„Við erum ekki of litlar í okkur“

Sóley Rut Jóhannsdóttir húsgagnasmiður.
Sóley Rut Jóhannsdóttir húsgagnasmiður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóley Rut Jóhannsdóttir er 26 ára húsgagna- og húsasmiður. Hún segir iðngreinina henta konum vel en segir ákveðna vanþekkingu um iðnaðinn ríkja í samfélaginu. 

Sóley Rut nam húsgagnasmíði og húsasmíði í Byggingatækniskólanum í Reykjavík. „Námið nær auðvitað ekki yfir allt sem snertir greinarnar en það er virkilega góður grunnur í því helsta sem varðar umgengni við vélar, handverkfæri, efnisfræði og samsetningar á ýmsu tengdu húsgögnum og húsum en svo er námssamningur sem þarf að klára til að fá að taka sveinspróf. Námið er blanda af verklegum smíðaæfingum, fríhendis og tölvuteikningu, fróðleik um uppbyggingu mannvirkja og framkvæmdir, efnisfræði og ýmis viðbótarnámskeið til að velja úr. Námið er ótrúlega hagnýtt og skemmtilegt og ég mæli með því að kynna sér brautirnar sem eru í boði og sérstaklega fyrir þá sem eru að klára grunnskóla því það er hægt að taka stúdentspróf samtímis.“

Flökkusögur ekki nákvæmar

Nú þykir þetta ekki hefðbundið nám fyrir stúlkur, hver er ástæða þess að þínu mati að í greininni eru aðallega karlar?

„Kynningin á greininni og hvernig er talað um hana og enn frekar hvernig er ekki talað um hana. Enginn hafði minnst einu orði á iðngreinar við mig þegar ég var barn né unglingur, bara alltaf sama tuggan að fá stúdentspróf til að komast í háskóla og það er tilvikið fyrir langflesta held ég, nema kannski þá sem eiga foreldra sem eru iðnaðarmenn. Iðnnám hefur mikið verið talað niður í gegnum tíðina og sú hræðilega flökkusaga að aðeins þeir sem geta ekki lært á bókina fari í iðnnám, sem er bull. Það krefst mikillar hæfni og æfingar að verða góður iðnaðarmaður. Ástæður sem ég hef heyrt því til stuðnings að konur eigi erfiðara með að vera smiðir eru t.d. að aðbúnaður sé ekki nógu góður, eins og það sé ekki eitthvað sem er auðvelt að breyta og það öllum í hag; að við séum of litlar í okkur og getum ekki höndlað kaffistofuhúmor, að við séum ekki nógu sterkar og aðrar misgáfulegar ástæður sem halda ekki vatni. Húsgagna- og húsasmíði eru mjög fjölbreyttar og margþátta greinar svo möguleikinn að finna ekkert innan þeirra sem kona getur gert eða fengið áhuga á er algjörlega út í hött.“

Hvað hefur þú gaman af því að gera/smíða?

„Mér finnst ekkert eitt skemmtilegra en annað í því sem ég geri í dag en það er skemmtilegt að sjá eitthvað eftir mig, eins og t.d. gólfefni, innréttingar, þök og fleira. Mér finnst líklega skemmtilegast að sjá bætingar bæði í framkvæmdarhraða og við frágang.“

Heiðarleiki skiptir miklu máli

Hver ertu utan vinnu?

„Ég er bara alls konar utan vinnu, t.d. sambýliskona, hundamamma, dóttir, systir, vinur, félagi, reddari, þreytuskrímsli og hamingjuhrúga allt í bland og á víxl. Mér finnst oft erfitt að fara úr einu hlutverki í annað og það getur orðið pínu brosleg útkoma því ég vil gera allt en samt ekkert og vera með öllum en samt vera ein. Getið ímyndað ykkur hvað það er spennandi fyrir Stefán kærastann minn að koma heim og vita aldrei hver er heima,“ segir hún og hlær.

-Hver eru þau gildi sem þú ert alin upp við?

„Heiðarleiki kemur fyrst upp í hugann en ég var svo heppin að eiga heimsins bestu mömmu sem ég get sagt frá öllu. Frá því ég man eftir mér hefur hún alltaf sagt að hún treysti mér og hún hefur aldrei gert neitt til að ég haldi annað. Það fylgir því ákveðin ábyrgð að vera treyst og alls ekki sjálfgefið þegar maður er unglingur að byrja lífið. Ég hafði engan áhuga á að skemma sambandið okkar eða bregðast traustinu og það hefur verið gott veganesti í gegnum lífið að vera ekki að pukrast með neitt eða vera í einhverjum feluleikjum. Ef þú vilt ekki segja neinum frá því sem þú ert að gera, ættirðu líklega ekki að vera að gera það. Alveg sama hvað þú ert ungur eða gamall.“

Lá alltaf fyrir að verða smiður

mbl.is/Kristinn Magnússon

-Áttu skemmtilega sögu að segja frá því þú varst að alast upp?

„Ég og frænka mín erum jafn gamlar en mjög ólíkar, sem barn var ég uppi um alla veggi og inni í öllum skápum á meðan hún var mjög yfirveguð og róleg. Við vorum ósjaldan saman uppi í sveit hjá ömmu og afa á sumrin og eitt skiptið var ég að brasa við að saga spýtur af miklum eldmóð til að smíða fuglakofa. Hún fylgist með í hæfilegri fjarlægð þegar ég saga í löppina á mér í öllum æsingnum. „Sóleee-ey þó!“ Hún hleypur og nær í ömmu sem bannar mér að halda áfram en ég fann ekkert til þó að það liti illa út svo ég fékk bara plástur og kláraði að smíða kofann. Þetta upphróp frænku minnar er oft ennþá grínast með í dag og ég er með skemmtilegt ör eftir tennurnar á fótleggnum. Þegar ég hugsa til baka held ég að það hafi alltaf legið fyrir að ég yrði smiður af einhverju tagi því ég var alltaf eitthvað að negla, saga, klippa eða líma.“

-Hver eru tækifærin fyrir konu í þínu fagi?

„Eins og staðan er í dag eru óteljandi tækifæri. Það vantar fólk alls staðar og ég gæti eflaust unnið allan sólarhringinn ef mér sýndist svo. Smiðir geta unnið í nýbyggingum ýmist við að steypa, klæða, smíða eða setja upp innréttingar, það þarf að smíða allavega sérpantanir og hönnunarvörur, hægt að vinna bæði inni á verkstæði og úti í öllu mögulegu, vinna í hönnunar-, húsgnagna- og/eða byggingavöruverslunum, reka eigið fyrirtæki, vera verkefnastjórar, teymisstjórar, verkstjórar, byggingastjórar, það er eftirspurn eftir smíðakennurum bæði á grunnskóla- og menntaskólastigi um allt land, húsverðir eru oft þúsundþjalasmiðir, það er hægt að bæta við smíðanámið alls konar háskólaprófum. Það eru allir vegir færir og iðnnám nýtist ótrúlega vel heima hjá okkur líka því allir vita að það er ekki á allra færi að fá iðnaðarmann eða -konu þegar manni hentar eða bráðvantar strax í gær.“

Finnur sjálfstraustið aukast með hverju verki

-Hvað grípur þig í enda dagsins?

„Í enda dagsins er ég bara ótrúlega þakklát fyrir að hafa heilsu og burði til að vinna við það sem ég elska. Ég finn sjálfstraustið aukast með hverju verkinu og að gleðja fólk með vinnunni er ótrúlega góð tilfinning.“

-Hver eru áhugmál þín?

„Ég er nýbúin að kaupa mér drauma 62 m2 endaraðhús með kærastanum mínum svo helsta áhugamálið mitt í dag er allt sem kemur að því, hvort sem það er tengt innanhússhönnun, viðhaldi sem ég hef aldrei þurft að spá í fyrir sjálfa mig eða núna nýjast garðrækt.“

-Hvað skiptir þig mestu máli?

„Heilsan, fólkið mitt og hundurinn minn.“

Félag í kringum fagkonur

-Hvað er Félag fagkvenna og hvað geturðu sagt mér um það?

„Félag fagkvenna var stofnað fyrir um 2 árum og er fyrir allar konur sem eru að læra eða vinna í karllægum iðngreinum. Við erum hér til að vera góðar fyrirmyndir og höfum verið í kynningarstarfi um iðngreinar fyrir börn á grunnskólastigi víðs vegar um landið. Við höfum einnig tekið þátt í Háskóladeginum í HR, Framadögum, Stelpur og tækni-deginum, Íslandsmótinu í iðngreinum, ýmsum starfamessum um landið og viljum gera iðnmenntaðar konur sýnilegri. Við erum líka í þessu til að mynda tengslanet okkar á milli og vera stuðningur hver fyrir aðra, þetta er fjölbreyttur hópur kvenna í mörgum greinum og virkilega góður félagsskapur. Við hittumst á nokkurra mánaða fresti og gerum eitthvað skemmtilegt og einu sinni á ári höldum við Nýsveinahátíð til heiðurs þeim konum sem luku sveinsprófi á árinu sem leið. Við erum á Facebook undir Félag fagkvenna, instagram Fagkonur og e-mail fagkonur@gmail.com.“

-Hvað er fram undan?

„Ég var að standast skriflegt sveinspróf í húsgagnasmíði svo næst á dagskrá er að klára verklega hlutann 3. júní nk. og fá vonandi loksins sveinsbréfið. Ég er stúdent bæði af náttúrufræði- og málabraut svo ég vil endilega hafa tvö sveinsbréf líka fyrst ég hef tækifæri til þess. Við erum svo nokkur í vinnunni sem skráðum okkur í meistaraskólann í haust svo það verður nóg að gera þegar ég er búin að standsetja garðinn minn í sumar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »