Gaf gömlum skenk nýtt líf á einfaldan hátt

Selma Ósk gerði upp skenk.
Selma Ósk gerði upp skenk. Ljósmynd/Aðsend

Selma Ósk Gunnarsdóttir 32 ára háskólanemi tók gamlan skenk í gegn á dögunum. Hún keypti skenkinn notaðan og málaði. Selma Ósk segist kunna að meta gamla hluti sem hafa sál og segir tilvalið að nýta auka frítíma á heimilinu þessa dagana til þess að gera eitthvað í höndunum. 

„Ég flutti í nær helmingi stærri íbúð í haust en ég bjó í áður. Ég hef smám saman verið að koma mér fyrir á nýjum stað. Eitt af því er að finna mér húsgögn sem passa inn í rýmið. Ég var búin að vera að leita mér að nettri kommóðu eða skenki sem átti að fara á þennan stað í íbúðinni. Fann síðan þennan forláta skenk í Hertex. Útlitið var ekki endilega það sem heillaði mig strax heldur skipulagið á skápunum og skúffunum. Ég vil hafa skipulag á hlutunum og sá fyrir mér að þetta gæti nýst sem góð geymsla,“ segir Selma Ósk og ákvað þess vegna að kaupa gamla skenkinn og mála hann. 

„Ég grunnaði fyrst skápinn með hvítum grunni frá Jotun. Lakkaði hann síðan, fór tvær umferðir með svartgráu lakki sem heitir Helmi, vildi ekki hafa hann alveg svartan. Mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum á málningunni um þornun og yfirmálun. Keypti síðan hnúða á hann sem voru í stíl við viðarplötuna.“

Skenkurinn fyrir breytingar.
Skenkurinn fyrir breytingar. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju ákvaðst þú að mála hann ekki allan?

„Fyrsta planið var að mála hann allan í sama lit. En þegar ég var búin að mála helminginn fannst mér það svo dökkt. Mér finnst viður fallegur og það er gaman að leyfa sjúskaðri plötunni að njóta sín. Pússaði hana upp og lakkaði með glæru lakki.“

Skenkurinn tilbúinn.
Skenkurinn tilbúinn. Ljósmynd/Aðsend

Var þetta meira mál en þú hélst eða var þetta bara einfalt? 

„Þetta verkefni var mun fljótlegra og minna mál en ég var búin að gera mér í hugarlund. Ég var búin að mikla það fyrir mer að þurfa taka allar skúffur og skápahurðar af. Þetta er fyrsta stærra húsgagnið sem ég mála, hef málað hillur og eitthvað minni háttar.

Annars er ég algjör dundari í mér, finnst mjög gaman að gefa eldri hlutum áframhaldandi líf. Fór á bólsturnámskeið 2017, fannst það mjög gaman. Gerði upp fallegan stól sem prýðir stofuna og fékk síðan gömlu eldhússtólana frá foreldrum mínum sem ég bólstraði upp á nýtt og nota í dag. Næst á dagskrá er að gera upp stofuborðið sem ég fann gefins á netinu.

Selma Ósk bólstraði þennan fallega stól.
Selma Ósk bólstraði þennan fallega stól. Ljósmynd/Aðsend
Stóllinn fyrir breytingar.
Stóllinn fyrir breytingar. Ljósmynd/Aðsend

Selma Ósk er ánægð með nýja útlitið og segir skenkinn koma mun betur út en hún átti von á. „Mér finnst meiri sál fylgja húsgögnum sem maður þarf að leggja smá ást í og gerir heimilið hlýlegra fyrir vikið.“

Finnst þér fólk vera að gefa sér meiri tíma í að gera upp gamla hluti núna? 

„Við búum í miklu neyslusamfélagi, en ég held sem betur fer að aukin umhverfisvitund geri það að verkum að við erum aðeins farin að hugsa um kauphegðun okkar. Held það sé enn þá fullt af fólki þarna úti sem hendir hlutum þegar sést smá á þeim þegar oftar en ekki þarf ekki nema eitthvað smotterí til að laga þá og nýta þá áfram.

Þessir skrítnu tímar sem við erum að ganga í gegnum núna er tilvalið til að nýta í þá hluti sem hafa setið á hakanum hjá okkur og við höfum ekki fundið okkur tíma í að gera. Hvort sem það tengist að dytta að húsnæðinu þínu, taka upp ókláraða handavinnu eða taka til í drasl skúffunni sem verður alltaf eftir þegar þú ert að taka til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál