Þetta er kalt í heimilistískunni

Mælt er með því að blanda saman ólíkum stílum og ...
Mælt er með því að blanda saman ólíkum stílum og hafa heimilin lífleg. mbl.is/Shutterstock

Innanhússtískustraumar koma og fara eins og aðrir tískustraumar. Ef þú vilt að heimili þitt sé á borð við þau flottustu er mikilvægt að fylgjast með hvað er heitt og hvað er kalt í dag eins og orðað var í gömlu íslensku blaði. Innanhússhönnuðir fóru yfir hvað er að koma og detta úr tísku á vef MyDomaine

Myndaveggir

Einn innanhússhönnuður vildi meina að svokallaðir myndaveggir þar sem mörgum myndum er raðað saman á einn vegg séu að detta úr tísku. Of mikil list á einum stað getur litið út fyrir að vera sóðalegt og óskilgreint. 

Einn stíll

Það getur verið freistandi að hafa heimilið allt í sama stílnum. Innanhússhönnuður segir að fólk eigi að fegra heimili sitt á fjölbreyttan hátt. Fólk er margbrotið og því á stíll þeirra að sækja innblástur frá mismunandi áttum. Hægt er að raða þeim fallega saman út frá til dæmis litum.  

Hvítlökkuð húsgögn

Hvítlakkaðar hillur og hirslur eru algengar en samkvæmt innanhússhönnuði ætti fólk að hætta í þessu hvíta og velja fjölbreyttari litatóna inn á heimilið, finna sér sinn nýja „hvíta“ lit. 

Ódýrar tískuvörur á heimilið

Ódýrar og fljótlegar lausnir eru að detta úr tísku. Fólk er hvatt til þess að hugsa um náttúruna, hvað það þarf virkilega og gefa sér tíma. Dýrari húsgögn geta auk þess verið góð fjárfesting. 

Ónáttúruleg efni

Ónáttúruleg efni eru að detta úr tísku. Innanhússhönnuður mælir frekar með því að velja ull, bómull, hör, alpakaull og leður. Þessi efni eru náttúruleg og eldast fallega. 

Náttúrulegir tónar

Að velja bara náttúrulega tóna inn á heimilið er ekki í tísku lengur. Innanhússhönnuður hvetur fólk til þess að hafa heimili sín jafn lífleg og líf þeirra. Skemmtileg veggfóður koma þar sterk inn. 

Sumir mæla með því að gefa sér tíma til þess ...
Sumir mæla með því að gefa sér tíma til þess að velja inn og fjárfesta í réttu hlutunum. mbl.is/Shutterstock
mbl.is