Eyddu 18 mánuðum í að gera húsið upp

Jessica Alba heima hjá sér með börnin sín þrjú.
Jessica Alba heima hjá sér með börnin sín þrjú. skjáskot/Youtube

Leikkonan Jessica Alba flutti nýverið inn í nýtt hús sem prýðir nú forsíðu hönnunartímaritsins Architectural Digest. Húsið er algjör draumur eins og sést í myndbandi sem fylgir fréttinni þar sem Alba leiðir myndatökumann um húsið. 

Húsið var ekki formlega farið á sölu þegar Alba fékk að skoða það en hún segist hafa áttað sig á því á innan við 20 mínútum að þetta væri húsið sem hún og fjölskylda hennar væru að leita að. Það tók þó 18 mánuði að gera húsið upp en þau létu meðal annars rífa niður veggi til þess að breyta skipulagi og opna rými. 

Þau tóku allt í gegn og segir Alba í myndbandinu að þau hafi ekki tekið neitt með sér úr gamla húsinu nema myndir af fjölskyldunni. Á gangi má sjá skemmtilegan myndavegg af fjölskyldu Alba og eiginmanns hennar Cash Warrens. Myndirnar eru litlar en búið að raða þeim skemmtilega í svörtum myndarömmum. 

Borðkrókurinn er notalegur.
Borðkrókurinn er notalegur. skjáskot/Youtube

Alba segist vera undir frönskum áhrifum auk þess sem hún kýs náttúruleg efni og litatóna. Segir að hún og maðurinn hennar nái að slaka vel á þegar litatónarnir séu mildir. Eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan er útkoman eftir breytingarnar afar glæsileg. 


 

mbl.is