Þetta segir Rut Kára um unglingaherbergið

Rut Káradóttir innanhússarkitekt segir að unglingaherbergi þurfi ekki að vera …
Rut Káradóttir innanhússarkitekt segir að unglingaherbergi þurfi ekki að vera óspennandi.

Öll höfum við komið inn á heimili þar sem virðist eins og ský hafi hrannast upp yfir einu herberginu. Þar inni býr undarleg vera, sem hefur gert sér einhvers konar helli og vill helst engum hleypa inn nema sínum líkum. Undarlegt skraut er uppi á veggjum, eini birtugjafinn ljóminn frá sjónvarpi eða tölvuskjá, óhrein föt liggja á víð og dreif um gólfið og virðist eins og slikja af hormónum sé yfir öllu.

Þetta er herbergi unglingsins, og einhver mesta áskorun sem innanhússarkitektar geta tekið sér fyrir hendur að reyna að koma þessu rými í lag. Blessaður unglingurinn er jú orðinn nógu gamall til að hafa skoðun á því hvernig hann vill hafa umhverfi sitt en hefur ekki endilega náð að þroska með sér góðan smekk eða mikla snyrtimennsku. Kannski langar hann að líma tónleikamiða upp um alla veggi, eða mála hátt og lágt í furðulegum litum. Hann vill líka fá sitt næði og verður að hafa gott pláss fyrir skólabækurnar, gítarmagnarann og leikjatölvuna.

Hvað er hægt að gera svo að herbergi unglingsins líti vel út og stingi ekki í stúf? Er hægt að beina unglingnum inn á rétta braut, og jafnvel beita hugvitssamlegri hönnun til að slá á suma verstu fylgifiska unglingsáranna?

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Íbúinn er í stöðugri mótun

Rut Káradóttir innanhússarkitekt segir það rétt að unglingaherbergi séu iðulega erfiðustu rýmin á heimilum. „Það er eins og þetta herbergi sé alltaf óklárað, því unglingurinn sjálfur breytist svo mikið frá ári til árs: ný áhugamál koma og fara, vinahópurinn er í stöðugri mótun og smekkur unglingsins í dag ekki sá sami og á morgun. Er enda himinn og haf á milli tólf ára og sautján ára tánings í þroska og lífsstíl.“

Meðal þeirra lausna sem Rut lumar á er að veita unglingnum visst frelsi í litavali, þó innan ákveðins heildarramma sem nær yfir allt heimilið. Þannig stingur herbergið ekki eins mikið í stúf. „Það er fallegt þegar unglingaherbergið tónar við önnur rými hússins og hægt að gera tillögur að litapallettum sem falla bæði að húsgögnunum í herberginu og litum í öðrum aðliggjandi rýmum og eru ekki í mótsögn við allt annað á heimilinu.“

Rut vill gjarnan leyfa hlýju og mjúku litunum í uppáhaldslitapallettu unglingsins að njóta sín, en mjúkir litatónar falla vel að tölvum og tæknidóti, og snúrunum sem þeim fylgja. „Í herbergjum sem eru full af raftækjum auka skærir litir bara á óróann og hægt að skapa rólegra og afslappaðra umhverfi með ljúfum litum.“

Rétt lýsing hjálpar líka mikið til við að gera herbergi unglinsins notalegt og minnir Rut á að táningarnir þurfi jafnframt góða vinnulýsingu til að sinna heimanáminu. „Til að geta breytt birtustemningunni ætti að velja ljós með birtustilli og gæta þess að hafa lýsinguna margþætta: grunnljós, þ.e. loftljós sem veita alhliða lýsingu; vinnulýsingu, s.s. frá borðlampa; og stemningslýsingu, s.s. frá standlampa.“

Gluggatjöldin leika stórt hlutverk í lýsingarhönnun herbergisins og á unglingurinn eftir að vilja getað lokað nær alla birtu úti til að fá næði og geta horft ótruflað á skjáina sína. „Fyrir gluggana má setja tvískipt gluggatjöld, þar sem annars vegar eru t.d. rúllutjöld sem dimma vel og fljótlegt er að draga fyrir eða frá, og hins vegar gluggatjaldavængir sem gefa þægilega og „rómantíska“ birtu sem veitir hlýlegt yfirbragð.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Vel grisjað en ekki kuldalegt

Rut mælir með að beina unglingnum inn á mínimalíska braut og upplagt að grisja herbergið reglulega í takt við breyttan smekk, þarfir og áhugamál. „Verður bara að passa upp á að herbergið verði þá ekki um leið kuldalegt, og hægt að komast hjá því með réttu litavali og lýsingu.“

Grisjunin hjálpar til við að halda herberginu snyrtilegu og má síðan ganga skrefinu lengra með hönnun sem auðveldar unglingnum að taka til: Segir Rut t.d. ekki hægt að reikna með að oft verði búið um rúm unglingsins ef hann þarf að breiða á það flókið kerfi af rúmteppum, sængum og púðum. „Það tekur langan tíma og er bara vesen í huga táningsins. Betra er að velja einfalt vatterað rúmteppi sem þjónar um leið hlutverki sængur og má henda í heilu lagi í þvottavél. IKEA er t.d. með þannig teppi fáanleg í ýmsum fallegum litum og gerir unglingnum auðvelt að búa um.“

Fataskápurinn fer síðan síður í rúst ef þar er meira af slám en minna af skúffum: „Það er fljótlegra að ganga um skápinn ef fatnaðurinn er hengdur upp og auðveldara en ef þyrfti að brjóta allt fallega saman og leggja snyrtilega ofan í skúffu. Skápurinn getur líka hjálpað til við að gera herbergið snyrtilegra ef hann rúmar alls konar dót og smámuni sem ekki þarf að hafa uppi við öllum stundum. Svo er bara að muna að grisja úr skápnum af og til.“

Vilji unglingurinn raða einhverju upp, til að sýna afrek sín eða áhugamál, er hægt að búa þannig um smámunina og unglingadótið að það haldist áfram snyrtilegt og dreifist ekki um allt rýmið. Þetta geta verið verðlaunapeningar og -bikarar, myndir af vinum eða átrúnaðargoðum, tölvuleikjasafnið eða eitthvað krúttlegt sem er í tísku að safna þá stundina: „Það má raða smáhlutunum upp á tiltekna hillu eða hillur, jafnvel setja inn í lokaðan glerskáp þannig að allt hafi sinn stað.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »