð, bíl og börn, en með því að byrja snemma að leggja fyrir verður auðveldara að stofna heimili þegar þar að kemur,“ segir hún og bendir á að ef t.d. nemandi á fyrsta ári í menntaskóla nær að leggja fyrir að jafnaði 50.000 kr á mánuði, s.s. með því að spara sumarvinnupeninginn og bera út dagblað yfir vetrarmánuðina, ætti honum að takst að eiga hátt í 5 milljónir við útskrift úr háskóla við 23 ára aldur.

Að spara er samt erfiðara en það hljómar, og kallar ekki bara á aðhald heldur krefst líka ákveðins þroska. „Sennilega hefur aldrei verið meiri þrýstingur á ungt fólk að lifa vissum lífsstíl, og má kannski kenna áhrifavöldunum á Snapchat og Instagram um að mörgum finnst þeir ómgögulega mega sleppa því að kaupa nýjustu græjurnar og tískuvarninginn.“

Þegar síðan hefur tekist að spara fyrir innborguninni og orðið tímabært að kaupa eign segir Jónína að mikilvægt sé að fólk sníði sér stakk eftir vexti. „Það er varasamt að ætla að kaupa eins dýra íbúð og greiðslumatið leyfir, og ætla að koma út á núlli í lok mánaðarins. Alltaf getur eitthvað komi upp á og ef ekki er neitt svigrúm eftir í fjárhagnum geta óvæntu útgjöldin dregið dilk á eftir sér.“

Jónína játar að hún hafi ekki beinlínis fylgt eigin ráðleggingum þegar hún og maðurinn hennar söfnuðu sér fyrir sinni fyrstu í búð. Þau urðu fasteignaeigendur árið 2013, þegar hún var 23 ára gömul og með barn númer tvö á leiðinni. „Það varð okkur til happs að fasteignamarkaðurinn þá var rólegri en hann er í dag, og leigan ekki orðin jafn há. Við höfðum verið á leigumarkaði í nokkur ár og fannst tímabært að komast í öruggara húsnæði.“

Jónína og maðurinn hennar fóru þá leið að vinna myrkranna á milli: hún bæði vann á daginn og tók sér aukavinnu á kvöldin, á meðan hann bætti við sig vinnu á kvöldin og á laugardögum. Á meðan tóku afi og amma að sér að passa barnabarnið og höfðu gaman af. „Við áttum líka bíl sem við gátum selt til að brúa bilið. Við vorum mjög ákveðin í að ná árangri, vissum hvert við stefndum, og tók því ekki langan tíma fyrir okkur að eiga fyrir innborguninni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál