Íbúðarkaupin kenndu þeim að spara

Sigurjón Kári Sigurjónsson og Sóley Ósk Erlingsdóttir.
Sigurjón Kári Sigurjónsson og Sóley Ósk Erlingsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Parið Sigurjón Kári Sigurjónsson og Sóley Ósk Erlingsdóttir er að koma sér fyrir í sinni fyrstu íbúð. Þau náðu að safna fyrir útborgun með því að búa lengur í foreldrahúsum, lifa spart og leigja íbúðina út í ár eftir að þau keyptu hana. Hér segja þau frá fleiri ráðum sem hjálpuðu þeim við að koma undir sig fótunum.

Við hefðum aldrei getað keypt þessa íbúð nema vegna þess að við fengum tækifæri á að búa lengur heima hjá tengdamömmu sem hvatti okkur til þess að spara fyrir íbúð. Ég verð henni ævinlega þakklátur fyrir það,“ segir Sigurjón Kári aðspurður hvernig hann og kærastan Sóley Ósk náðu að kaupa sér sína eigin íbúð árið 2018, þá 23 og 24 ára gömul.

„Við erum hvorugt háskólagengin heldur fórum beint að vinna eftir framhaldsskólann. Við vorum óákveðin varðandi það í hvaða nám við vildum fara og í stað þess að velja bara eitthvað fórum við frekar að vinna,“ segir Sóley. Hún ítrekar að ef þau hefðu farið beint í háskólanám eins og margir jafnaldrar þeirra hefðu þau ekki náð að safna fyrir íbúðinni, hvað þá ef þau hefðu þurft að vera á leigumarkaðinum samhliða námi.

Notuðu séreignarsparnaðinn

Sóley og Sigurjón Kári höfðu verið par í sex ár þegar þau festu kaup á íbúðinni sem er á efstu hæð í blokk í Túnahverfinu í Kópavogi. Eftir framhaldsskólann segjast þau hafa boðist til þess að borga heim þar sem þau bjuggu hjá móður Sóleyjar en hún hafi frekar viljað að þau nýttu peningana sem þau hefðu annars greitt henni upp í íbúð. „Við unnum mikið og lögðum fyrir. Á tímabili vorum við í mörgum vinnum. Við lifðum spart og drógum úr alls konar neyslu. Við erum til dæmis bara á einum bíl. Ég átti smá pening á lokaðri bók frá því ég var barn og svo gátum við tekið nærri milljón út úr séreignarsparnaðinum sem við settum upp í íbúðina. Það hjálpaði líka til að íbúðin sem við keyptum var ekki mjög dýr,“ segir Sóley.

Keyptu og settu í leigu

„Í upphafi vorum við ekki spennt fyrir því að kaupa íbúð sem þurfti að gera mikið fyrir og vorum því alltaf að skoða nýjar eignir. Ljótu íbúðirnar heilluðu okkur einfaldega ekki,“ segir Sigurjón Kári og hlær. „Nýju fínu íbúðirnar voru hins vegar allt of dýrar og fóru fljótt. Við áttum engan séns þar.“ Síðan kom íbúðin í Túnunum á sölu. Parið fór á opið hús og voru þau ein mætt ásamt einu öðru pari enda voru myndirnar af íbúðinni á netinu, að sögn Sigurjóns Kára, ógeðslega ljótar. „Skipulagið á íbúðinni var gott og verðið viðráðanlegt. Ekki spillti heldur útsýnið fyrir en af svölunum sést í Perluna, yfir Fossvoginn og út á sjó. Við urðum sammála um það að kaupa íbúðina, þrátt fyrir að við hefðum upphaflega séð fyrir okkur að kaupa stærri og fínni íbúð. Við áttuðum okkur á því að það væri skynsamlegra að kaupa minni íbúð með lægri afborgunum.“ Parið keypti íbúðina, málaði hana og setti í leigu í eitt ár. „Á þessu ári héldum við áfram að lifa spart og náðum þannig að greiða upp viðbótarlánið sem við tókum fyrir kaupunum. Núna erum við því bara með hefðbundið húsnæðislán á íbúðinni,“ segir Sigurjón Kári ánægður enda er afborgunin af láninu mun lægri en ef þau væru að leigja sambærilega íbúð. Auk þess hefur íbúðin nú þegar hækkað töluvert í verði.

Magnafsláttur og tilboðsdagar

Árið sem þau leigðu íbúðina út nýttu þau til þess að undirbúa flutningana. „Ég viðurkenni að ég er algjör afsláttarperri,“ segir Sóley og hlær en mikið af húsgögnunum og húsbúnaðinum keyptu þau á útsölum og afsláttardögum. „Sófann keyptum við til dæmis í Ilvu löngu áður en við fluttum hingað inn, hann var bara geymdur í geymslunni. Heimilistækin keyptum við síðan öll á sama stað og fengum magnafslátt. Við fengum líka tilboð í gardínurnar og tókum hagstæðasta tilboðinu sem var frá Sólargluggatjöldum.“ Sigurjón Kári og Sóley unnu á tímabili bæði sem flugþjónar hjá Wowair og segist Sóley líka hafa nýtt tækifærið og keypt smáhluti í eldhúsið erlendis á góðu verði. „Stíllinn hjá okkur er blandaður. Við erum með nokkra hluti í láni frá ættingjum og blöndum saman gömlu og nýju.“

Geymslan framlenging af forstofunni

Þegar loksins kom að því að flytja inn í íbúðina tók við þó nokkur vinna innandyra. „Við erum búin að eyða rúmlega tveimur milljónum í betrumbætur á íbúðinni. Við skiptum um innréttingu inni á baði og blöndunartæki en héldum öðrum tækjum og flísum. Eins tókum við eldhúsið alveg í gegn og parketlögðum íbúðina. Síðan skiptum við líka um innihurðir og settum nýja innréttingu í þvottahúsið. Við ákváðum að halda fataskápunum en skiptum um höldur. Eins var dregið í nýtt rafmagn, “ segir Sigurjón Kári. Þau reyndu að gera sem mest sjálf, virkjuðu vini og kunningja en þurftu líka að greiða iðnaðarmönnum. „Eldhúsið auglýsti ég á netinu og það kom einhver og hirti það sem var mjög þægilegt að þurfa ekki að standa í því að koma því niður af fjórðu hæð heldur geta bara haldið áfram að vinna.“

Íbúðin er 54 fm að stærð með einu svefnherbergi. Sóley viðurkennir að hún hefði stundum viljað hafa meira geymslupláss. „Við þurftum að grisja alveg helling þegar við fluttum en þá áttuðum við okkur á því að við áttum allt of mikið af alls konar dóti. Íbúðin er ekki stór svo það má ekki vera of mikið dót hérna.“ Það sem hefur bjargað þeim er geymslan í kjallaranum sem þau hafa nýtt sem framhald af forstofunni. „Við erum með kommóðu í geymslunni fyrir útiföt og skó. Það er gott að vita af henni þar í stað þess að þurfa að hafa allt hér uppi.“

Hættu að kaupa skyndibita

Af framansögðu virðast íbúðarkaupin ekki hafa verið mikið mál hjá unga parinu og því eðlilegt að spyrja hvort það sé kannski ekkert mál fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð. „Nei, það er mjög erfitt fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum. Það er eiginlega ekki hægt að spara fyrir íbúð samhliða því að vera á leigumarkaðinum. Við hefðum ekki getað þetta nema af því að við vorum í fullri vinnu og meira en það, auk þess sem við höfðum þennan stuðning frá mömmu minni,“ segir Sóley en bætir jafnfram við að ungt fólk geti samt vissulega sparað meira. „Þetta ferli hefur sannarlega kennt okkur að spara og það er nokkuð sem við munum taka áfram með okkur.“ Þau nefna sem dæmi að þegar þau fóru meðvitað að safna fyrir íbúðinni sögðust þau alveg hafa tekið skyndibitamat út. „Ungt fólk eyðir oft allt að 5.000 krónum í tilbúinn mat á dag og það eru upphæðir sem munar um. Við hættum alveg að kaupa skyndibitamat og fórum að elda meira heima og taka með okkur nesti í vinnuna. Það munaði heilmikið um það í stað þess að fara alltaf út að borða í hádeginu eða á kvöldin.“

Og þótt íbúðin sé nú orðin þeirra og þau að verða búin að koma sér vel fyrir eru þau ekki hætt að spara né taka að sér aukavinnu. „Planið er að safna fyrir annarri stærri íbúð en jafnframt eiga þessa íbúð áfram og setja hana í útleigu. Við sjáum fyrir okkur að við stækkum við okkur í litlum skrefum. Næst flytjum við í þriggja herbergja íbúð og svo koll af kolli,“ segir Sigurjón Kári og Sóley tekur undir það. „Þótt það sé þröngt hérna þá er alveg hægt að vera með barn hérna, barnið þarf ekkert sérherbergi strax. Það er hægt að gera þetta skynsamlega.“

Sjá síðu 10.

Sex góð ráð til fyrstu kaupenda frá Sóleyju og Sigurjóni Kára

1. Vertu sem lengst í foreldrahúsum ef það stendur til boða og

leggðu pening til hliðar fyrir útborgun í íbúð.

2. Greiddu í séreignarsparnað og notaðu hann við kaupin.

3. Sparaðu við þig. Hættu að kaupa skyndibita og annan óþarfa.

4. Taktu aukavaktir og/eða fáðu þér aukavinnu.

5. Keyptu minni eign og stækkaðu við þig í litlum skrefum.

Einhvers staðar þarf að byrja.

6. Reyndu að gera sem mest sjálf/ur í tengslum við

framkvæmdir á húsnæðinu.

Þau útbjuggu ljósið sjálf.
Þau útbjuggu ljósið sjálf. mbl.is/Árni Sæberg
Þau fengu barinn gefins.
Þau fengu barinn gefins. mbl.is/Árni Sæberg
Innréttingin á baðherberginu kemur frá IKEA og líka speglaskápurinn fyrir …
Innréttingin á baðherberginu kemur frá IKEA og líka speglaskápurinn fyrir ofan. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál