Eldhústískan mun gjörbreytast næsta áratuginn

Hvernig á eldhústískan eftir að breytast næsta áratuginn.
Hvernig á eldhústískan eftir að breytast næsta áratuginn. mbl.is/Thinkstockphotos

Nýju ári og nýjum áratug fylgja nýir tískustraumar. Nokkrir sérfræðingar í innanhússhönnun spáðu í spilin fyrir næsta áratuginn á vef MyDomaine en nýr kafli í innanhússhönnun hefst þegar nýr áratugur gengur í garð í janúar.

Hið fullkomna eldhús á áratugnum sem er að líða var stórt og opið með flottri eyju í miðjunni. Skemmtilegar flísar eins og lestarstöðvaflísar voru vinsælar á veggjum auk þess sem granít og marmari voru vinsælar tegundir. Hvað mun breytast?

Snjalleldhús

Snjalleldhús er aðalmálið næsta áratuginn. Hönnuður spáir því að borðplata framtíðarinnar verði tæknivædd. Ímyndaðu þér eldhús þar sem ísskápurinn getur talað við þig. 

Nútímalegt

Nútímaleg fagurfræði verður allsráðandi. Innanhússhönnuður segir fólki að hugsa um hreinar línur og einfaldleika. 

Terracotta-flísar

Brúnu flísarnar eru sagðar munu koma sterkar inn í eldhúsum næsta áratuginn. Í stað þess að leggja þær eins í gömlum eldhúsum á Ítalíu verða þær lagðar á nýmóðins hátt, til dæmis í ætt við síldarbeinsmynstur. 

Minna pláss

Stór eldhús hafa verið vinsæl en næsta áratuginn verður meira um minni eldhús. Yngri kynslóðir vilja frekar minni heimili og verða því minni eldhús þar sem hugsað er út í að nýta hvern krók og kima vinsælli næsta áratuginn. 

Eldhúsin verða lokaðri af.
Eldhúsin verða lokaðri af. mbl.is/Thinkstockphotos

Lokuð að hluta til

Opin eldhús hafa verið aðalmálið síðustu ár. Hönnuður heldur því þó fram að eldhús verði aðeins lokaðri en þau hafa verið síðustu ár. Þau munu ekki lokast alveg af en ákveðinn aðskilnaður á milli eldhúss og stofu mun þó eiga sér stað.

Glerskápar í anda lyfjaskápa

Glerskápar í anda gamalla lyfjaskápa hafa verið vinsælir á baðherbergjum en eru nú að koma heitir inn í eldhús ef marka má sérfræðinga. 

Hlýlegri litatónar

Litir hafa verið vinsælir undanfarin misseri en ef horft er aftur síðustu tíu árin er ljóst að hvítt hefur haft vinninginn. Hvítt mun ekki detta úr tísku en fólk mun í auknum mæli sækjast eftir hlýlegri litatónum í og við eldhúsið. 

Hvítar innréttingar hafa verið vinsælar.
Hvítar innréttingar hafa verið vinsælar. mbl.is/Thinkstockphotos
mbl.is