Steinunn saknar ekki 101 Reykjavík

Steinunn Ósk Brynjarsdóttir elskar að búa í Hafnarfirði.
Steinunn Ósk Brynjarsdóttir elskar að búa í Hafnarfirði. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Steinunn býr ásamt eiginmanni sínum, Birgi Ármannssyni rafvirkja, og einkasyninum Tómasi Erni á annarri hæð í sætu steinhúsi við Hringbraut í Hafnarfirði. Þau keyptu fyrir um þremur árum og byrjuðu strax á því að taka þetta helsta í gegn; baðherbergi, eldhús og stofu, en lítið hafði verið gert fyrir íbúðina frá því húsið var byggt árið 1946. 

Tengdaforeldrar hennar gera mikið grín að smekk hennar á skrautmunum en stjörnuklipparinn Steinunn Ósk Brynjarsdóttir tekur það ekkert inn á sig. „Ég var alltaf með æði fyrir hauskúpum en nú hefur áhuginn færst eitthvað yfir á dúkkuhausa. Ég veit ekki alveg hvað þetta er en tengdaforeldrar mínir þreytast ekki á að gera grín að mér,“ segir hún og kímir.

Þeir Birgir og tengdafaðir Steinunnar sáu alfarið um verkið og umbreytingin er einkar vel heppnuð enda stílistinn Steinunn bæði vandvirk og mikil smekkmanneskja sem hefur meðal annars sýnt sig í farsælu starfi hennar sem klippari. Þótt hún geri ekki mikið úr því sjálf hefur orðspor Steinunnar dregið fræga listamenn á borð við Björk og meðlimi Hjaltalín í stólinn til hennar, svo ekki sé minnst á félagana í Of Monsters and Men sem fylltu nýlega eldhúsið hjá henni í stresskasti fyrir tónleikaferð, enda ekki við hæfi að halda stórtónleika án þess að hafa farið í klippingu.

„Ég fékk símtal seinnipartinn á föstudegi og hafði því engan tíma til að taka á móti öllum á stofunni. Þau komu til mín klukkan níu næsta morgun og sátu hér við eldhúsborðið meðan þau fengu klippingu og kaffi og léku við Tómas Örn á stofugólfinu. Allt mjög heimilislegt,“ segir Steinunn og hlær.

Gengur í vinnuna og gefur 20% afslátt

Fyrir stuttu færði Steinunn vinnustað sinn frá Senter í gamla miðbæ Reykjavíkur yfir á Skuggafall, sem er ný hárgreiðslustofa, í eigu Eyrúnar Guðmundsdóttur, við smábátahöfnina í Hafnarfirði en þar er lögð mikil áhersla á umhverfisvernd. Til dæmis fá viðskiptavinir sem koma hjólandi, gangandi eða með strætó 20% afslátt af klippingu á mánudögum svo eitthvað sé nefnt.

„Það er bara núna fyrst sem mér finnst tilefni til að vinna hérna í Hafnarfirði enda hefur bærinn verið á svo mikilli uppleið síðustu ár,“ segir Steinunn, sem hefur í gegnum tíðina búið í miðbænum en í fimm ár bjó hún í Köben sem hún segist alltaf sakna.

„Hér áður gat maður hitt fólk á tveimur stöðum í Hafnarfirði; A. Hansen og Fjörukránni, en núna er allt fullt af flottum stöðum hérna, bæði veitingahúsum og verslunum, og menningarlífið orðið fjölskrúðugt og skemmtilegt. Mér finnst líka frábært að geta bara rölt hérna niður götuna í vinnuna og fengið um leið hreyfingu og ferskt loft í stað þess að sitja föst og frústreruð á morgnana í umferðinni á leiðinni niður í bæ.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »