Hanna Stína: Elskar að auka lífsgæði fólks

Eldhúsið er með dökkri innréttingu sem er bæsuð og líka …
Eldhúsið er með dökkri innréttingu sem er bæsuð og líka ljósari sem er sprautulökkuð. Marmarinn í eldhúsinu kemur frá Fígaró. Ljósmynd/Kári Sverriss

Innanhússarkitektinn Hanna Stína Ólafsdóttir fékk það verkefni að umbreyta raðhúsi í Reykjavík sem byggt var 1979. Hún segist aldrei fá leið á vinnunni þótt það sé oft mikið að gera. Hennar markmið sé að auka lífsgæði fólks með því að fegra heimili þess.

Ung hjón með tvö lítil börn leituðu til Hönnu Stínu og vildu fá hlýlega og fallega umgjörð utan um fjölskylduna.

„Verkefnið snerist um að hanna aðalhæðina, sem samanstendur af anddyri, eldhúsi, stofu, borðstofu og gestabaði. Allar innréttingar voru upprunalegar og því kominn tími á andlitslyftingu,“ segir Hanna Stína.

Hvað vildu húsráðendur kalla fram?

„Þau vildu nútímalega hönnun með praktík í huga og betri nýtingu á eldhúsi og mögulega opnara flæði. Við opnuðum einn vegg til að auka rýmistilfinninguna,“ segir hún.

Hanna Stína segir að öll rými hafi haldið sínum upprunalega stað og því hafi tilfærslur í raun ekki verið miklar ef frátalinn er veggurinn sem var brotinn niður.

„Upprunalegur rimlaveggur var látinn halda sér við stiga og hann fékk algjörlega nýtt líf með bláum lit.“

Hvaða efnivið notaðir þú í innréttingar?

„Það var lituð eik í hlýjum gráum lit ásamt lökkuðu mdf með fræstum fúgum. Svo notuðum við smá marmara ásamt grænum og bláum tónum. Það er örlítill retro-fílingur í anda byggingarárs hússins en með nútímalegu ívafi.

Eldhúshornið var svo vel nýtt með innbyggðum sófabekk úr leðri.“

Hvernig eru áherslur að breytast hjá þér í hönnun?

„Aðaláherslurnar breytast aldrei, en þær eru að sérhanna hvert og eitt heimili með tilliti til óska og þarfa íbúanna. Það er að kunna að „lesa salinn“. Mér finnst í raun ekkert vera að breytast hjá mér. Maður þróast bara með tíðarandanum. Það er tíska í þessu fagi eins og öðrum en samt er nauðsynlegt að þekkja muninn á því hvað getur verið bóla og hvað ekki því að fólk er að eyða miklum fjármunum í breytingar og því er ekki verið að tjalda til einnar nætur.“

Innréttingarnar í húsinu voru sérsmíðaðar hjá Hegg. Hanna Stína segist sækja mikið í sömu aðila þegar kemur að sérsmíði.

„Reynslan hefur kennt mér það, en það eru nokkrir sem eru í uppáhaldi hjá mér.“

Hvað um borðplöturnar?

„Borðplatan og gestabaðsvaskurinn eru smíðuð hjá Granítsmiðjunni en marmarinn í eldhúsinu er frá Fígaró.“

Hvað drífur þig áfram í þinni hönnun?

„Að auka lífsgæði og gleði fólks á heimilum sínum.“

Færðu aldrei leið á vinnunni?

„Stundum er vissulega mikið álag en ég er alltaf að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt. Það heldur mér gangandi.“

Hver er litur ársins að þínu mati?

„Grænn – í alls konar útgáfum.“

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »