Það duga engin vettlingatök á pallinn

Garðar Erlingsson starfar hjá Slippfélaginu gefur lesendum góð ráð varðandi viðhaldið á pallinum. Hann segir að það sé aldrei það heitt á Íslandi að það sé vandamál að lita pallinn svartan.

Garðar segir að það skipti miklu máli að hugsa vel um pallinn sinn og það sé ekki mikið mál að halda honum fallegum.

„Þegar vorar í lofti eru garðverkin eitt af því fyrsta sem huga þarf að. Pallurinn er mikilvægur og nauðsyn er að kanna vel ástand hans og þá er gott að byrja á að hreinsa pallinn áður en hafist er handa. Ef pallurinn er orðinn flekkóttur og ljótur duga engin vettlingatök. Gott er að nota rigningardaga í að undirbúa og þvo. Pallurinn þarf að vera rakur og síðan er best að hreinsa hann með pallahreinsinum Terrasi frá Tikkurilla. Hann er í duftformi og er hrærður út í vatn og svo borinn á með kústi. Síðan er hann látinn eiga sig í um klukkustund en gott er að skrúbba efnið ofan i pallinn í millitíðinni til að ná upp eins miklum óhreinindum og kostur er. Í lokin er pallurinn spúlaður með háþrýstisprautu,“ segir Garðar.

Hann segir að í sumum tilfellum geti þurft að meðhöndla ákveðna fleti aftur ef hreinsunin hefur ekki gengið nógu vel. Þá er tekin önnur umferð á það sem þreifst ekki nógu vel.

„Pallurinn er síðan látinn þorna í tvo til þrjá daga áður en viðarpallaolía er borin á. Gott er að vera með breiðan pensil og moppu við verkið. Moppan er til þess að dreifa úr olíu eftir að borið er á og varnar því að olíupollar myndist þar sem viður dregur mismikið af olíu í sig. Til eru ótal litir í viðarpallaolíu og í seinni tíð hefur fólk verið duglegt að gera tilraunir með ýmsar litasamsetningar,“ segir hann.

Hvort það eigi að hafa pallinn dökkan eða ekki getur verið hitamál og þegar Garðar er spurður út í þetta segir hann íslenskt sumar bjóða vel upp á dökka palla.

„Að lita pallinn svartan eða dökkgráan hefur verið vinsælt en auðvitað hitna þannig pallar meira. Það ætti nú ekki að koma að sök. Íslenska sumarið er stutt og auk þess endurkasta dökkir pallar minna af ljósi og eru því þægilegri í mikilli sól. Mikilvægt er að hafa í huga að nota aldrei neitt annað en pallaolíu á viðarpalla því að þekjandi málning myndar filmu á yfirborðinu og hefur tilhneigingu til að flagna frekar auðveldlega. Að bera á meðalstóran pall er í kringum klukkutíma vinna,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »