Náin fjölskylda í framandi umhverfi

Orri og Kristín ásamt börnum sínum tveimur.
Orri og Kristín ásamt börnum sínum tveimur. mbl.is/Aðsend

Kristín Maríella og Orri Helgason hafa síðustu 5 ár verið búsett með börnunum sínum tveimur í Suðaustur-Asíu. Þau bjuggu í Singapúr í rúmlega 4 ár en fyrir um ári fluttu þau til Balí þar sem þau byggja sér nú hús í hefðbundnum stíl Balíbúa.

Kristín hefur síðustu ár helgað líf sitt fræðslutengdri vinnu þar sem hún fjallar um og miðlar til foreldra hugmyndafræði virðingarríks uppeldis. Hún hefur haldið fjölda foreldranámskeiða bæði hér á landi sem og í Asíu og heldur úti vefnum respectfulmom.com þar sem hún skrifar um efnið. Orri Helgason vinnur sem ráðgjafi í stafrænni umbreytingu fyrir alþjóðleg fyrirtæki.

Þau búa nú á Balí og er forvitnilegt að vita hvers vegna Balí varð fyrir valinu?

„Þegar við bjuggum í Singapúr ferðuðumst við oft til Balí enda bara 2,5 klukkutíma ferðalag á milli staða. Frá því að við heimsóttum Balí fyrst hefur okkur langað til að setjast þar að og fá að njóta þess sem þessi töfrandi eyja hefur upp á að bjóða. Náttúran er mögnuð hér sem og orkan á staðnum. Okkur finnst Balí bjóða upp á það umhverfi sem við höfum verið að leita að fyrir okkar fjölskyldu. Þegar við bjuggum í Singapúr var Orri á stöðugu ferðalagi vegna vinnu en við vildum hægja á hjá okkur og koma á meira jafnvægi á milli vinnu og samveru en Bali býður okkur upp á það að mörgu leyti.

Hér á Balí eru líka spennandi möguleikar á óhefðbundnum skólum og dóttir okkar Ylfa sem er að verða 6 ára byrjaði einmitt í frábærum alþjóðlegum Montessori-skóla núna í haust, en Montessori-stefnan rímar mjög vel við þau gildi sem við tileinkum okkur í uppeldi barnanna okkar svo að við erum rosalega glöð með að finna umhverfi sem styður svona vel við það sem við trúum á.“

Húsið er 20 ára gamalt timburhús, byggt í hefðbundnum indónesískum …
Húsið er 20 ára gamalt timburhús, byggt í hefðbundnum indónesískum „Joglo“-stíl. mbl.is/Aðsend

Töfrandi hús á risastóru landi

Hvað eruð þið að gera tengt endurhönnun á húsinu?

„Þegar við fluttum út vorum við svo heppin að finna til leigu töfrandi hús sem stóð á risastóru landi. Þetta var 20 ára gamalt timburhús, byggt í hefðbundnum indónesískum „Joglo“-stíl. Við fengum ódýra leigu á húsinu og bjuggum þar fyrstu mánuðina okkar á Balí. Húsið var í upprunalegu ástandi og þurfti heilmikið viðhald. Vegna þessa ætluðum við í upphafi bara að búa þarna rétt á meðan við fyndum okkur framtíðarhúsnæði sem hentaði okkur og krökkunum betur.

En það varð síðan svo að við einfaldlega elskuðum að búa þarna. Það ríkti svo mikil friðsæld og fegurð yfir þessu einstaka húsi, ævintýralegum garðinum og dýralífinu sem fylgdi náttúrunni í kring. Það var þá sem við fórum að skoða það af alvöru hvort þetta gæti ekki bara orðið okkar framtíðarhúsnæði á Balí en eina leiðin var þá að gera það upp.

Því meira sem við skoðuðum það að fara út í endurbætur á húsinu varð okkur ljóst að það myndi í raun borga sig best fyrir okkur að taka húsið alveg í sundur og grunna upp á nýtt. Verkefnið endaði þess vegna þannig að í staðinn fyrir að fara út í hefðbundnar endurbætur þá byggðum við í raun nýtt hús í sömu mynd og upprunalega húsið.“

Það borgaði sig best að taka húsið alveg í sundur …
Það borgaði sig best að taka húsið alveg í sundur og grunna það upp á nýtt. mbl.is/Aðsend

Hvernig eru „Joglo“-hús frábrugðin hefðbundnum húsum?

„Það sem er einkennandi fyrir „Joglo“ er að miðjan á þaki hússins er reist upp í einskonar spíss. Þessi gríðarháa þakmiðja hjálpar til við temprun hitastigs húsanna þar sem hitinn fær að stíga upp og svalara verður neðar í meginrými hússins. „Joglo“-hús eru að mestu leyti byggð úr timbri, en einföldum timburhliðum hússins er smellt á milli burðarbita hússins, nánast eins og púsluspil eða legókubbar.

Þriðjungur af útveggjum „Joglosins“ okkar verður steyptur á meðan rest er úr timbri. Það sem er líka mjög sérstakt við byggingu þessara húsa er að það eru alltaf höfð skil þar sem veggir mæta þaki. Það er sem sagt í rauninni opið inn í húsið á öllum hliðum en það er þannig sem við fáum mikilvæga hreyfingu á loftið í húsinu. Loftflæðið kælir loftið en kemur líka í veg fyrir rakamyndun, sem er gríðarlega mikilvægt því hér á Balí er auðvitað hitabeltisloftslag og mikill hiti og raki í lofti allan ársins hring.“

Flytja bráðlega inn í húsið

Hvenær verður húsið tilbúið?

„Við byrjuðum að byggja í júlí og stefnum á að flytja inn í nóvember á þessu ári. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta tekur í raun stuttan tíma! Þakið kláraðist í gær, alveg í tæka tíð þar sem rigningartímabilið fer einmitt að hefjast. Við höfum verið alveg gríðarlega heppin en það hefur ekki rignt einn einasta dag síðan við byrjuðum að byggja. Öll steypa og allur efniviður hefur þannig fengið að haldast skraufþurr sem er mikil mildi þegar byggt er í þessu rakamikla loftslagi.“

Veðrið hefur leikið við þau á þeim tíma sem húsið …
Veðrið hefur leikið við þau á þeim tíma sem húsið hefur verið í byggingu. mbl.is/Aðsend

Hvað er gott húsnæði í þínum huga?

„Gott húsnæði er einfalt, heimilislegt og mætir þörfum allra fjölskyldumeðlima. Þegar við vorum að teikna húsið upp á nýtt var mjög mikilvægt fyrir okkur að passa að húsið myndi mæta þörfum barnanna okkar jafn vel og okkar eigin. Gott rými fyrir leikaðstöðu í barnaherberginu þar sem nægt náttúrulegt ljós fær að flæða inn var til dæmis mikið atriði fyrir okkur, sem og rúmgott og fjölskylduvænt eldhús þar sem við elskum að elda með krökkunum.“

Allur upprunalegur efniviður sem er heill er endurnýttur í nýja …
Allur upprunalegur efniviður sem er heill er endurnýttur í nýja húsinu. mbl.is/Aðsend

Hverjar eru helstu breytingar sem þið eruð að gera á húsinu?

„Við lögðum upp með að endurgera útlit og hönnun gamla hússins eins mikið og við gátum, meðal annars með því að endurnýta eins mikinn efnivið og við getum úr gamla húsinu. En það eru samt heilmiklar breytingar og viðbætur sem við fórum út í. Í gamla húsinu var í raun bara eitt svefnherbergi en nú verða þau þrjú. Við teiknuðum nýjan aðalinngang og breyttum staðsetningu á eldhúsi. Síðan er það auðvitað sundlaugin sem við erum að setja í garðinn en það er örugglega sú viðbót sem við erum hvað spenntust fyrir.“

Börnin bíða spennt eftir því að fá sundlaug í garðinn.
Börnin bíða spennt eftir því að fá sundlaug í garðinn. mbl.is/Aðsend

Dugleg að rækta sambandið

Hvernig eru baðherbergin?

„Við hönnuðum baðherbergin okkar í hefðbundnum Balístíl en hér eru baðherbergi oft utandyra, svokölluð „outdoor bahtrooms“. Hjá okkur verður þakskyggni yfir aðeins helming baðherbergjanna. Inni á öðru baðherberginu verða líka tvö blómabeð, sitt hvorum megin við sturtuna, þar sem við munum planta pálmum en það er einnig eitthvað sem maður sér oft inni á baðherbergjum hér.“

Hvað gerið þið hjónin saman úti?

„Við Orri vinnum bæði mikið í gegnum netið en það býður okkur upp á visst frelsi og flæði. Við vinnum oftast saman á daginn, förum annaðhvort á svokallað „ca working space“ sem er nálægt þar sem við búum, eða setjumst niður með tölvurnar á kaffihúsinu á horninu eða vinnum bara heima á náttsloppunum.

Orri er mjög áhugasamur um RespectfulMom og við vinnum náið saman að allskonar verkefnum.

Í frítíma förum við mikið á ströndina með krakkana en við búum í strandbænum Canggu og svo elskum við að skella okkur saman í kalda pottinn og sánu á Amo sem er „spa“ hérna nálægt okkur. Það finnst okkur vera bestu deitin.“

Barnabók um jólin

Hvað hefur Balí kennt þér?

„Á hverjum einasta degi kennir Balí okkur að sleppa tökunum og treysta. Balí er nefnilega frekar óútreiknanleg og villt, bæði í hversdeginum og líka í stóru myndinni. Ég held maður verði eiginlega að vera svolítið hugrakkur til að eiga heima á Balí. Því þú finnur ekki þetta hefðbundna íslenska öryggi eða „comfort“ hér. Við höfum lært að ef maður ætlar að rembast við að fara alltaf hefðbundnar leiðir og reyna að lifa lífinu hér eins og maður er vanur frá sínu heimalandi þá lendir maður einfaldlega bara í vandræðum.“

Góð verönd er gulls ígildi á Balí.
Góð verönd er gulls ígildi á Balí. mbl.is/Aðsend

Hvað er á döfinni hjá þér tengt vinnu?

„Ég var einmitt að opinbera það fyrir nokkrum dögum að ég komi til með að gefa út barnabók um jólin. Forsala á bókinni minni muni hefjast í dag klukkan 13:00 á síðunni minni respectfulmom.com.Ég er að springa, ég er svo spennt!

Bókin heitir „Stundum græt ég, stundum hlæ ég“ og er bók sem viðurkennir allar tilfinningar.

Þetta er einmitt verkefni sem við Orri höfum verið að vinna náið saman en það er búið að vera alveg magnað að sjá þetta allt verða að veruleika!“

Börnin eru áhugasöm um endurbyggingu á húsinu.
Börnin eru áhugasöm um endurbyggingu á húsinu. mbl.is/Aðsend
Það hefur verið margt um manninn á byggingasvæðinu.
Það hefur verið margt um manninn á byggingasvæðinu. mbl.is/Aðsend
Rómantísk stemning inn í herbergi eykur á ánægjuna við að …
Rómantísk stemning inn í herbergi eykur á ánægjuna við að lesa. mbl.is/Aðsend
Falleg stemning á veröndinni á Balí.
Falleg stemning á veröndinni á Balí. mbl.is/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál