Breytti gömlu skemmtihúsi í sumarbústað

Helga nýtur lífsins á Þingvöllum.
Helga nýtur lífsins á Þingvöllum. mbl.is/Árni Sæberg

Helga Gerður Magnúsdóttir er grafískur hönnuður og teiknari sem hefur unnið við hönnun og umbrot í yfir tuttugu ár. Hún er einnig þriggja barna móðir og náttúruunnandi. Hún og eiginmaður hennar eiga fallegan bústað á Þingvöllum, en bæði eiga þau dýrmætar minningar þaðan sem börn. 

Helga Gerður lýsir viðveru sinni á Þingvöllum sem miklum gæðastundum. Einna best kann hún við náttúruna, vatnið og bústaðinn sjálfan.

„Húsið byggðu Sigurgeir Sigurjónsson og Regína Hansen og var það upphaflega reist sem nokkurs konar bar eða skemmtihús en einnig til að tryggja lóðarréttindi og þá var þetta bara rétt arinn og barborð á örfáum fermetrum, spölkorn frá hinum eiginlega bústað þeirra hjóna. Svo byggðu afkomendur þeirra við húsið í allar áttir eftir því sem árin liðu – svefnherbergi og baðherbergi voru byggð aftan til og að endingu var stofan stækkuð. Lofthæð í fremra rými er mikil og minnir á hlöðu.“

Húsið á Þingvöllum byggðu þau, Sigurgeir Sigurjónsson og Regína Hansen …
Húsið á Þingvöllum byggðu þau, Sigurgeir Sigurjónsson og Regína Hansen og var það upphaflega reist sem nokkurs konar bar eða skemmtihús en einnig til að tryggja lóðarréttindi.
Bústaðurinn á Þingvöllum hér á árum áður.
Bústaðurinn á Þingvöllum hér á árum áður.

Ólst sjálf upp í gamalli hlöðu

Sjálf ólst hún einmitt upp í gamalli hlöðu vestur í bæ, en það var afar hentugt húsnæði fyrir Magnús Tómasson myndlistarmann föður hennar og Jóhönnu Ólafsdóttur ljósmyndara móður hennar.

„Þar var nóg pláss til að athafna sig í listinni og algjört aukaatriði hvort það væri fín hurð inn á baðherbergi eða ekki. Húsið gaf frelsi til að nálgast allar heimilishefðir út frá nýjum og óvæntum sjónarhornum, t.d. man ég að eitt skiptið var jólatréð svo hátt að pabbi hengdi það bara í bjálka í loftinu frekar en að reyna að koma því í hentugan fót. Það er skemmtileg tilviljun að bústaðurinn minnir mig svolítið á æskuheimilið og ég kann vel við lofthæðina og frelsið sem henni fylgir.“

Helga Gerður segir að þau hjónin séu bæði miklir Þingvallaunnendur. Bæði hafi verið við vatnið frá því þau voru börn.

„Afi og amma Ársæls eiginmanns míns byggðu um svipað leyti og þessi reis bústað hér við hliðina, svo maðurinn minn varði hér löngum stundum sem barn og unglingur. Fjölskylda mín átti líka lítinn vanefnakofa hér norðar í landi Kárastaða svo við eigum bæði rætur og góðar minningar héðan af svæðinu. Við vorum hér mikið áður en við eignuðumst bústaðinn með fjölskyldu, börnum og vinum og giftum okkur auðvitað hér líka í bústað tengdaforeldra minna. Við urðum því himinlifandi þegar okkur áskotnaðist þetta hús og ekki spillir að hafa afa og ömmu í næsta húsi. Hér er því oft glatt á hjalla og mikið stuð og stórkostlegar máltíðir galdraðar fram.“

Helga segir hvergi betra að vera yfir veturinn en í …
Helga segir hvergi betra að vera yfir veturinn en í bústað fjölskyldunnar á Þingvöllum. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur gaman af því að finna notaða hluti

Þegar kom að því að innrétta bústaðinn segir Helga Gerður að það eina sem þau hafi gert á sínum tíma hafi verið að mála.

„Húsgögnin og leirtauið komu að mestu úr geymslunni eða Góða hirðinum. Mér þykir mjög gaman að gramsa á antíksölum og flóamörkuðum og reyni alltaf að blanda gömlum hlutum með sál við hjá mér, bæði á heimilinu og í bústaðnum. Við endurnýjuðum reyndar pallinn en annars er hann svo gott sem upprunalegur. Síðasta sumar áskotnaðist mér svo viðarvíravirki frá arkitektanemum í Listaháskólanum sem við komum fyrir á bak við hús sem grindverki utan um útisturtuna okkar, sem er nú bara garðslanga með góðum úðarahaus. Hlutirnir þurfa ekki að vera flóknir til að maður njóti og það er bæði ánægjulegt og gefandi að endurnýta það sem maður getur og skemmtileg áskorun fyrir ímyndunaraflið.

Á veturna getur maður minna sinnt viðhaldi og vistin í bústaðnum snýst því enn meira um afslöppun og huggulegheit á þeim tíma. Það er ekki síður skemmtilegt að koma hingað á veturna og vetrarríkið er heillandi tært og fagurt. Þegar viðrar höfum við farið á skíði í Skálafelli og svo í bústaðinn, en það er eitthvað í líkingu við hið margrómaða skandinavíska „hytteliv“ sem ég hélt nú að ég myndi seint upplifa hér á landi. Hér áður var stundum svo mikill snjór að við þurftum að ganga á snjóþrúgum með birgðir á sleða til að komast að bústaðnum, það voru miklar ævintýraferðir. Núna eigum við svo góðan nágranna að hann ryður snjóinn af veginum fyrir okkur öll á fjórhjólinu sínu.

Litirnir í bústaðnum eru skemmtilegir.
Litirnir í bústaðnum eru skemmtilegir. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrri eigendur plöntuðu miklu af greni hér allt um kring, sem enginn vissi þá hvernig myndi pluma sig, sem nú er orðið löngu tímabært að grisja og við þá iðju skemmtum við hjónin okkur að sumri sem vetri – að fella og ganga frá grenitrjám. Það er mikið puð og verkefni fyrir alla fjölskylduna. Annars er líka bara yndislegt að fara í göngur hér um svæðið og ekkert betra en að fara í heita útisturtu eftir puðið.“

Þingvallavatn stækkar leiksvæðið svo um munar

Hún segir að fátt jafnist á við bjarta vor- og sumardaga og morgunstillurnar á Þingvallavatni.

„Vatnið stækkar leiksvæðið svo um munar og á sumrin förum við bæði á kajak og spíttum á sódíak um allt og veiðum í soðið. Við förum líka í göngur og lautarferðir, liggjum í leti eða bökum pönnukökur á pallinum.“

Hvernig nýtir þú náttúruna og umhverfið á veturna til útivistar?

„Við fjölskyldan förum á skíði þegar færi gefst. Mér finnst afar gott að synda og fer í útiklefann allan ársins hring, sem eykur ánægju og vellíðan til muna. Göngur og stöku skokkhringur, ekki síst á mannbroddum, eru líka góð skemmtun – þegar maður nær að yfirvinna letina og hendast út leynist kannski í manni örlítil vosbúðarfíkn því ég fæ sérstakt kikk ef veðrið er vont. Á göngu nýtur maður þess að horfa á landslagið og sjá fegurðina í stóru og smáu – en fyrir mér snýst útivistin ekki síst um það að horfa og hugsa og njóta stundarinnar.“

Listaverk eftir Ásmund Sveinsson passar vel inn í bústaðinn á …
Listaverk eftir Ásmund Sveinsson passar vel inn í bústaðinn á Þingvöllum. mbl.is/Árni Sæberg

Gönguskíðin heilla

Í hvaða sporti ertu um þessar mundir?

„Ég reyni að fara reglulega út á Seltjarnarnes í ræktina, þá gjarnan í hádegispúlið hennar Þórhöllu sem er algjört æði og í jógað hennar Öbbu og svo eiga lyftingar afar vel við mig. Sund, lyftingar og ganga/skokk – þar sem maður einbeitir sér að andardrættinum, tækni og stöðu – finnst mér einna best til að hreinsa og kyrra hugann. Með hléum hef ég farið í sundtíma til hans Brynjólfs í garpasundinu og með hans hjálp tók ég stíl og tækni vel í gegn og get heilshugar mælt með því fyrir alla þá sem finnst gott að synda en hafa ekki farið í tíma síðan í gamla góða skólasundinu.Við ræktarvinirnir tökum svo að sjálfsögðu víxlbað í kalda og heita pottinum að loknum tímum og látum okkur fljóta um í smástund og horfum upp í himininn, það er ekki síður gott. Ég reyni að stunda eitthvað af þessu á víxl en mun líklega seint glíma við ofþjálfun.“

Hvernig lýsirðu vinnumhverfinu þínu og á hvaða námskeið eruð þið að fara á bráðlega?

„Ég deili skrifstofu með hópi innanhússarkitekta og arkitekta úti á Fiskislóð, við vinnum allar við tölvur og því er nauðsynlegt að stunda einhverja líkamsrækt. Nýjasta sportið hjá okkur, eins og hálfum bænum reyndar, eru gönguskíðin – en ég bind miklar vonir við að geta stundað það sport grimmt á komandi vetrum. Að frumkvæði einnar öflugrar ætlum við því að skella okkur vestur á Ísafjörð á gönguskíðanámskeið núna í lok janúar og hlökkum mikið til.“

Arininn setur svip sinn á stofuna.
Arininn setur svip sinn á stofuna. mbl.is/Árni Sæberg

Haustlitirnir á Þingvöllum magnaðir

Helga Gerður segir að náttúran sé sífelldur innblástur og haustlitirnir á Þingvöllum séu magnaðir.

„Þar sem ég vinn við skrifborð í tölvuumhverfi finnst mér góð útrás að gera eitthvað líkamlegt eða með höndunum og því verður ekki neitað að mér finnst mér rosalega gaman að vesenast eitthvað hvort sem það er að baka kransakökur, julelog eða hnýta í krans úr haustlaufum eða ganga fjörur og tína steina. Ég nýt þess einnig að fara út í garð og reyta arfa á sumrin og tel að garðyrkja sé eitt það besta sem maður gerir fyrir sinnið. Ég held beinlínis að það geti haft lækningmátt að fást við garðyrkju, alla vega finnst mér magnað eftir lægðir og storma vetrarins að sjá gróðurinn taka við sér og blómin byrja að blómstra.“

Helga Gerður starfar sem grafískur hönnuður og hefur starfað við …
Helga Gerður starfar sem grafískur hönnuður og hefur starfað við hönnun og umbrot í 20 ár. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað gerið þið fjölskyldan saman sem gæti flokkast sem útivist?

„Okkur þykir ákaflega gaman að ferðast, ekki síst um landið okkar og stefnum einmitt á hálendisferð í sumar. Við förum í fjallgöngur saman og enn og aftur sund, fáum víst seint nóg af því. Svo förum við auðvitað saman í bústaðinn og nú eru börnin að verða svo stór að heimur veiðimennsku og lengri gönguferða er að opnast fyrir þeim sem er mjög spennandi. Sonur okkar er farinn að fara með föður sínum í skotveiði og saman stundum við stangveiði sem er dásamleg náttúrutenging og allar líkur á því að við séum að ná að smita börnin af veiðibakteríunni.“

Helga Gerður segir að lífið sé ekki bara hreyfing og á þessu ári ætli hún að muna að njóta stundarinnar.

„Ég ætla að vera sem mest í félagsskap barnanna minna sem stækka allt of hratt og mannsins míns sem er kletturinn í lífi mínu og hlæja og fíflast með öllu skemmtilega fólkinu í kringum mig.“

Helgu hlotnaðist þetta viðarvíravirki frá arkitektanemum í Listaháskólanum. Fjölskyldan kom …
Helgu hlotnaðist þetta viðarvíravirki frá arkitektanemum í Listaháskólanum. Fjölskyldan kom því fyrir á bakvið húsið, sem grindverki utan um útisturtuna sem er garðslanga með góðum úðarahaus. mbl.is/Árni Sæberg
Helga er snillingur í að gera huggulegt á landi fjölskyldunnar …
Helga er snillingur í að gera huggulegt á landi fjölskyldunnar á Þingvöllum. mbl.is/Árni Sæberg
Náttúran gefur valmöguleika á fallegasta skrautinu.
Náttúran gefur valmöguleika á fallegasta skrautinu.
Garðurinn í kringum sumarhúsið er fallegur allan ársins hring.
Garðurinn í kringum sumarhúsið er fallegur allan ársins hring. mbl.is/Árni Sæberg
Helga og sumarhús smartland
Helga og sumarhús smartland Árni Sæberg
Gömul skeifa hefur fengið nýtt hlutverk sem listaverk í garðinum.
Gömul skeifa hefur fengið nýtt hlutverk sem listaverk í garðinum. Árni Sæberg
Bústaðurinn fellur vel inn í umhverfið á Þingvöllum.
Bústaðurinn fellur vel inn í umhverfið á Þingvöllum. mbl.is/Árni Sæberg
Þingvallarvatn er til þess gert að nýta á kajak á …
Þingvallarvatn er til þess gert að nýta á kajak á sumrin. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »