Kolbrún Anna býr í best skipulögðu 60 fm íbúðinni

Kolbrún Anna Vignisdóttir förðunarfræðingur býr í fallegri íbúð í Vesturbænum. Hún er að koma sér upp heimili og segir að stíll unga fólksins í landinu sé allskonar. Enda engin persóna eins.

Kolbrún er mikill fagurkeri. Hún býr í Vesturbænum með unnusta sínum, Bjarna Þór, og hundinum Roskó.

„Ég elska tímabilshluti með sál og sögu. Stíllinn minn er því í takt við það, gamalt í bland við nýtt,“ segir Kolbrún Anna aðspurð um stílinn inni á heimilinu.

„Við búum í 60 fm íbúð þar sem hver krókur og kimi er nýttur. Ég myndi lýsa heimilinu sem hlýlegu og björtu með mikið af blómum og plöntum.“

Þegar kemur að uppáhaldsstaðnum heima bendir Kolbrún á stofuna.

„Ég eyði flestum stundum í stofunni og líður mjög vel í því rými.“

Bæði heimili og útlit Kolbrúnar er tímalaust.

„Ég heillast hvað mest af áttunda áratugnum (70's), bæði fatastíllinn minn og heimilið eru innblásin af þeim áratug.

Ég er plöntusjúk og er oft að bæta í safnið. Ég kaupi plönturnar mínar víða, sem dæmi keypti ég plöntu um daginn í Bónus sem kostaði lítinn pening en ég er afar ánægð með hana.“

Kolbrún er mikið fyrir heimilið og segir hvergi betra að vera.

„Ég er mjög heimakær og elska að dunda mér heima við. Kærastinn minn eldar mjög góðan mat. Ég nýt þess að borða góðan mat með honum, að hlusta á góða tónlist og að fá vini og fjölskyldu í kaffi.“

Hrifin af nytjamörkuðum

Þegar kemur að því að kaupa nýja hluti inn á heimilið er Kolbrún góð í því að finna hluti með sögu.

„Ég elska að kaupa notaða hluti og er því mjög hrifin af allskonar nytjamörkuðum. Við höfum einnig erft eitthvað af mublum. Það sem mér finnst einnig gaman er að blanda klassískum hönnunarvörum inn á milli þessara hluta sem eiga sér sögu. Hönnunarvörur kaupi ég vanalega í Epal eða öðrum sambærilegum hönnunarverslunum.“

Kolbrún er með frekar klassíska liti á veggjunum í dag en segir að hlýir brúntónar eða karrígulir litir á veggina séu í hennar anda.

Þegar kemur að blómum hefur Kolbrún gefið sér góðan tíma að þróa hæfni sína til ræktunar.

„Ég á 15 plöntur sem mér þykir afar vænt um.

Ég byrjaði á kaktusum en hef hægt og rólega fikrað mig aðeins áfram og á núna allskyns plöntur. Þær gefa heimilinu lit og karakter.“

Blandar hönnunarvörum inn á milli

Áttu þér draumahúsgagn?

„Ég er mjög skotin í Mammoth-stólnum frá NORR11. Ég á einn Wishbone-stól eftir Hans J. Wegner og dreymir um að eignast fimm þannig stóla í viðbót. Ég stefni að því að safna þeim hægt og rólega með árunum.“

Þegar kemur að draumastaðnum þá heilla stórborgir Kolbrúnu.

„Ef það væru engar hindranir þá byggi ég í stórborg á borð við New York eða Los Angeles. Síðan ætti ég sumarhús á Balí. Ástæðan fyrir þessu er sú að ég hef heimsótt þessa staði og er jafn heilluð af þeim öllum.

Ég hef alltaf heillast af hráum New York-þakíbúðum þar sem er hátt til lofts, gluggarnir eru stórir og birtan mikil. Ég er einnig hrifin af múruðum veggjum.“

Leitar hugmynda víða

Kolbrún segir allan gang á því hvernig ungt fólk innréttar inni hjá sér.

„Það eru margir með mínímalísk svart/ hvít heimili á meðan önnur heimili eru með meiri litadýrð og karakter. Mér finnst skemmtilegt hvað stíll fólks er fjölbreyttur og síðan hrífst ég af þeirri staðreynd að við erum ekki öll með sama smekk.

Tískan fer svo auðvitað alltaf í hringi svo það er spurning hvað kemur næst.“

Áttu þér fyrirmyndir þegar kemur að heimilinu?

„Ég fæ stöðugt innblástur frá fólkinu í kringum mig. Ég fletti líka stundum í gegnum tímarit og fæ hugmyndir þaðan. Svo eru fasteignavefirnir líka með alls kyns perlur inni á milli sem veita manni innblástur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »