Jólaskreytingar unnar í samvinnu við umhverfið

Ragnhildur Anna Jónsdóttir er mikil jólakona að eigin sögn. Hún hefur farið skemmtilegar leiðir í að undirbúa jólin á undanförnum árum þar sem hún hefur búið í Montreal í Kanada. Hún er nú flutt til Íslands aftur og gefur lesendum hugmyndir að umhverfisvænum jólum. 

Ragnhildur Anna er mikil jólakona að eigin sögn. Hún hefur farið skemmtilegar leiðir í að undirbúa jólin á undanförnum árum þar sem hún hefur búið í Montreal í Kanada.

Hún er nú flutt til Íslands aftur þar sem hún mun halda jólin hátíðleg í fyrsta sinn í þrjú ár eftir yndislega tíma í Montreal.

„Nú er kominn lítill ömmudrengur í fjölskylduna, Kári Berg Viktorsson, svo ég hlakka óskaplega til að njóta jólanna með hans augum og samveru sem og að vera nálægt fólkinu mínu hér heima á ný.“

Ragnhildur Anna segist vera lánsöm með að í gegnum árin hefur eiginmaður hennar eldað jólamatinn.

„Það gefur mér aukið svigrúm til að skottast um og pakka og skreyta á lokametrunum. Ég hef verið búðarkona nánast allt mitt líf svo ég er afar þakklát Sverri mínum að þurfa ekki að sjá um matinn né innkaupin í aðdraganda jóla. Ég hef hins vegar ekkert tímaskyn svo ég er enn að sniglast um í heimafötunum að klára þegar klukkan er að nálgast sex á aðfangadag. Maðurinn minn hefur umborið þetta tímaleysi mitt afskaplega vel í gegnum árin. Á aðfangadag er ég einnig svo lánsöm að fá yndislega vinkonu í heimsókn í hádeginu ásamt sínum börnum. Hún hefur því upplifað heimilið í áranna rás svo langt frá því að vera tilbúið á aðfangadag. Einyrkjar eins og ég sem reka lítil krúttfyrirtæki eru vanalega löngu búnir með tankinn í aðdraganda jóla en það er bara hluti af þessu lífi hjá öllum er vinna við verslun enda jólin mikilvægasti sölutími ársins og þá er alltaf eitthvað sem verður undan að láta.“

Ragnhildur Anna ber með sér fallegt yfirbragð hugsandi nútímakonu sem kann að búa til huggulega stemningu úr alls konar efniviði.

Hún er mikið fyrir jólin og í raun allskonar hátíðir, sem gefa tækifæri á að njóta samveru með fjölskyldu og vinum.

Býr til sitt eigið jóladagatal

„Ég er svo mikið jólabarn að ég ákvað að búa til mitt eigið jóladagatal í Montreal í fyrra enda hafði ég rýmri tíma en vanalega í aðdraganda jóla og naut þess svo sannarlega í botn. Bakaði jólasmákökur, fór í endalausa göngutúra um fallega Plateau-hverfið okkar, drakk í mig jólastemninguna og keypti mér jólakjól. Það að búa erlendis og geta skipt algjörlega um takt fannst mér dásamlegt og mikil forréttindi. Dagatalið góða var ég lengi að möndla við. Þegar ég var á Íslandi rétt fyrir aðventuna keypti ég íslenskt nammi og dagatalakerti því ég fann ekkert slíkt í Montreal, svo keypti ég litla bamba í Ungfrúnni góðu og átti alls kyns snyrtivörur sem ég var ekki ennþá byrjuð að nota og pakkaði því inn. Ég notaði meira að segja yndislegar snyrtivörur sem ég fékk í jólagjöf í fyrra, sem ég var ennþá að spara. Svo ég minnist ekki á prufur, þær voru ófáar snyrtivöruprufurnar sem fóru í dagatalið. Nú er ég einmitt búin að vera að safna í nýtt aðventudagatal og í þetta sinn verður það eingöngu snyrtivörudagatal, uppistaðan eru prufur sem ég hef verið að safna frá uppáhaldssnyrtivörubúðinni minni í Montreal, Sephora, í bland við snyrtivörugjafir frá vinkonum mínum sem ég hef verið að spara.“

Ranghildur Anna elskar að pakka inn gjöfum og pakkarnir hennar eru í raun eins og listaverk út af fyrir sig.

„Í dagatalið notaði ég síðan alla pappírsafrenninga sem ég fann og nýtti borða af pökkum sem mér hafa verið gefnir. Ég fer alltaf alveg inn í jólin, þegar ég bjó í Kanada notaði ég meira að segja borða með þjóðartákninu á, hlynlaufinu góða (maple leaf). Svo elska ég að endurnýta það sem kemur inn á heimilið. Ég er dugleg að nota glerkrúsir, hvort heldur sem er undan pastasósunni eða fallegu krúsirnar undan gríska jógúrtinu frá Örnu. Þetta nota ég t.d. fyrir litlar aðventugjafir, sem eru vanalega miklar hjartagjafir ef svo mætti að orði komast. Það er þá ekki stærðin á gjöfinni sem skiptir máli heldur hjartað í gjöfinni.“

Ragnhildur Anna er mikið fyrir þemajólagjafir. Hún notar sem dæmi mandarínukassa undir gjafirnar, endurnýtir sellófan og fleira.

„Ég vef sellófan aftur upp á rúllu svo krumpurnar jafni sig, en þar sem maður er alltaf að krumpa það aftur við notkun sést það ekki. Svo er ég mikið fyrir að nota merkimiða á íslensku, hvar sem ég er stödd í heiminum um jólin. Bæði því það er fallegast og svo er maður líka að styrkja þann sem leggur í slíka framleiðslu. Oft eru þetta einyrkjar sem eru að reyna að lifa á sinni hönnun og handverki. Íslenska tungumálið okkar er svo fallegt og þarf á því að halda að við styðjum það og hlúum að því.“

Innpökkun hennar jóga

Hún skreytir líka fyrir jólin með pökkunum á aðventunni og hvetur fólk til að huga að umhverfinu og láta ímyndunaraflið og listsköpunina ráða.

„Vanalega byrja ég frekar snemma að pakka inn fyrir jólin. Bæði þykir mér þetta pakkastúss svo skemmtilegt og svo vanalega er í næg horn að líta þar sem ég hef verið búðarkona allt mitt líf. Ég segi stundum að innpökkun sé mitt jóga. Ég leyfi til dæmis pökkunum sem ég er búin að pakka að vera uppi við til skrauts á aðventunni sem hluti af jólaskrautinu. Smátt og smátt hverfa þeir þá og þá tekur annað við. Ég elska til dæmis að skreyta með hýasintum fyrir jólin. Bæði eru þær svo fallegar og svo eru þær líka ódýr leið til að skreyta með. Það þarf ekki alltaf að kosta mikið að gera fallegt og notalegt í kringum sig. Ég á mér þó engar málsbætur því iðulega kaupi ég mér eitthvað jólatengt í aðdraganda jóla. Það sem ég elska þó einna mest er ilmur af góðu jólailmkerti á aðventunni og um jólin.“

Á síðustu árum hefur hún verið að sinna vörumerki sínu Jónsdóttur & Co.

„Það hefur þó verið í nokkurri bómull meðan ég hef verið búsett í Montreal. Nú er ég nýkomin heim og ætla að sjá hverju ég fæ áorkað fyrir jólin en eitt af því vinsælasta fyrir jólin hafa verið jólalöberar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál