„Fallegasta jólaskrautið er úti í náttúrunni“

Rebekka A. Ingimundardóttir leggur fallega á borð.
Rebekka A. Ingimundardóttir leggur fallega á borð. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Rebekka A. Ingimundardóttir mælir með því að fólk fari út í náttúruna og finni sér þar fallegt jólaskraut. Það ákveði síðan hvaða lit það ætlar að hafa í forgrunni þessi jólin. Hún starfar sem sviðshöfundur hérlendis sem og erlendis ásamt því að hanna leikmyndir og búninga fyrir leikhús og kvikmyndir. Hún starfar einnig sem markþjálfi og sér um persónulega ráðgjöf fyrir breytingar og endurbætur á heimilum.

Sjálf býr hún í fallegri íbúð á besta stað í miðborginni ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Guðmundssyni. Hún hefur komið víða við fyrir jólin þegar kemur að skreytingum og hefur nú stofnað viðburðar- og ráðgjafarfyrirtæki með Agnesi Kristjónsdóttur, VoR Austmann & Agnes. Rebekka er á fullu að setja upp jólin víða um bæinn fyrir fyrirtæki og einstaklinga en gefur sér þó tíma til að velta fyrir sér inntaki jólanna.

„Fyrir mér tákna jólin eins konar einingu; gleði og friðsæld. Þá gefst tími til að staldra við, þakka og hugleiða mikilvægi fjölskyldunnar, vandamanna og umhverfisins í heild sinni.“

Eins og sést á myndunum er Rebekka afar fær í að leggja fallega á borð. Hún segir mikilvægt að skoða fyrst hvaða jólaskraut er til á heimilinu og síðan að finna út hvaða litir heilla fyrir árið.

„Ég mæli síðan með því að styðjast við uppraðanir frá öðrum og vinna sig síðan út frá því.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem eru alltaf með eins jólaborð en langar að gera eitthvað nýtt?

„Ég hvet alla til að prófa sig áfram með nýja liti. Að prófa að setja saman upp á nýtt það sem nú þegar er til staðar á heimilinu, oft er nóg að skipta út kertum og/eða kertastjökum. Ég mæli með að sleppa pappírsservíettum og hafa tauservíettur, sem þá er líka hægt að nota allan ársins hring.“

Rebekka notar sem dæmi ísbirni sem borðskraut og fá þeir nýtt hlutverk fyrir jólin þegar kemur að borðskrauti.

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Liturinn í skreytingunum skiptir miklu máli

Sjálf byrjar Rebekka á því að hugsa hvaða liti hana langar að draga fram í borðhaldinu. „Ef það er vínrautt er það liturinn sem ég set í alla kertastjaka í borðstofunni og stofunni.“

Sem leikmyndahönnuður segir Rebekka skreytingar hluta af vinnuferlinu. „En að skreyta fyrir heimili mitt og annarra er nokkuð sem ég hef fengist við í tvo áratugi. Ég hef gert töluvert af því að fara inn á heimili og bæði koma með hugmyndir að breytingum og eins taka að mér verkið. Það getur verið allt frá því að breyta um lit á veggjum, hanna stofu upp á nýtt og gefa húsgögnum nýtt útlit yfir í að taka allt heimilið í gegn. Ég er mikill fagurkeri og hef gaman af að skapa töfra og gera breytingar.“

Hvernig kviknaði þessi áhugi?

„Ætli ég hafi ekki erft fegurðarskyn mitt og fagurfræði frá mömmu minni Elínborgu Guðmundsdóttur. Hún er listamaður og mikil smekkmanneskja með ofurnæmt auga fyrir einstakri og fallegri hönnun. Ég er alin upp á framúrstefnulegu heimili, við fallega húsmuni og skrautmuni. Húsið sem ég ólst upp í var ólíkt öðrum húsum og heimilum enda hannað eftir hugmyndum mömmu. Eldhúsið, borðstofan og stofan var til dæmis opið rými, sem var alls ekki algengt á þeim tíma og vakti athygli gesta.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Finnur ýmislegt úti í náttúrunni

Þegar kemur að fallegasta jólaskrautinu segir Rebekka það vera fyrst og fremst úti í náttúrunni. „Þar finn ég bæði greinar, steina og köngla. Ég tíni köngla á haustin, þvæ þá og baka svo í bakarofninum.

Ég bjó aðventukransinn minn til úr þannig könglum fyrir einum tíu árum og nota hann enn í dag. Ég málaði könglana þá í glaðlegum skemmtilegum litum, reyndar í uppáhaldslitum mannsins míns.“

Fallegasta jólaskraut hennar er Betlehem-fjárhús frá árinu 1975. „Vinur minn fann það í antíkverslun í Amsterdam. Hann vissi að ég myndi kunna að meta fjárhúsið. Síðan held ég upp á litla gervijólatréð sem Elínborg mamma keypti fyrir rúmum 60 árum. Hún litaði það silfrað og passaði vel upp á það. Ég set jólatréð upp hver jól.

Síðan held ég upp á jólakirkjuna með ljósi og spiladós sem tengdafaðir minn gaf mér. Hana fann hann einnig á nytjamarkaði. Hér áður fyrr prýddu þessar kirkjur mörg íslensk heimili.“

Rebekka kaupir jólaskraut bæði hérlendis og erlendis.

„Ég man að ég keypti til dæmis fallegt gamalt hvítt gervijólatré í antíkverslun í Maastricht í Hollandi og nota það enn. Bróðir minn átti undur fallegt „popup“-pappajólahús. Ég gat setið löngum stundum fyrir framan það, búið til sögur og týnt mér í því sem ég sá þar. Þegar ég síðan bjó í Prag var ég á gangi í miðbænum og leit inn um búðarglugga og viti menn; þá var þar nákvæmlega sama hús og hefur það fylgt mér æ síðan.

Ef ég er að leita mér að nýju efni til skreytinga er ég með nokkrar fallegar en ólíkar búðir sem ég fer alltaf í. Þetta eru Fakó, Heimili & Hugmyndir, Dimm og Snúran. Rúmfatalagerinn kemur líka sterkt inn, þá aðallega þegar ég er að vinna að verkefnum. Ég hef einnig fundið fallegt jólaskraut í ýmsum stórmörkuðum.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Finnur oft gamalt jólaskraut

Kaupir þú ennþá notaða hluti?

„Já, það geri ég alltaf, bæði fyrir mig persónulega og í verkefnin sem ég er að gera. Ég finn oft gamalt jólaskraut og jólastyttur á nytjamörkuðum. Þegar heim er komið mála ég þær eða laga þær til svo þær fái tækifæri að skína á ný.“

Er skraut að þínu mati umhverfisvænt? Hvernig er hægt að hugsa þessa hluti til frambúðar?

„Aðalverkefni skrautmuna er að skreyta en margir skrautmunir hafa líka notagildi. Með því að sjá út notagildið og nota það sem maður á getur maður dregið úr umhverfissporunum. Einnig að passa sig á að velja skraut sem ekki eru búnir til úr plasti, frauði og efnum sem innihalda eitur og eiturgufur. Ég mæli með að fólki velji sér færri hluti en vandaðri. Svo má alltaf skiptast á jólaskrauti við fjölskyldu og vini. Ég mæli með jólaskiptikvöldi, þar sem hlustað er á jólalög og smákökur eru bakaðar. Það má alltaf skiptast á kökusortum líka.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hefur sett um jólin víða

Nú hefur þú gert mikið af leikmyndum fyrir jólatónleika, hvað hefur þú í huga þegar þú hannar þær?

„Fyrst hugleiði ég hvaða jólastemning passar við hvaða tónlistarflutning fyrir sig. Fyrir sviðsmyndir Frostrósa í Laugardalshöll og Hörpu notaðist ég alltaf við lifandi jólatré sem fengu eftir tónleika að prýða heimili. Umgjörðin var mikilfengleg og oft töfrum líkust.

Í Hörpu var smíðaður 11 metra hár foss sem opnaðist og lokaðist. Innblásturinn að þeim leikmyndum kom úr Heiðmörk að vetri til þegar snjórinn tindraði sem töfrar að kvöldlagi. Einnig notaði ég mikið af klipptum greinum frá Skógræktinni ef þau höfðu verið að grisja, og þá aðallega birkigreinar sem við máluðum hvítar. Þær fengu líka ný heimili yfir hátíðarnar og prýða nokkrar þeirra enn heimili í dag. Fyrir Siggu Beinteins notaði ég skóg af gervijólatrjám og bleikar jólakúlur. Ásamt því að á hverju ári var ég með ólík þema á framsviðinu sem tengdust þó alltaf nostalgíu jólanna. Í fyrra skreytti ég sviðið fyrir Eyþór Inga og Jóhönnu Guðrúnu, þar sem við sammæltumst um að nota vínrauða liti. Þar voru einnig lifandi jólatré sem fengu ný heimili um jólin. Það jólaskraut sem ekki á að nota aftur er svo ávallt gefið til góðgerðasamtaka,“ segir Rebekka.

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »