Situr uppi með bílastæði

Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður.
Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður Reykjavíkurborgar býr í lítilli íbúð í Þverholti ásamt 12 ára syni sínum. Hún heillaðist af grænu útsýni úr gluggum íbúðarinnar en þrátt fyrir að íbúðin sé ný þá er hverfið gróið, sem er partur af sjarmanum við það byggja upp í eldri hverfum. 

„Það sem heillaði mig fyrst og fremst við þessa íbúð var hversu björt hún er og með grænu útsýni. Ég sé Háteigskirkju í austurátt og svo sé ég líka Hallgrímskirkju speglast í svalahandriðinu. Þótt íbúðin sé ný þá er hverfið mjög grænt og gróið og ég nýt þess að horfa á gróðurinn.“ Edda keypti íbúðina fyrir tveimur árum og er sérlega ánægð með bakgarðinn. „Garðurinn er ofan á bílakjallara og þar var plantað mörgum berjarunnum sem hafa sprottið mjög vel. Börnin eru alltaf þarna úti að leika og að tína ber, það er mjög skemmtilegt.“

Smáhlutir frá ferðalögum

Aðspurð út í sinn uppáhaldsstað í íbúðinni segir hún að þeir séu tveir. Á morgnana er það eyjan í eldhúsinu þar sem hún nýtur fyrsta kaffibollans en á kvöldin er það græni sófinn. „Þetta er einingasófi úr Ikea sem ég er búin að eiga í fjögur ár. Hann er alveg ofboðslega þægilegur og gott að setjast niður í hann eftir vinnu. Það sem er líka svo gott við hann er að það er hægt að skipta um áklæði á honum. Núna er áklæðið grænt en ég á annað til skiptanna,“ segir Edda og bætir við að hún og Ívar sonur hennar skipti sófanum bróðurlega á milli sín; hann fái stærri hlutann en hún eina horneiningu. Fyrir framan sófann er sjónvarpsskenkur sem hýsir ekki bara sjónvarpið heldur líka alls konar smáhluti sem Edda hefur sankað að sér á ferðalögum sínum eins og pólskan fugl og eftirlíkingu af Empire State-byggingunni. Eins er nokkuð um hluti frá Svíþjóð í íbúðinni en Edda bjó þar í fjögur ár og starfaði og stundaði nám í sjálfbærri borgarhönnun í LTH-arkitektaskólanum í Lundi. „Mér finnst gaman að hafa skemmtilega hluti í kringum mig, eitthvað sem mér þykir vænt um.“

Bílastæði ætti að vera val

Edda segist vera mjög ánægð með íbúðina í heild sinni, enda er hún sérlega björt. „Sólin er hér til klukkan tvö þrjú á daginn en seinnipartinn speglast hún hingað yfir af húsunum á móti. Það er bara eitt sem mér finnst furðulegt hérna og finnst að mætti endurskoða þegar verið er að byggja nýbyggingar. Með þessarri íbúð fylgir bílastæði í bílakjallara. Ég á hins vegar ekki bíl heldur fer allra minna ferða fótgangandi, á hlaupahjóli eða á hjóli. Mér finnst algjör tímaskekkja að bílastæði fylgi með nýjum íbúðum, það ætti að vera val að eiga bílastæði því svona byggingar kosta heilmikið. Bílastæðakjallarar eru sérstaklega dýrir og leggur það mikinn aukakostnað á hverja íbúð. Eins finnst mér að það mætti almennt samnýta bílastæðakjallara meira. Við þetta hús stendur t.d. bílastæðakjallarinn meira og minna tómur á daginn þegar íbúar eru í vinnu. Fyrirtæki hér í kring gætu mögulega nýtt sér stæðin yfir daginn. Þannig væri kjallarinn í notkun allan sólarhringinn,“ stingur Edda upp á og bætir við að þetta eigi örugglega við víðar. „Ég leigi mitt stæði reyndar út því ég hef hina gullnu þrenningu; vinnu, skóla og matvörubúð, í göngufæri við mig svo ég þarf ekki bíl og er mjög ánægð með það.“ Aðspurð hvað sé annars fram undan í vetur þá segir hún verkefnin næg í vinnunni hjá Reykjavíkurborg. „Það er margt að gerast. Við erum að endurhanna Laugaveginn og vinna við Hlemmsvæðið er í fullum gangi. Síðan falla ýmis smærri verkefni til sem miða öll að því að gera borgina meira lifandi og skemmtilega.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »