Íslendingur á eitt best skreytta heimilið í Noregi

Sandra Sigurjónsdóttir er 33 ára og ættuð úr Vestmannaeyjum. Hún flutti til Noregs fyrir fimm árum en kærasti hennar er norskur. Saman eiga þau þrjú börn og hafa búið sér einstaklega fallegt heimili í Sykkylven. Sandra er lærð hárgreiðslukona og rekur hún hárgreiðslustofu og hönnunarbúð, GF Frisør + Interior, í sama bæ. 

„Við fluttum til Noregs fyrir 5 árum. Fyrir rúmum 3 árum síðan tókum við yfir óðalsetrið í Sykkylven,“ segir Sandra. 

Heimili Söndru er afar smekklega innréttað. Svartir og hvítir litir eru áberandi og notaðir á fallegan hátt án þess að verða kuldalegt. Og nú er heimilið komið í jólafötin enda er Sandra búin að skreyta hátt og lágt. 

Þegar Sandra er spurð að því hvort hún sé mikið jólabarn getur hún ekki neitað því. 

„Það er óhætt að segja að ég sé mikið jólabarn. Ég elska jólin,“ segir hún. 

Leggur þú mikið upp úr því að það sé fallega skreytt á heimilinu?

„Mér finnst mjög skemmtilegt að dúllast við skreytingar og punt. En ég er ekkert endilega að skreyta neitt rosalega mikið. Hef alltaf verið mjög hrifin af stílhreinum skreytingum,“ segir hún. 

Þegar Sandra flutti til Noregs fyrir fimm árum skildi hún allt jóladótið eftir á Íslandi. Hún hefur því þurft að koma sér upp nýju skrauti. 

„Flest skrautið mitt er frá House Doctor, Coming home og Kremerhuset. Svo á ég auðvitað helling frá bæði IKEA og Rúmfó. Gaman að geta blandað saman.“

Sandra hefur vanið sig á það að byrja að skreyta fyrsta sunnudag í aðventu. 

„Þá er allt leyfilegt með jólatónlist og jólaskreytingar að mínu mati. Ég elska gamlar hefðir og hef ég lengi farið eftir þeirri hefð að ekki ætti að skreyta jólatréð fyrr en á Þorláksmessu. Í ár keypti ég mér mitt fyrsta gervijólatré. Bæði ég og krakkarnir vorum svo spennt að setja það upp að við ákveðum að slá til og skreyta tréð snemma í ár. Sé alls ekki eftir því.“

Hvað drífur þig áfram í jólaskreytingunum?

„Þegar allt fína og fallega jóladótið kemur í búðirnar fær maður svo mikinn innblástur, ég sæki sem oftast í innblástur frá Instagram, Pinterest og hönnunarblöðum.“ 

Eru jólin öðruvísi í Noregi en á Íslandi?

„Jólin eru frekar svipuð hérna og heima. Þau reyndar borða soðið súpukjöt og pylsur á aðfangadag. Eitthvað sem ég þurfti að venjast. Við skiptumst á annað hvert ár að hafa norskan jólamat og íslenska hamborgarhrygginn heima hjá okkur. Mér þykir vænt um hefðina um íslensku jólasveinana og fá börnin mín í skóinn frá öllum 13 íslensku jólasveinunum. Hér í Noregi er ekki gefið í skóinn heldur fá þau pakkadagatal. Annars eru Noregur og Ísland frekar svipuð í jólaundirbúningi,“ segir hún. 

mbl.is