Að mála einn vegg í lit er dottið upp fyrir

Sara Dögg Guðjónsdóttir innanhússhönnuður.
Sara Dögg Guðjónsdóttir innanhússhönnuður. Ljósmynd/Aðsend

Innanhússhönnuðurinn Sara Dögg Guðjónsdóttir er sérlega fær þegar kemur að litavali inn á heimilið. Hún segir að litapallettan sé að breytast mikið og nefnir að þessi kaldi grái tónn sem hefur verið svo vinsæll á heimilum landsmanna sé að víkja fyrir hlýrri tónum. Sara Dögg er með litaráðgjöf í Slippfélaginu í tilefni af litadögum en svo er hún líka önnum kafin í sínum eigin verkefnum. 

„Ég hef verið að taka að mér innanhússráðgjöf þar sem ég mæti á svæðið með fullt af hugmyndum og fróðleik. Ég er mjög fljót að fá tilfinningu fyrir rýminu og sjá bestu lausnirnar fyrir það. Mitt mynstur er að vera praktísk og úrræðagóð, sem og gefa hugmyndir að fallegum lausnum sem fanga augað. Það er rosalega margt sem hægt er að fá út úr einni klukkustund, upp í tvær. Bara það að fá önnur augu getur hjálpað helling. Ég hef verið að mublera upp sýningaríbúðir, teikna og hanna eldhús- og baðinnréttingar. Svo eru það stærri verkefni sem eru alltaf á teikniborðinu þar sem ég endurhanna heilu heimilin. Það eru alltaf mjög skemmtileg verkefni, þar færðu aðeins að krukka í beinagrind hússins, strípa það niður, fylgja uppbyggingunni eftir og hanna nýtt andrúmsloft fyrir eigendur,“ segir Sara Dögg. 

Hvernig er litapalletta vetrarins?

„Það má segja að hún sé mjög haustleg og muskuð. Djúpir rauðbrúnir leirlitir, hlýir grágrænir litir sem eru að taka við af klassískum gráum, brúnbleikir „nude“ tónar eru einnig að koma sterkir inn. Kaldir tónar víkja fyrir þeim hlýju. Hinn heiðarlegi, íslenski og kaldi grái tónn sem er búinn að vera ríkjandi lengi á veggjum landsins er fá sér sæti á bekknum og inn á kemur hlýlegur grár tónn með slatta af gulu eða grænu, litur sem breytir sér ekki þegar birtustigið er hátt hjá okkur. Þessi kaldi grái átti það til að breyta sér svolítið og verða frekar lillaður og bláleitur á góðum sólardögum. Þess vegna er mjög mikið atriði að sletta upp prufum á nokkrum stöðum í rýminu, bæði þar sem er gott birtuflæði og svo lítið sem ekkert,“ segir hún. 

Finnst þér fólk vera eitthvað að skipta um gír þegar kemur að málningu?

„Já, að nokkru leyti. Málning í mattara lagi er orðin vinsælli, liturinn verður einfaldlega dýpri eftir því sem gljástigið er minna. Það að taka bara einn vegg fyrir og mála í lit er svolítið dottið upp fyrir. Núna eru allir veggir og jafnvel allt alrýmið tekið fyrir og loftin líka. Fyrir nokkrum árum var það bara algjört no-no og þannig var óskrifuð regla að loftin ættu bara að vera hvít og alltaf farið eftir því möglunarlaust.“

Er matt eða glansandi málið í lakki?

„Það fer eftir því hvað verið er að lakka. Ofnar, húsgögn og innréttingar mega vera í mattara lagi. Gluggakistur og innihurðir mættu bæta á sig nokkrum gljástigum.“

Hvaða trixi mælir þú með sem getur gjörbreytt heimilinu á ódýran og góðan hátt?

„Málning, alltaf! Hún getur gert ótrúlegustu hluti. Að mála loftin er extra bónus í upplyftingu, rýmið bókstaflega tekur utan um þig. Mjúk lýsing er vanmetin, þessi hlýja skrautlýsing frá lömpum er ekkert síðri en kertaljós. Annað sem má ekki vanmeta er máttur mottunnar. Hún ýtir undir hlýleikann sem við erum alltaf að elta og einfaldlega gerir heimili að heimili,“ segir Sara Dögg. 

Hver er þinn uppáhaldslitur akkúrat núna?

„Ég er alveg svakalega hrifin af þessum djúpu grágrænu tónum og para þá saman með hlýrri ljósari tónum. Dekkri dökkgráir litir, pínu út í „petrol“-blátt, heilla líka fyrir smærri rými. Svo er það eitthvað við þennan Kim Kardashian „nude“-lit sem fangar mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál