Hefur búið í þremur íbúðum á sjö árum

Kristín Sólveig Kristjánsdóttir læknir.
Kristín Sólveig Kristjánsdóttir læknir.

Kristín Sólveig Kristjánsdóttir læknir er ákaflega fær í samskiptum og segir að gott heimili sé sá staður þar sem fólk dettur inn um dyrnar og þar sem er gott hjartarúm. Hún hefur búið erlendis í nokkur ár en stefnir á sérnám í bráðalækningum, jafnvel á Íslandi. 

Það fylgir Kristínu Sólveigu áhugaverð orka sem erfitt er að festa fingur á hvaðan kemur. Þegar maður kynnist sögu hennar hins vegar skýrist myndin. Kristín var eitt sinn skátastelpa og seinna fjallaleiðsögukona. Hún er hjúkrunarfræðingur og líka læknir. Hún er frjáls, flínk í samskiptum, svolítill pönkari en mest af öllu þá fer hún sýnar eigin leiðir í lífinu.
Fyrir sjö árum var hún hjúkrunarfræðingur á slysavarðstofu en ákvað að venda kvæði sínu í kross og fara í læknanám til Danmerkur þar sem hún býr ennþá.

Hvar lærðirðu?

„Ég lærði í Óðinsvéum við Syddansk-háskólann. Ég get mælt með því námi við alla, þar sem mikið skipulag er í náminu og áherslan er á samskiptafærni og þverfaglega samvinnu ofar öllu hinu fræðilega.“

Hvað kom til að þú ákvaðst að verða læknir?

„Mig langaði bara að læra meira og fá þennan möguleika á að velja sérgrein og að starfa kannsi sjálfstætt sem mér þykir heillandi.“

Kristín Sólveig Kristjánsdóttir læknir.
Kristín Sólveig Kristjánsdóttir læknir.

Fólkið skiptir meira máli en staðurinn

Hvernig er að búa á erlendri grundu?

„Það er frábært, annars væri ég ekki hér. Ég hef búið víða, í Bandaríkjunum, Hollandi, Sviss og Noregi. Mín skoðun er sú að það er ekki landið sem skiptir höfuðmáli heldur sú staðreynd að ég hef verið svo lánsöm að hitta gott fólk sama hvar í veröldinni ég er.

Svo finn ég hamingju við að læra eða vinna í verkefnum sem mér finnst skipta máli.“

Kristín trúir af öllu hjarta á að ferðast létt.

„Ef ég er að fara á milli landa þá finnst mér allar ferðir undir 10 dögum þýða að ég tek bara lítinn bakpoka með mér. Þegar ég flutti hingað tók ég bara lítinn bakpoka og eina ferðatösku. Síðan pökkuðum við, ég og börnin mín tvö, á eitt bretti sem var sett í skip. Á þessum tíma vissi ég ekki hvar ég myndi búa eða hversu mikið pláss væri á staðnum. Svo að á brettið fór: Minn heittelskaði „Stokke“ stóll. Sonur minn sem var þá 10 ára vildi fá sinn skrifborðsstól með líka. Ég tók stóran Verner Panton stól, Kitchen Aid-hrærivélina og kistil sem var með útvöldum leikföngum. Ég pakkaði almennilegum hnífum fyrir eldhúsið. Bara það allra mikilvægasta fékk að fara með sem tveggja barna móðir á námslánum myndi aldrei kaupa sér úti. Þegar við fluttum til Danmerkur fór 17 ára dóttir mín beint í íþróttaskólann í Ollerup þar sem dans og fimleikar eru á hæsta plani. Hún var þar í eitt ár og fór að heiman með tvær töskur. Kistillinn hefur verið í ýmsum hlutverkum. Sem stofuborð, bekkur á gangi, hirsla á baðinu. Hann er frábært fjölnota húsgagn sem ég held mikið upp á.“

Minna drasl þýðir minna vesen

Mottó Kristínar Sólveigar er minna drasl og minna vesen. „Það hefur margborgað sig fyrir mig.“

Er öðruvísi að standsetja íbúð í Danmörku?

„Síðastliðin sjö ár hef ég búið í þremur íbúðum. Húsnæðið þar sem ég er, er um margt öðruvísi en við þekkjum til á Íslandi. Húsin eru gömul, sem dæmi, 120 ára hús með trégólfum og múrsteinum, sem mér finnst hlýlegt.“

Kristín segir hins vegar kalt í rakanum á veturna í Danmörku. „Þá fer kona á flóamarkað og kaupir stór persnesk teppi, óskar sér Álafossteppis í afmælisgjöf og finnur þykkar gardínur.

Hér áður hélt ég alltaf að Danir væru svo mikið að hafa það huggulegt, þegar maður las dönsku hönnunarblöðin þar sem algengt er að sjá fólk með kerti, tebolla, vafið inn í smart teppi.

Núna veit ég að það er vegna þess að þeim er svo kalt.

Rafmagn og hiti hér er svo brjálæðislega dýrt. Svo það er mikil hagsýni fólgin í að eiga stóra tebolla og að slökkva ljósin,“ segir Kristín Sólveig og brosir.

„Heima á Íslandi eru hús mun betur einangruð og síðan er frágangur allur betri að mínu mati í húsum.

Mér finnst persónulega betra að biðja pabba að koma frá Íslandi en að bíða eftir iðnaðarmanni hér í sex mánuði.

En ég á nú örugglega heimsins handlagnasta og besta pabba.“

Sérnám í bráðalækningum

Hvað er á döfinni?

„Ég er að velta fyrir mér sérnámi og kem kannski heim þar sem bráðalækningar á Íslandi eru á heimsmælikvarða. Eins sakna ég þess dásamlega fólks sem vinnur á bráðadeild Háskólasjúkrahúss.“

Kristín á íbúð í Mosfellsbænum sem hún hefur ákveðið að setja á sölu.

„Hún er fullkomin fyrir hjón með tvö börn en er of stór fyrir mig og köttinn minn.

Dóttir mín býr núna í Kaupmannahöfn með sinni fjölskyldu og yngra barnið mitt er að klára stúdentspróf um þessar mundir og stefnir á háskólanám í Danmörku. Það hefur verið heilmikið verk að taka íbúðina í Mosfellsbænum í gegn, en nú er hún eins og ný og býður eftir fólki sem langar í fallegt útsýni og gott hverfi. “

Heimili ekki hlutir og pjatt

Hvað er það við Ísland sem heillar?

„Ísland er aðlaðandi í mínum huga þar sem ég á dásamlega fjölskyldu og vini í landinu sem ég sakna.

Eins finnst mér sundlaugarnar aðlaðandi, vatnið gott og fjöllin eru einnig eitthvað sem ég sakna frá Íslandi og mér finnst Dana sárvanta.“

Hvað er gott heimili að þínu mati?

„Mér finnst gott heimili sá staður sem er opinn og afslappaður á þann hátt að fólk dettur inn um dyrnar – eins og hjá mömmu og pabba – þar sem er endalaust hjartarúm og húsrúm með ást og góðum mat.

Heimili fyrir mér er ekki hlutir og pjatt. Það er andrúmsloftið og ástúðin. Ég gæti búið í snjóhúsi uppi á jökli með rétta fólkinu.

Gott heimili er því þegar allt kemur til alls griðastaður með þínu fólki sama hvort það er blóðskylt þér eða ekki.“

Farðu út að leika!

Hverju mælir þú með fyrir fólk til að halda í heilsuna?

„Farðu út að leika þér og svo mæli ég með tengslum og tilgangi í lífinu. Að vera úti er best. Að synda í hagléli, að þvælast í fjöruferð, að vera með öndina í hálsinum á fjallaskíðum, að fetta sig í jóga með kettinum. Ég mæli með að fólk finni bara það sem er gaman og hluti af hversdagsleikanum. Minna vesen – minna stress.“

Hvað tengsl varðar segir Kristín Sólveig mikilvægt að forgangsraða félagsskap og því sem maður tekur sér fyrir hendur.

„Einmanaleiki er eitt af stóru heilbrigðisvandamálunum í Danmörku um þessar mundir.

Afleiðingar einmanaleika eru hrikalegar, bæði fyrir líkama og sál.

Hamingja að mínu mati er ekki hlutbundin og það að vera vansæll er hreint út sagt óhollt.

Að sinna einhverju af alúð er hollt fyrir alla. Langamma Lóa sagði alltaf að það væri gott að geta glaðst yfir litlu.

Ég er að verða meira og meira sammála henni. Lífið er einfaldlega skemmtilegra með þeirri hugsun.“

Útsýnið getur verið lúxus líka

Hvernig er draumaeignin þín?

„Íbúðin hennar Dóru Sifjar Tynes vinkonu minnar er algjör draumur en hún vill endilega búa þar sjálf. Hún á yndislegt heimili með pláss fyrir gleði og gesti.

Það er auka herbergi fyrir farfugla og svalir sem passa jafnt fyrir morgunkaffi og kampavínsglas í góðum selskap.

Það að sjá hafið og fjöllin er klárlega lúxuslíf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál