Stefnir að því að verða meiri „bóhem“

Helga Björnsson leggur áherslu á að verða meiri bóhem en …
Helga Björnsson leggur áherslu á að verða meiri bóhem en hún er í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Björnsson fatahönnuður bjó um árabil í Frakklandi, þar sem hún starfaði sem yfirhönnuður hátískulínu Louis Feraud í París. Hún flutti til Íslands fyrir átta árum og býr í fallegri íbúð sem ber merki þess að Helga hefur búið víða um heiminn.

Helga Björnsson segist vera mikil Parísardama í eðli sínu þótt hún kunni einstaklega vel að meta að búa á Íslandi. Hún er sjálfstætt starfandi hönnuður með mörg járn í eldinum.

„Mér hefur alltaf liðið einstaklega vel í París. Dóttir mín var í námi í Skotlandi og langaði að prófa að byrja á Íslandi. Hún hafði lengi verið í burtu og þess vegna langaði mig að flytja til landsins til að vera nær henni.

Á þessum tíma hafði ég fest kaup á fallegri íbúð í miðborg Reykjavíkur, í hverfinu sem ég var alin upp í.“

Kristinn Magnússon

Eins og sönn Parísardama

Helga býr í fallegri þakíbúð í miðborginni með útsýni í allar áttir. Íbúðin ber þess merki að Helga er bæði frjáls í anda og listræn. Hún nýtir svalirnar eins og sönn Parísardama þar sem hún raðar saman blómum, útihúsgögnum og fleiri fallegum hlutum.

,,Ég var einungis þrettán ára að aldri þegar ég flutti til Bretlands og þaðan síðan til Frakklands. Faðir minn, Henrik Sv. Björnsson, var í utanríkisþjónustunni á þessum tíma og starfaði sem sendiherra víða. Móðir mín, Gígja Björnsson fiðlu- og píanóleikari, starfaði fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands lengi, en einnig sem gestafiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Oslóborgar og Washington. Í París, London og Brussel tók hún þátt í kammermúsik kvartetum með ýmsum vinum sem hún hafði kynnst í gegnum starf föður míns.

Ég ber mikinn hlýhug til foreldra minna, sem er án efa ástæðan fyrir því að flygillinn hennar mömmu stendur í miðri íbúðinni.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Blandar saman ólíkum stílum

Helga blandar saman alls konar hlutum á heimili sínu.

„Ég er ekki með neinn stíl, eða öllu heldur alla stíla. Ég myndi aldrei segja að inni á heimili mínu væri ein stefna enda er ég með marga hluti sem hafa ratað til mín í gegnum árin. Ég kaupi vanalega lítið inn í íbúðina en ef ég festi kaup á einhverju er það vanalega einföld og nútímaleg hönnun. Ástæðan fyrir því er sú að ef ég fengi mér fleiri tímabilshúsgögn myndi ég kafna inni í íbúðinni. Það sem mér þykir vænst um inni á heimilinu er flygillinn hennar mömmu. Ég er þakklát fyrir að hafa erft flygilinn. Hann skipar þannig sess í mínu lífi, að þótt ég væri í lítilli íbúð myndi ég taka hann með mér. Ég myndi þá bara búa í flyglinum, ef því væri að skipta því andi mömmu lifir svo mikið í hljóðfærinu. Þegar ég var stelpa spiluðum við saman á hljóðfæri; ég á flygilinn og hún á fiðluna.

Það er kannski ástæðan fyrir því að mér finnst ómissandi að spila fallega tónlist inni á heimilinu.“

Helga stundaði myndlistarnám, með sérgrein í fata- og búningahönnun frá Les Arts Decoratives í París. Sem yfirhönnuður innan hátískunnar sinnti hún alls konar krefjandi verkefnum. Hún átti m.a. þátt í hönnun á innanstokksmunum og fylgihlutum, auk hátískufatnaðar sem var vinsæll hverju sinni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirsætustörfin heilluðu aldrei

Helga var einnig beðin að sitja fyrir sem fyrirsæta. „Ég hef reyndar aldrei heillast af fyrirsætustörfum, en ég passaði í fötin og kunni að meta ferðalögin sem fyrirsætustörfunum fylgdu.

Minn staður hefur alltaf verið á bak við tjöldin. Að búa til eitthvað dásamlega fallegt fyrir aðra.“ Heimilið hennar minnir á leikhús enda hefur Helga í gegnum árin unnið fyrir leikhúsin í landinu. Sem dæmi vann hún búninga fyrir Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxness í leikgerð Benedikts Erlingssonar og talsvert fyrir Svein Einarsson á sínum tíma. Enda var það hann sem var sá fyrsti til að fá Helgu til að hanna búninga fyrir leikhúsið.

Hún er með góða aðstöðu í stofunni en segir að stundum leggi hún nánast alla íbúðina undir verkefnin sín.

„Það er eitthvað svo undursamlegt við að teikna og skapa. Eins finn ég að listin er eins konar ferli þar sem maður dregst í ólíkar áttir eftir tímbilum í lífínu. Í dag finnst mér dásamlegt að vinna alls konar verkefni. Ég er sem dæmi að hanna útlit og leikmynd með leikhúslistakonum í Þjóðleikhúskjallaranum. Sýningarnar verða í byrjun næsta árs. Þær heita Dansandi ljóð og Konur og krínalín.

Ég hef einnig gert púða, boli og málverk inn á Kattakaffihúsið sem dóttir mín og vinkona hennar eiga og reka. Að vakna og fá sér góðan kaffibolla og síðan setjast inn í stofu að byrja að teikna og skapa er lífsstíll sem mér finnst lúxus.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar vinnan leikur í höndunum

Helga er ein af þeim sem hafa aldrei getað hugsað sér að fórna starfi sínu fyrir eiginmann eða ástina.

„Ég starfaði í rúman áratug sem hönnuður fyrir Louis Feraud og hef í raun aldrei litið á það sem ég geri sem vinnu, því þetta leikur allt svo í höndunum á mér. Að starfa í þágu listarinnar heldur í mér lífi. Það er eitthvað við falleg efni og vönduð snið sem erfitt er að festa í orð.“

Helga lýsir hönnunarferlinu sem eins konar þörf fyrir að skapa. Hún segir að það sé eins og tíminn stoppi þegar hún er að teikna og skapa, þegar hún situr með efni í fanginu fyrir framan gínuna og byrjar að „drappera“ efni þannig að það myndi sem dæmi kjól.

,,Síðan finnst mér aldrei nógu mikið talað um þá töfra sem gerast á góðum saumastofum. Þegar hönnuður vinnur með færum klæðskerum. Í París unnum við með einstöku fólki sem umbreytti góðum hugmyndum í listaverk. Stundum þurfti að laga og breyta og stundum urðu hlutirnir ekki eins og þeir voru hugsaðir í byrjun. En það er eitthvað við samvinnu skapandi einstaklinga sem heillar mig. Það hefur alltaf verið lúxus í lífinu mínu að geta tileinkað mér svona mikið þessu starfi. Sem hefði kannski ekki verið hægt með stóru heimili.“

Hvað með ástina?

„Ég upplifi ástina í svo mörgu. Ekki endilega tengda einstaklingum þó það sé þannig mjög oft.

En það getur líka verið vinnan, að skapa, náttúran og svo margt.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Færir til húsgögn eftir árstíðum

Helga býr til lítil altari víða um íbúðina þar sem skapast ákveðin stemning með mat, hönnunarvöru eða blómum.

„Ég er mikið að færa til húsgögn, endurraða og breyta. Enda finnst mér að heimilið eigi að taka breytingum eftir því hvað er fyrir stafni hjá okkur hverju sinni.“

Það er mikil gleði og orka í Helgu. Hún er vinmörg og félagslynd og kann að meta margt af því sem Ísland hefur upp á að bjóða.

„Mér finnst íslenskt samfélag heillandi og jákvætt. Frelsi kvenna til að athafna sig er mikið og síðan höfum við öll leyfi til að vera listamenn í eigin lífi, sem er forréttindi að mínu mati. Flestar vinkonur mínar í dag eru hér heima og ég tengist þeim sterkum tryggðaböndum sem ná allt aftur í æsku.

Ég verð þó að viðurkenna að stundum sakna ég þess að skottast út á götu í París, gleyma mér í verslunum með dýrindis efnum og fágætum hlutum. Þar sem maður getur gengið um heilan dag án þess að hitta einhvern sem maður þekkir. Það er hvergi í heiminum hægt að kaupa fallegri efni en einmitt í París og kannski mætti úrval fyrir Íslendinga á þessu sviði vera meira. En ég hef þá alltaf ástæðu til að fara til Parísar. Bæði býr systir mín þar og hluti af fjölskyldunni.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar gamlir hlutir hætta að passa

Það sem gerir íbúðina hennar Helgu svo heillandi er afslappað og skapandi umhverfi.

„Íbúðin er í eins konar baðstofustíl, þar sem opið er á milli eldhúss og stofu. Einn vinur minn benti mér á að ég væri eins og sjóræningi, þar sem hann segir að ég safni hlutum alls staðar að úr heiminum. Ég stefni að því að draga eitthvað af Parísar bóhem stílnum aftur heim. Ég er frjáls í anda og listin skiftir mig miklu máli. Ég er uppfull af hugmyndum sem ráðast á mig helst á nóttunni og vantar bara tækifæri til að koma sumum af þeim á framfæri,“ segir Helga og brosir.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál