Halla Bára rýnir í nýjustu strauma heimilisins

Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður heldur vinsæl námskeið á heimili sínu.
Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður heldur vinsæl námskeið á heimili sínu. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Halla Bára Gestsdóttir innanhússhönnuður heldur vinsæl námskeið í innanhússhönnun sem fara fram á heimili hennar. Hún segir að umhverfissjónarmið ættu að vera efst í huga þegar fólk endurbætir heimili sitt. 

Umræðan um hnattræna hlýnun og umhverfissjónarmið snertir marga fleti er snúa að heimilinu. Hún ætti að ná hátt þegar kemur að útliti og yfirbragði heimilisins, þegar innanhússhönnun kemur til skjalanna, og á þeim vettvangi er það hugarfarið sem skiptir máli að miklu leyti. Neyslumynstur þarf að breytast, hugsunarháttur og tilfinningar. Við eigum að tileinka okkur hugsunina um að gamalt sé nýtt og nýtt sé núna. Við eigum að endurvinna og endurnýta.

Við skulum einbeita okkur að því að vita hvað við viljum, vita hvað okkur þykir fallegt og áhugavert og svo aftur alls ekki fallegt og áhugavert. Finnum hvað það er sem vekur hjá okkur góðar tilfinningar þegar kemur að húsgögnum og aukahlutum. Verum opin fyrir því sem er eldra og gamalt, við tengjum við og skiptir okkur máli. Veljum vel í kringum okkur og skrifum okkar eigin sögu með því sem segir hver við erum. Fylgjum eigin sannfæringu, ekki hjörðinni, verum staðföst, höfum hugsjónir. Þetta finnst mér skipta mestu máli þegar kemur að innanhússhönnun þessi misserin, og að vera hluti af því að vera virkur þátttakandi í því að breyta og bæta umhverfið,“ segir Halla Bára.

Hverju sækist fólk eftir í dag?

„Í beinu framhaldi af þessari umræðu og að vera meðvitaður um umhverfi sitt vona ég innilega að það sem fólk sækist eftir í útliti og yfirbragði heimilisins breytist samhliða hugsunarhættinum um að endurvinna og endurnýta. Það sem ég finn að fólk sækist eftir meira en áður er mun heildrænni hugsun. Meiri dýpt og samspil, flæði og jafnvægi. Ég fer mikið yfir þetta á námskeiðunum mínum í innanhússhönnun og hvernig ná má þessum atriðum fram.

Það sem kemur oft mörgum á óvart er að til að ná sterkri heild þarf ekki að kaupa nýtt og henda gömlu. Þvert á móti skulum við gefa því sem við eigum stærra hlutverk og ef okkur langar í eitthvað nýtt, velja það af kostgæfni þannig að það gamla og nýja fari fallega saman. Svo eru það heldur ekki bara húsgögn og aðrir hlutir sem spila þarna rullu, heldur líka litir á veggjum, andstæður, form, textíll og fleira. Vel hugsað og vandað yfirbragð endist vel og eldist betur.

Það gerist lygilega oft að ég kem heim til fólks til að aðstoða það í innanhússráðgjöf og það segir við mig að það ætli að losa sig við hitt og þetta, eða þetta er nú bara gamli sófinn og slíkt og fer að afsaka sig. Ég gríp hins vegar andann á lofti og segi „alls ekki, þetta er ekkert smá fallegt, sjáðu allt sem má gera með þennan sófa“. Bendi svo á að með því að færa til, kaupa þá þennan stól sem búið er að spá í og fleira verði þetta góð heild. Ég skil það vel að það reynist mörgum erfitt að sjá þetta fyrir sér en það er svo gaman þegar fólk nær þessu og getur svo haldið sjálft áfram með verkið.“

Ekki passar fyrir alla að tolla í tískunni

„Tíska andstætt stíl er líka annað sem þarf að hafa í huga, og geta greint á milli, þegar kemur að því að ætla sér að vera umhverfisvænni í hugsun og gjörðum. Tíska er að fylgja tíðarandanum, tíska er sterkur drifkraftur, hún er það sem er nýtt og skemmtilegt að skoða. Stíll er sú leið sem við veljum okkur og segir hver smekkur okkar er og áherslur, hver við erum og hvað við viljum. Við þurfum að vita hvað úr tískunni, tíðarandanum, hentar stíl okkar og smekk, svo það passi við það sem við eigum. Svo það falli í heildina og sé eitt púsl í stóru spili. Stundum er tískan, straumar og stefnur algjörlega að okkar smekk og svo koma aftur tímabil sem við tengjum ekki við. Að átta sig á því er mikilvægur þáttur í því að kaupa ekki bara eitthvað því það er kannski vinsælt og „allir“ eiga það,“ segir hún og bætir við:

„Annað í þessu samhengi sem vert er að nefna er að vera ekki feimin við að kaupa síðan húsgögn eða hluti sem mann hefur kannski lengi langað í eða þykir sérlega fallegt þótt það sé vinsælt. Þá erum við greinilega búin að hugsa um að þetta sé það rétta og muni gleðja í heildinni heima en erum að láta vinsældir stoppa okkur. Þarna þarf ekki að hika ef hluturinn er klassískur, vönduð hönnun og mun standa fyrir sínu um ókomna tíð.“

Hvað getur fólk gert til þess að gera heimilið hlýlegra fyrir haustið?

„Þegar haustið er í hámarki og veturinn fram undan er tími breytinga. Við erum að setja okkur í ákveðinn gír fyrir frekar langt, dimmt og kalt tímabil. Við finnum fyrir þörf á því að klæða heimilið í hlýrri búning og einmitt við það getur skapast þessi krísa eins og „er ég að kaupa eitthvað sem endist eða ekki? Er þetta að gera eitthvað fyrir heildina? Þá er mikilvægt að hafa það í huga sem ég nefndi hér á undan. Ekki kaupa bara eitthvað!

En hvað er gott að gera til að fegra heimilið fyrir veturinn án mikils tilkostnaðar? Það eru nokkur atriði sem hafa meiri áhrif en önnur.

Í fyrsta lagi að spara ekki lampa og mjúka lýsingu sem skapar stemningu. Eiga bæði lampa sem eru okkur dýrmætir og vandaðir og svo líka hlutlausari lampa sem kalla ekki á athygli en sinna sínu hlutverki.

Í öðru lagi að spara ekki textíl. Við getum alltaf bætt fallegum textíl í ýmsum myndum inn á heimilið og það er blessaður textíllinn sem kallar fram meiri hlýju.

Í þriðja lagi að nota kerti, kalla fram góða lykt, elda góðan mat og hlusta á góða tónlist. Þarna erum við að gleðja öll skynfæri.

Í fjórða lagi má nefna það að mála, fyrir þá sem vilja ganga lengra og gera meiri breytingar. Mála allt, eitt rými, einn vegg eða hluta af vegg. Málning og litir gera kraftaverk og ég geri mikið af því á námskeiðunum mínum að opna huga fólks fyrir fjölbreyttari notkun á málningu en tíðkast.“

Halla Bára verður alltaf glöð þegar kúnnarnir hennar vilja fara sínar eigin leiðir.

„Hvað þá ungt fólk, sem hefur ekki rekið heimili mjög lengi miðað við marga, og fylgir eigin sannfæringu en ekki hópnum þegar kemur að útliti og yfirbragði. Svo verð ég líka alltaf bara glöð að sjá eitthvað sem virkilega fangar mig með fegurð sinni og einstöku yfirbragði, ég er viðkvæm fyrir umhverfi mínu og líklega of viðkvæm!

Það er eins með heimilið mitt og okkar fjölskyldunnar – ég er bara viðkvæm fyrir ójafnvægi í umhverfinu og ef mér finnst ekki eitthvað ganga upp þegar kemur að yfirbragðinu (ekki í þeim skilningi að útlitið sé fullkomið, því allt skal vera fullkomlega ófullkomið). Ég skynja bara að það er ekki rétt flæði og færi til hluti og húsgögn þar til það jafnast út! Þetta þekkja margir. Við fjölskyldan viljum hafa fallegt í kringum okkur fyrir okkur sjálf og engan annan. Við hjónin vinnum bæði heima og erum alltaf heima, þess vegna er ég kannski alltaf eitthvað að hugsa! Eins og ein sagði á námskeiði hjá mér: „Þú ert með svo hversdagslegan stíl“ og hún skynjaði það hárrétt, ég hef mjög hversdagslegan stíl heima við og eins hvernig ég klæði mig, algjört samhengi þarna á milli, ég vil hafa afslappað umhverfi og andrúmsloft.“

Halla Bára heldur mjög vinsæl námskeið sem haldin eru inni á hennar eigin heimili. Þegar ég spyr hana hvort það hafi ekki verið stórt skref segir hún svo ekki vera.

„Ég byrjaði að halda námskeiðin mín í innanhússhönnun í febrúar í fyrra. Ég held þau heima og finnst það hluti af því sem ég tala fyrir, að skapa persónulegt andrúmsloft. Þá er ég á heimavelli, er að bjóða heim, og get tekið dæmi út frá mínu umhverfi. Svo vil ég að þessi tími sem námskeiðið tekur sé ánægjulegur og notalegur eins og heimboð, með smá mat og drykk.

Það er gaman að fá fólk heim, alls ekki stress, það er bara aðeins tekið til og moppað. Ég veit, og hef fundið það, að það að halda þetta heima er gríðarstór þáttur í því sem námskeiðið er. Hvert námskeið er þrír tímar, með hléi til að næra sig, og svo verður iðulega töluvert spjall í lokin. Mig langar að kalla fram stemningu, láta fólki líða vel og að námskeiðið gleðji öll skilningarvit!“

Hér má sjá allavega fjóra lampa. Lampar gera mikið fyrir …
Hér má sjá allavega fjóra lampa. Lampar gera mikið fyrir hvert rými.
Að búa til góðan mat og leggja fallega á borð …
Að búa til góðan mat og leggja fallega á borð er eitthvað sem fólk ætti að gera meira af.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »