Kolbrún fær útrás í að fegra í kringum sig

Kolbrún Kristleifsdóttir fyrir framan garðhýsið sem eiginmaður hennar smíðaði úr …
Kolbrún Kristleifsdóttir fyrir framan garðhýsið sem eiginmaður hennar smíðaði úr afgangstimbri. mbl.is/Árni Sæberg

Kolbrún Kristleifsdóttir kennari býr ásamt fjölskyldu sinni í 105 Reykjavík. Hún hefur unun af því að hugsa vel um garðinn sinn. Fyrir nokkru settu þau hjónin garðhús í garðinn sem var smíðað úr afgangstimbri og þar á fjölskyldan ævintýralegar stundir en garðhúsið er notað allan ársins hring. 

Garðurinn minn er ómissandi hluti af tilverunni og hefur skapað ómetanlegar samverustundir með fjölskyldu og vinum. Við hjónin höfum gert allt sjálf í garðinum og hann hefur kennt okkur það sem við kunnum í garðrækt. Við vorum búin að eiga húsið í nokkur ár þegar við létum setja svalir og stiga niður í garð og þá varð notkunin á honum miklu meiri og okkur fannst húsið stækka um helming,“ segir Kolbrún spurð um garðinn sinn.

Hún segir að áhugi hennar á garðrækt hafi aukist við þessar framkvæmdir og síðan þá hafi þau prófað að rækta grænmeti, jarðarber og krydd.

„Við höfum prófað ýmislegt, með misgóðum árangri þó. Garðrækt er þolinmæðisvinna og ef eitthvað gengur ekki þetta árið þá reynir maður aftur það næsta og næsta,“ segir hún.

Garðhúsið breytti stemningunni

„Þar sem garðurinn er lítill tókum við þá ákvörðun, þegar við byggðum lítið garðhús, að ræktunin yrði bara í pottum og kerum, en nú er mig farið að langa að rækta svolítið meira. Markmið sumarsins að þessu sinni er að gera pínulitlu grasflötina fallega og berjast við mosann.“

Kolbrún segir að garðurinn sé henni mikið hjartans mál og litla garðhúsið í garðinum þjónar margþættu hlutverki.

„Ég er ákaflega þakklát fyrir að eiga garð þar sem ég get fengið útrás fyrir að fegra umhverfi mitt og ég veit fátt betra en að róta í mold, reyta arfa, gróðursetja sumarblómin og dunda mér úti. Ætli það sé ekki útiveran og tengingin við náttúruna sem gefur þessa vellíðan? Eins og ég sagði hér að ofan höfum við gert allt sjálf og ekki eytt miklum peningum í hann en það er einmitt það sem er svo skapandi og skemmtilegt. Garðhúsið er að mestu smíðað úr afgangstimbri og bjálkum sem maðurinn minn geymdi lengi vel. Í garðhúsinu höfum við haldið matarboð og kaffiboð og fyrir síðustu jól var ég með jólaföndur fyrir litlu börnin í fjölskyldunni. Ég á mér þann draum að gera það að hefð og ætla að þróa það eftir því hvað þeim fjölgar og hvað þau stækka,“ segir hún.

Þegar Kolbrún er spurð hvað góður garður þurfi að uppfylla segir hún skjól svolítið mikilvægt.

„Ætli góður garður sé ekki garður sem uppfyllir þarfir þess sem á hann? Sumir vilja hafa garðana þannig að vinnan sé sem auðveldust og þurfi lítið að hafa fyrir honum. Aðrir vilja brasa og dunda í garðinum, finnst gaman að rækta og leggja á sig þá vinnu. Góður garður er að mínu viti í góðu skjóli, þar er aðstaða til að elda og matast, leika sér og eiga góðar samverustundir, allt annað fer nú bara eftir smekk og efnahag.“

Aðspurð hvert hún sæki innblástur þegar kemur að garðinum segist hún elska tímaritið Í boði náttúrunnar.

„Ég sæki innblástur í blað sem ég er áskrifandi að og heitir „Í boði náttúrunnar“ og svo skoða ég Pinterest og blöð og bækur um garða og garðhús. Svo höfum við fengið gefins alls konar efni og vinir og ættingjar hafa verið fúsir til að gefa okkur ýmislegt sem þeim finnst passa í garðinn. Við erum heppin,“ segir hún og hlær.

– Hvað hefurðu lært af því að eiga garð?

„Það sem ég kann í garðrækt, sem ég myndi nú ekki segja að væri mikið, hef ég lært í þessum garði. Fyrst fengum við ráð hjá tengdaforeldrum mínum sem áttu lítinn og sætan garð á Akureyri og gátu sagt okkur til fyrst í stað. Nú er ég farin að kenna sonardóttur minni, sem er fjögurra ára, handtökin. Hún hefur frá því hún fór að ganga brasað með mér í garðinum og hjálpað til við að vökva og gróðursetja og finna ilminn af blómum og jurtum. Þær stundir eru þær allra bestu. Það nýjasta í garðinum er einmitt stærri sandkassi handa dömunni.“

– Vantar eitthvað í garðinn ykkar?

„Fyrir fáeinum árum settum við nýjar girðingar og byggðum garðhús svo það vantar ekkert í garðinn okkar. Nú bíðum við bara eftir sumrinu en þessi einmunatíð hefur flýtt vorverkunum og öllu sem því fylgir.“

– Nú eru margir að berjast við illgresi í garðinum sínum. Lumar þú á einhverju góðu ráði varðandi það?

„Mér finnst einfaldast að ráðast á það með skóflum og sköfum af öllu tagi og reyna að ná rótunum. Ég hef reynt að hafa garðinn lífrænan og nota ekki eitur til að losna við arfa og skordýr. Trixið við góðan garð er að hugsa vel um hann og hlúa að honum, það borgar hann svo yndislega til baka þegar hann skartar sínu fegursta. Það er svo gott að upplifa smá náttúru heima hjá sér og gleðjast yfir fegurðinni og uppskerunni sem er stundum ekki meiri en átta jarðarber!“

Kolbrún ræktar allt í pottum í garðhýsinu.
Kolbrún ræktar allt í pottum í garðhýsinu. mbl.is/Árni Sæberg
Garðurinn hennar Kolbrúnar er sérlega fallegur.
Garðurinn hennar Kolbrúnar er sérlega fallegur. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál