Af hverju kemur iðnaðarmaðurinn ekki?

mbl.is/Thinkstock

Flestir fasteignaeigendur kannast við það að það getur verið þrautin þyngri að verða sér úti um iðnaðarmann. Hvað þá að fá hann til þess að koma á umsömdum tíma. En af hverju er þetta svona? Af hverju koma þeir ekki þegar þeir segjast ætla að koma? Við leituðum svara hjá nokkrum smiðum. Til að tryggja heiðarleg svör koma þeir ekki fram undir nafni. 

Flestir fasteignaeigendur kannast við það að það getur verið þrautin þyngri að verða sér úti um iðnaðarmann. Hvað þá að fá hann til þess að koma á umsömdum tíma. En af hverju er þetta svona? Af hverju koma þeir ekki þegar þeir segjast ætla að koma? Við leituðum svara hjá nokkrum smiðum. Til að tryggja heiðarleg svör koma þeir ekki fram undir nafni.

mbl.is/Thinkstock

Teygist úr verkunum

„Ég eins og margir iðnaðarmenn vinn ég sjálfstætt og til þess að vera viss um að hafa næga vinnu þá segi ég frekar já við fleiri verkefnum en færri. Reynslan hefur nefnilega sýnt að það er svo margt sem getur komið upp á frá því að húsráðandi hringir í mig og þar til ég kem heim til viðkomandi. Stundum er fólk ekki klárt þegar ég er klár, það hefur skipt um skoðun í millitíðinni eða er jafnvel búið að selja eignina. Og þá stend ég uppi ekki með neina vinnu. Yfirleitt er það þannig að þegar maður er kominn inn á heimili í ákveðið verk þá biður húsráðandinn mann um að bora líka þetta upp, laga þetta aðeins líka og á endanum kemst ég ekkert í burtu. Ég ætla mér aldrei að svíkja þá sem ég hef lofað að koma til, en stundum gerist þetta bara svona. Það teygist úr einu verki og þá myndast keðja af seinkunum.“

– Smiður 42 ára.

 

Fastir kúnnar ganga fyrir

„Það er nú bara þannig að allir iðnaðarmenn eiga „sína föstu kúnna“ og þeim reynir maður að sinna vel. Við látum þá alltaf ganga fyrir því við vitum að það er gott að vinna fyrir þá og þeir borga reikningana pottþétt. Nýir kúnnar sitja því frekar á hakanum, ég viðurkenni það alveg. Þegar það er nóg að gera þá nennir maður ekki í smáverkin og sinnir þeim þegar ekkert annað er í boði. Það er bara þannig. Ég læt allavega stóru fyrirtækin alltaf ganga fyrir því það er minna vesen að vinna fyrir fyrirtæki. Það er ópersónulegra og enginn að hanga yfir þér. Að vinna inni á heimilum fólks er oft meira vesen og allskonar tilfinningasemi fólgin í því. Annars reyndir maður yfirleitt að hlaupa til ef fólk er alltaf að hringja í mann og suða, það sem liggur mest á gengur yfirleitt fyrir.“

– Smiður 49 ára.

mbl.is/Thinkstock

Húsráðendur illa skipulagðir

„Ég hef tamið mér að svara alltaf heiðarlega enda kemur það í veg fyrir kergju og fýlu. Ég læt fólk alltaf vita ef ég kemst ekki í verk á umsömdum tíma í stað þess að hætta að svara í símann eins og sumir kollegar mínir. Það er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé og sumir iðnaðarmenn eiga einfaldlega erfitt með það að segja nei og taka því of mikið að sér. Síðan geta þeir kannski ekki svarað fólki heiðarlega og þá verður kúnninn fúll og pirraður. Húsráðendur kunna frekar að meta heiðarleg svör og ef þú útskýrir málið af hverju þér seinkar þá sýna því flestir skilning þó að svona símtöl séu oft leiðinleg. Iðnaðarmönnum til varnar verð ég samt að segja að Íslendingar eru vanir því að gera allt á síðustu stundu og eru upp til hópa illa skipulagðir. Fólk hringir í mann og þá þarf allt að gerast strax. Það er líklegra til árangurs að hringja með nokkurra mánaða fyrirvara. Þá getur maður frekar stillt hlutunum upp og látið þá ganga upp. Síðan eru það húsráðendurnir sem eru að skipuleggja allt sjálfir í staðinn fyrir að láta smiðinn sjá um skipulagninguna. Allir iðnaðarmenn eru með sinn pípara og rafvirkja og öfugt sem þeir hringja í þegar þá vantar eitthvað og menn reyna að redda hverjir öðrum á báða bóga. Ef húsráðendur eru hinsvegar búnir að bóka eigin pípara sem ekki er vanur að vinna með smiðnum þá ganga hlutirnir oft miklu seinna og verr. Ég mæli með því að húsráðendur láti smiðinn um skipulagninguna á öllu saman.“

– Smiður 40 ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »