Þorvaldur á smart heimili í Berlín

Þorvaldur Skúlason hefur búið í Berlín í um tvö ár …
Þorvaldur Skúlason hefur búið í Berlín í um tvö ár og kann vel að meta það.

Þorvaldur Skúlason flutti til Berlínar fyrir rúmlega tveimur árum. Hann er hrifnæmur að upplagi og elskar að hafa fallegt í kringum sig. Fjögurra metra lofthæð og gömul viðargólf heilluðu hann en íbúðin sjálf er 123 fermetrar.

„Ég kom fyrst til Berlínar 1991 þegar ég var í námi í Sviss. Þetta var stuttu eftir fall Berlínarmúrsins og svo bjó ég hér á árunum 1995-1996. Ég heillaðist strax af borginni og hef komið hingað allar götur síðan.

Af persónulegum ástæðum ákvað ég breyta til og flytja hingað öðru sinni 2017 vegna þess að borgin hefur alltaf dregið mig að sér af svo má segja. Hér finn ég mín lífsgæði ef svo má að orði komast, sem svo oft er talað um. Berlín er svona New York Evrópu, frjálslynd, skapandi og sexí, svolítið villt borg sem og mikil menningar- og listaborg með mikla og dramatíska sögu sem dregur að svo ekki sé minnst á næturlíf borgarinnar. Berlín er hálfgerður suðupottur þar sem straumar og stefnur renna saman yfirleitt í mesta bróðerni,“ segir Þorvaldur.

Íbúðin er gömul með mikilli sál.
Íbúðin er gömul með mikilli sál.

Á dögunum stofnaði Þorvaldur ferðaþjónustufyrirtæki.

„Ég er reyndar nýlega búinn að stofna mig eigið ferðaleiðsögufyrirtæki hér, Berlin 101 Tours. „Ég býð upp á hjóla- og gönguferðir með leiðsögn bæði á íslensku og ensku. Hér koma rúmar 13 milljónir ferðamanna á ári og ég hafði verið að lóðsa bæði vini og vandamenn um borgina, gangandi og hjólandi síðustu tvö árin og þekki borgina mjög vel. Það er einstaklega gaman að gera það hjólandi í þessari flötu borg og elska að uppgötva einhverja nýja vinkla og byggingar, kaffihús eða matstaði. Eftir miklar vangaveltur hugsaði ég af hverju ekki að gera það að starfi? Svo ég lét hendur standa fram úr ermum og stofnaði formlega Berlin 101 Tours í ágúst,“ segir hann.

Heillandi heimur

Heimili Þorvaldar er öðruvísi en flest heimili. Listaverk, munir og smá kaótík mynda heillandi heild.

„Ég er hrifnæmur að eðlisfari og næmur á hluti og fólk og heimilið mitt hefur alltaf verið mitt svona „refuge“ eða athvarf þaðan sem ég geng út í hið dagsdaglega líf ef svo má að orði komast. Þar sem ég safna orku og kröftum, hugsa um lífið og tilveruna og því mikilvægt að mér líði sem best heima hjá mér. Þar með að hafa þá hluti sem gefa einhverja speglun á það sem ég er utan frá séð en er samt ekki ég endilega sem persóna. Heimilið er mitt „base“ og ætli húsgögnin og það sem í kringum mig er endurspegli ekki að einhverju leyti þá túlkun mína á mér og því sem ég hef sankað að mér síðustu tvo áratugina eða svo,“ segir hann.

– Þú ert mikill fagurkeri. Hvers vegna er það?

„Já, þakka þér fyrir það. Ó, ég veit ekki, ætli það sé ekki að einhverju leyti í mínu DNA ef svo mætti segja. Bæði hefur maður kannski eitthvað meðfætt sem og ég hef lært og tileinkað mér af öðrum en þó með mínu nefi. Þetta hefur verið í kringm mig alla tíð. Til dæmis var afi minn Þorvaldur í Síld og fiski mikill fagurkeri og listunnandi, mamma og pabbi voru það líka, en móðir mín er látin, og ég er alinn upp við listaverkin á Hótel Holti. Ferðast mikið um og skoða og tek inn, bæði hótel og veitingastaði og hönnun almennt. Þetta er kannski bara eitt form sköpunar í raun. Mest lærði ég þó eða þroskaði eigin smekk af Ingibjörgu Pálmadóttur, eiganda 101 Hótels, þegar við unnum saman að því,“ segir hann.

Fjögurra metra lofthæð

Þegar Þorvaldur er spurður að því hvers vegna hann hafi fallið fyrir íbúðinni segir hann að gólfin hafi spilað þar stórt hlutverk.

„Það var lofthæðin og upprunalegu tréplankagólfin. Lofthæðin er tæpir 4 metrar og þetta er svokallað „Altbau“ eða gömul bygging eins og það útleggst á íslensku en það er skilgreint hér sem bygging sem er byggð fyrir seinna stríð. Í mínu tilviki er þessi bygging frá 1886 með upprunalegu gólfunum og var nýuppgerð þegar ég skoðaði og flutti inn.“

– Varstu lengi að koma þér fyrir?

„Já, ég myndi segja það og ég á enn eitthvað eftir. Ég var til dæmis ekki búinn að hengja upp allar myndirnar fyrr en í sumar. Ég þarf alltaf svolítinn tíma til að anda inn í nýjan stað, máta og venja mig við að hafa þetta hér eða þennan stól eða borð þar. Og til að byrja með voru allar myndir á gólfinu úti um allt og ég að máta og breyta hingað og þangað. Svo þegar ég var viss um að þessi eða hin myndin ætti heima á sínum stað fór hún upp. En er enn að dytta að þessu og hinu og enn að finna réttu loftljósin. Ég man að ég fékk gest síðasta sumar og sá spurði; „hva, ertu ekki löngu fluttur?“ Ég svarði jú um hæl en viðkomandi hváði og spurði forviða hvers vegna myndin væri á gólfinu ennþá? Ég hló bara og er ekki viss um að hann hafi skilið neitt í mér þegar ég reyndi að útskýra það.“

20 ára samansafn

Húsgögnin sem prýða heimilið hefur Þorvaldur átt lengi og flutti hann þau með sér frá Íslandi.

„Ég flutt mestallt með mér enda hlutir sem ég hef sankað að mér síðustu tvo áratugina eða svo en í bland við nýja hluti kannski eins og mottur eða gardínur og margt smátt. Sumt átti ég fyrir en kom því ekki fyrir á Íslandi heldur var það í geymslu.“

– Hvar er þinn staður á heimilinu?

„Ég er mest við skrifborðið mitt í vinnu/borðstofunni þegar ég er heima. En minn uppáhaldsstaður og sá staður sem er mér heilagur er svefnherbergið. Það er óvenjustórt eða 32 fermetrar svo þar kæmist auðveldlega eitt trampólín fyrir en þar vil ég hafa góðan nætursvefn og slaka á. Svefnherbergi eru eitthvað sem oft verður út undan hjá fólki en sem gamall hótelmaður spái ég mikið í rúm, kodda, sængur og lín og vil hafa það besta sem völ er á sem og að það sé ekki einhver kústaskápur að stærð þótt þetta sé óvenjustórt.“

– Hvað finnst þér skipta mestu máli þegar heimili er annars vegar?

„Almennt séð, vellíðan. Það er hvernig þér og öðrum líður heima hjá þér. En svo er það spurningin hvernig þú kemst þangað. Fyrir mér er það lýsing og litaval á veggjum til dæmis. Hvernig þú raðar bæði húsgögnum, myndum og öðrum hlutum á heimilinu. En ég gæti haldið heilan fyrirlestur um það, svo kannski ég geymi hann þangað til seinna.“

– Hvað myndir þú aldrei vilja hafa inni hjá þér?

„Rafrænan hægindastól er stutta svarið.“

Þorvaldur vill hafa hjónaherbergið eins og hótelherbergi.
Þorvaldur vill hafa hjónaherbergið eins og hótelherbergi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál