Mikið af áhugaverðu húsnæði í pípunum

Gunnar Sverrir Harðarson.
Gunnar Sverrir Harðarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reikna má með að þykja muni mjög eftirsóknarvert að búa í þeim hverfum og byggingarreitum sem eru á teikniborðinu eða jafnvel komin á framkvæmdastig. Gunnar Sverrir Harðarson segir að þar verði að finna húsnæði við allra hæfi. 

Gaman verður að fylgjast með uppbyggingunni á komandi árum, og ljóst að margir spennandi og mjög vistlegir kostir eiga eftir að verða í boði fyrir fasteignakaupendur. Þetta segir Gunnar Sverrir Harðarson fasteignasali hjá RE/MAX.

„Ef við skoðum áætlanir skipulagsyfirvalda þá stefnir í að árið 2050 verði búið að fjölga heimilum á höfuðborgarsvæðinu um 50% frá því sem nú er, bæði með því að láta byggðina vaxa og dreifa úr sér, og líka með því að þétta hana,“ segir Gunnar og bendir t.d. á Heklureit, Urriðaholt, Hnoðraholt og Vogabyggð.

Bjóða upp á gott mannlíf

Í þessum nýju íbúðahverfum, hvort sem þau eru stór eða smá, má greina nýjar áherslur í hönnun og skipulagi sem endurspegla breyttar óskir almennings. Gunnar segir Vogabyggð mjög gott dæmi um þessa þróun. Svæðið er innst við Elliðavog, steinsnar frá smábátahöfninni, og stutt í bæði Sæbraut og Vesturlandsveg, sem og alls kyns verslun og þjónustu en byggðin samt þannig staðsett að hún er í miklu návígi við náttúruna og hentar þeim sem vilja stunda heilbrigðan lífsstíl. „Hverfið minnir um margt á Fossvoginn, er í góðu skjóli og með þægilegt veðurfar fyrir útiveru. Grunnskólinn á að rísa við smábátahöfnina og munu börnin geta gengið í skólann yfir nýja brú, án þess að fara yfir umferðargötu,“ útskýrir Gunnar. „Hollenska arkitektastofan Jvantspijker, í samvinnu við íslensku stofuna THG, var hlutskörpust í hugmyndasamkeppni um nýtt deiliskipulag svæðisins og sjást þess greinilega merki í því hvernig heilnæmur lífsstíll, náttúra og byggð eru fléttuð saman, t.d. með góðum göngu- og hjólaleiðum í allar áttir.“

Skipulagssvæði Vogabyggðar er um 18,6 hektarar að flatarmáli og gert ráð fyrir 1.100-1.300 íbúðum sem samtals verða um 155.000 fermetrra að stærð, og að auki að í hverfinu verða 56.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði.

Gunnar segir Valsreitinn af svipuðum toga. Hverfið fyllir út í stóran hluta af lóðunum umhverfis Valsheimilið, og er bæði skammt frá miðbæ, Landspítala, háskólum og náttúruperlunni Öskjuhlíð. „Ekki er langt fyrir íbúa að komast út á stofnbraut og er íþróttastarf, s.s. hjá Val og Mjölni, í göngufæri.“

Bendir Gunnar á að eitt af sérkennum skipulagsins á Valsreit, Hlíðarendabyggð, er að húsin liggja þétt saman og mynda stóra inngarða. „Þar ætti að vera gott skjól og gaman að njóta útiverunnar þegar veður leyfir. Er langt síðan byggt hefur verið með þessum hætti í Reykjavík og sennilega að leita þarf allt aftur til verkamannabústaðanna við Hringbraut sem Guðjón Samúelsson teiknaði og voru reistir á 4. áratugnum.“

Miðbærinn fær á sig annað yfirbragð

Þá er eftir að nefna uppbyggingarsvæði mjög nálægt miðborginni, s.s. Heklureit, Vesturbugt, Austurhöfn og Héðinsreit. Á Héðinsreit er t.d. fyrirhugað að byggja allt að 330 íbúðir og 230 hótelherbergi, en á Heklureit stendur til að reisa fimm fjölbýlishús og hótel, og íbúðirnar á Austurhafnarsvæðinu eru svo nálægt Reykjavíkurhöfn að lætur nærri að íbúar muni geta dorgað í höfninni út um eldhúsgluggann. „Þegar þessir reitir eru fullbyggðir og íbúarnir komnir verður enn líflegra um að litast á hafnarsvæðinu og allt annað yfirbragð komið á miðbæinn þegar framkvæmdum lýkur,“ segir Gunnar. „Það á líka við um þessi svæði að íbúðaframboðið verður mjög fjölbreytt: íbúðirnar af öllum stærðum og gerðum, og munu henta breiðum hópi fólks.“

Enn er töluverð uppsöfnuð þörf fyrir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og framkvæmdir mislangt á veg komnar á þeim svæðum sem hafa verið nefnd hér að framan. Sums staðar er búið að gangsetja vinnuvélarnar en á öðrum stöðum eru teikningar enn í vinnslu og skipulagsmálin ekki að fullu frágengin. Gunnar segir innistæðu fyrir kvörtunum þess efnis að stór byggingaverkefni velkist of lengi um í kerfinu og það sé óheppilegt ef að tekur t.d. tíu ár frá því stigin eru allrafyrstu skrefin í átt að framkvæmdum og þar til afhenda má fyrstu íbúðirnar. „Lausnin er ekki að húsnæði sé byggt í hvelli og að fá mikið magn húsnæðis á markaðinn á skömmum tíma gæti valdið vandræðum, enda offramboð ekki af hinu góða. En það er heldur ekki gott ef byggingaaðilar þurfa að glíma við mjög íþyngjandi stjórnsýslu- og regluumhverfi. Ef skipulagsvinna og stefnumótun ákveðinna svæða gengur hratt og vel fyrir sig verður það markaðarins að ákveða hvenær er rétti tíminn til uppbyggingar. Getur verið kostnaðaraukandi fyrir markaðinn að vera með stórt verkefni lengi í skipulagsferli.“

Vöntun á einfaldara húsnæði

Bendir Gunnar á að víða megi einfalda og flýta fyrir. „Í dag er svo komið að töluverð skriffinnska fylgir öllum húsbyggingaverkefnum og nýja byggingareglugerðin setur húsbyggjendum mjög þröngar skorður. Þannig þýðir t.d. krafan um algilda hönnun, þ.e. að fólk með skerta hreyfigetu geti nýtt allar íbúðir í húsi með sama hætti og aðrir, að erfiðara er að koma til móts við þann hóp sem myndi vilja einfaldara og hagkvæmara húsnæði, s.s. 3-4 hæða stigahús líkt og við þekkjum úr Háaleitinu, Álfheimum og víðar, þar sameignir eru takmarkaðar, ekki stórir bílakjallarar undir húsum og bílastæðin höfð ofanjarðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál