Geta gæludýraeigendur átt falleg húsgögn?

Ásgeir Freyr Ásgeirsson framkvæmdastjóri Zenus.
Ásgeir Freyr Ásgeirsson framkvæmdastjóri Zenus. Haraldur Jónasson/Hari

Litlu loðbörnin eiga það til að tæta upp arma á stólum og jafnvel naga sig djúpt ofan í sessur og púða. Að ekki sé talað um hárin sem dreifast um alla íbúð. Ásgeir Freyr segir samt ekki alla von úti og fleiri möguleikar í stöðunni en að breiða lak yfir búslóðina. 

Þeir sem eiga hund eða kött kannast við vandann. Einn daginn er voffi skilinn eftir einn heima og notar tækifærið til að naga fæturna á fínu stólunum í borðstofunni eða grafa djúpa holu í sófann. Hundarnir eru þó yfirleitt nógu snjallir til að geta hamið sig á meðan þeir eru ekki einir, en köttunum stendur alveg á sama um hvað má og má ekki og eru vísir til að reyna að brýna klærnar á silkisessum og leiðurhægindastólum þótt eigandinn góli: „Nei kisi! Skamm!“

Hvað er til ráða fyrir gæludýraeigendur? Stendur valið á milli þess að eiga annaðhvort falleg bólstruð húsgögn eða hund og kött? Ef lítið loðbarn er á heimilinu, þarf þá alltaf að hafa fína sófann vandlega pakkaðan inn í slitsterkt lak? Verður að segja bless við hönnunarvöruna og breiða út faðminn á móti IKEA og öðrum tiltölulega praktískum framleiðendum og einfaldlega endurnýja nagaða borðfætur og sundurtætta stóla með reglulegu millibili?

Örtrefjaáklæði þolir mikið

Ásgeir Freyr Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Zenus á Smiðjuvegi, segir ekkert til sem heitir gæludýrahelt áklæði á húsgögn en sum efni henti samt betur en önnur fyrir heimili með gæludýr. „Gróft ofið efni er sennilega versti kosturinn enda auðvelt fyrir kettina að kroppa í það með klónum, en skynsamlegast væri að velja húsgögn með áklæði úr slitsterku örtrefjaefni.“

Ásgeir segir örtrefjaefnið hafa undirlag sem er eins og dúkur og þurfi gæludýrin því að hafa meira fyrir að komast í gegnum yfirborðið. „Þessi efni hafa yfirborð sem minnir á rúskinn og eru auðveld í þrifum, en því miður er örtrefjaáklæði ekki í tísku og hefur ekki verið um nokkurt skeið.“

Zenus var stofnað fyrir ellefu árum og fæst bæði við bólstrun og sérsmíði húsgagna. Þar má einnig kaupa gluggatjöld og finna úrval af efnum og áklæðum. Samtals starfa ellefu manns hjá fyrirtækinu og er það faðir Ásgeirs Freys, Ásgeir Ólafsson, sem stýrir húsgagnaverkstæðinu en hann starfaði í rösklega fjóra áratugi sem bólstrari hjá Kaj Pind bólstrun.

Ásgeir Freyr segir skemmdir vegna gæludýra algenga ástæðu þess að viðskiptavinir koma með húsgögn í bólstrun. Eru það þá nær einungis dýrari húsgögnin, eða þau sem hafa sérstakt tilfinningalegt gildi, sem eru send til bólstrara í viðgerð enda kostar bólstrunin sitt. Gæti verið ódýrara, ef um ósköp venjulegt fjöldaframleitt húsgagn er að ræða, að endurnýja frekar en laga skemmdirnar.

Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Hægt að fela skemmdir í leðri

Sumt getur fólk þó gert sjálft, og selur Zenus t.d. efni til viðgerðar á leðri. Segir Ásgeir að margir haldi ranglega að leður sé tilvalið húsgagnaáklæði fyrir heimili með gæludýr, enda slitsterkt efni sem auðvelt er að þrífa, en beitt kló getur skilið eftir sig ljóta rispu og kettir með einbeittan brotavilja eru ekki lengi að gata arminn á sínum uppáhaldsleðurstól. „Þeir sem vilja leður ættu þá að reyna að hafa það í svörtu, því þegar kemur að viðgerðum með litum og fyllingarefnum er auðveldast að láta litinn passa ef leðrið er svart.

Skemmdir á viðarhúsgögnum má líka oft laga, að því gefnu að skaðinn sé ekki of mikill. „Ef hvolpur hefur nagað fót á stóli eða borði kemur mögulega til greina að pússa viðinn upp og þannig fjarlægja skemmdina,“ útskýrir Ásgeir.

Hann segir það líklega ekki borga sig að t.d. láta sauma eftir máli áklæði til að leggja yfir stól eða sófa, en mögulega geti það komið vel út að breiða stórt lak snyrtilega yfir. Þarf þá samt væntanlega að sauma tvo efnisstranga saman til að hylja t.d. heilan sófa, því rúllurnar eru yfirleitt ekki meira en 1,4 til 1,5 metrar á breidd. „Algengt metraverð á áklæði er frá 5.000 upp í 20.000, til að gefa einhverja hugmynd um kostnaðinn við það að breiða yfir húsgögnin með þessum hætti.“

Sama hvaða lausn verður fyrir valinu ráðleggur Ásgeir að draga það ekki að verja húsgögnin á heimilinu eða skipta þeim út fyrir mublur sem mega skemmast. „Fólki hættir til að vera bjartsýnt og vona að hundurinn eða kötturinn á heimilinu sjái húsgögnin í friði en veit svo ekki fyrri til en komið er gat eða rispa.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál