Rut Kára hefur ákveðnar skoðanir á gráum litum

Horft inn í eldhúsið en þar mætast bæsaður viður, steinn …
Horft inn í eldhúsið en þar mætast bæsaður viður, steinn og steypt loft. Í forgrunni er svo PH-ljós sem fæst í Epal. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Sjónsteypa, dökkur viður og bæsuð eik sameina fallegt heimili sem Rut Káradóttir innanhússarkitekt teiknaði. Hún segir það ekki rétt að flest heimili séu í gráum tónum því fasteignavefurinn sanni að flestir landsmenn séu fastir í hvíta litnum. Þrátt fyrir að Rut sé búin að vera í meira en tvo áratugi í faginu segist hún elska vinnuna og upplifi stundum að hún sé í björgunarstarfi því fólk þurfi svo mikla hjálp þegar kemur að endurskipulagningu á heimilinu. 

Draumaverkefni innanhússarkitekta eru stór verkefni þar sem leysa þarf mörg vandamál. Í þessu húsi þurfti til dæmis að koma fyrir sjónvarpi án þess að eyðileggja útsýnið úr stofunni. Hún leysti það með því að setja upp vegg í rýminu fyrir sjónvarpið. Það sem er kannski óhefðbundið í þessu húsi er að steypt loft og veggir fá að njóta sín.

„Það var mjög skemmtilegt að vinna þetta verkefni og samvinnan við verkkaupana gekk mjög vel. Það er ótrúlega mikilvægt þegar farið er í stórar framkvæmdir eins og þessa að samstarfið sé gott. Þegar fólk velur sér hönnuð þarf að tryggja að sameiginleg sýn sé um hugmyndafræðina og að hönnuðinum sé treyst. Ég var til dæmis mjög spennt fyrir að leyfa steypunni að njóta sín og eigendurnir voru á sama máli,“ segir Rut.

Rut segir að stofur eigi ekki að vera ónotaðar og þess vegna fann hún lausn til þess að koma sjónvarpinu fyrir.

„Það sem helst var snúið við hönnunina var að húsráðendur vildu koma fyrir sjónvarpsrými á aðalhæðinni þannig að það væri í góðum tengslum við önnur rými. Til þess að eyðileggja ekki stofuna og útsýnið úr henni varð lausnin sú að byggja spónlagðan vegg og setja síðan rimla upp í loft sem stúkuðu sjónvarprýmið aðeins af en lokuðu því ekki. Þannig má nú sitja í sjónvarpssófanum og njóta útsýnisins úr stofunni um leið. Mér finnst vera allt of mikið um það að fólk sitji inn í lokuðu og loftlausu sjónvarpsrými á meðan stofan stendur ónotuð,“ segir hún.

Eldhúsið er sérlega fallegt. Þegar Rut er spurð að því hvernig það hafi verið skipulagt segir hún að það hafi orðið að vera eins og það er því rýmið sjálft sé ekki mjög stórt og því hafi þurft að gera sem mest úr því.

„Hér lá grunnrýmið fyrir og við vorum bundin af því. Farin var sú leið að hafa eldhúsið hálfopið. Rýmið er frekar lítið svo við ákváðum að hafa eitt stórt borð sem gegnir bæði hlutverki eldhúss- og borðstofuborðs,“ segir Rut og bætir við:

„Við notuðum reykta, bæsaða eik í innréttingarnar sem er svo hlý á móti steypunni á veggjum og lofti. Innréttingarnar voru sérsmíðaðar hjá Við og við. Borðplöturnar eru frá fyrirtækinu Silestone, og eru þær bæði fáanlegar hjá Rein steinsmiðju og S. Helgasyni.“

Uppáhaldsgluggatjöldin

Gluggatjöldin setja svip sinn á eldhúsið og þegar Rut er spurð út í þau kemur í ljós að þetta eru uppáhaldsgluggatjöld hennar þessa dagana.

„Ég er mjög hrifin af því að nota „tága“ fellitjöld því þau eru bæði hlýleg og hleypa inn notalegri birtu. Þessi tjöld eru frá versluninni Skermi, sem býður upp á mikið úrval af fallegum efnum og frábæra þjónustu.“

Þegar inn á baðherbergið er komið taka við gráir veggir og fallegar sandlitaðar flísar. Steypan fær að njóta sín í loftinu eins og í öðrum rýmum.

„Ég vil að mismunandi rými á heimilum kallist á og séu í takti. Þannig finnst mér alltaf gaman að hluti af efnisvalinu poppi upp í öðrum herbergjum eins og gerist í þessu baðherbergi. Ég reyni líka mikið að vinna með andstæður þannig að hlýtt og mjúkt mæti köldu og hörðu,“ segir hún. Á baðherberginu eru til dæmis gluggatjöld sem ná upp í loft og koma vel út.

Hvað um gólfefnin í húsinu, hvaðan koma þau?

„Ljósgrábæsað parket er á hluta gólfanna og það kemur frá Parka í Kópavogi. Þetta parket gengur vel við dökku eikina í innréttingunum og steypuna.“

Þegar talið berst að litatónum á veggjum kemur í ljós að Rut valdi gráa tóna sem passa vel við parketið á gólfinu og flísarnar.

„Fyrir valinu urðu hlýir gráir tónar sem fara mjög vel með gólfefnunum og innréttingunum. Það gætir stundum misskilnings þegar talað er um gráan lit, eins og það sé bara um einhvern einn gráan lit að ræða. Þegar ég vel gráa litapallettu reyni ég alltaf að finna hlýja gráa tóna sem fara frekar meira út í grænt en blátt,“ segir hún.

Íslensk heimili eru hvít en ekki grá

Nú er því stundum haldið fram að öll íslensk heimili séu eins. Öll grá og svört. Hvað finnst þér um það?

„Það er reyndar leiðinlegt hvað fólk getur verið hrætt við að breyta til og fara aðeins út fyrir boxið. Ég man þegar ég byrjaði að velja gráa litatóna fyrir mörgum árum. Það tók langan tíma að ná því inn, en núna gengur svo aftur erfiðlega að fá fólk til að prófa eitthvað annað. Mér finnst reyndar heimili á Íslandi enn öll meira eða minna vera hvít. Þú þarft ekki nema að fletta fasteignaauglýsingunum til að sjá það. Fólk er oft ósjálfstætt og vill ekki velja liti sem það hefur ekki þegar séð hjá vinum eða kunningjum. Ég hef til dæmis núna verið að vinna mikið með litapallettu sem fer út í jarðkennda græna, brúna og rauðbrúna tóna. Þeir sem hafa verið kjarkaðir og samþykkt þetta litaval hafa verið mjög ánægðir með útkomuna.“

Hvernig ertu að þróast í starfi?

„Sem betur fer er maður alltaf að þróast í sínu starfi. Reynslan er náttúrlega gríðarlega mikilvæg og kennir manni svo margt. Að sjálfsögðu þarf alltaf að fylgjast með straumum og stefnum og maður er alltaf að endurmennta sig. Hins vegar er grunnhugmyndafræðin sem maður hefur að leiðarljósi alltaf sú sama: þ.e. að til búa til hlýleg og notaleg rými með þáttum eins og góðu grunnskipulagi og hlutföllum, fallegu efnisvali, lýsingu og hljóðvist,“ segir hún.

Hvað drífur þig áfram í vinnunni?

„Ég held að það sé bara einlægur áhugi á hönnun og að skapa fallega umgjörð um líf fólks. Ég trúi því að fólki líði betur og eigi betra líf í umhverfi sem er vel hannað, með fallega list fyrir augum og í snertingu við vönduð náttúruleg efni. Ég upplifi starf mitt reyndar mjög oft eins og björgunarstarf. Þegar ég fæ verkefni í hendurnar hugsa ég iðulega með mér: „Þessu fólki verð ég að bjarga“ ... það getur ekki búið við svona skelfilegt skipulag eða óspennandi umhverfi,“ segir hún og hlær.

Eyjan er stór og mikil og státar af góðu vinnuplássi. …
Eyjan er stór og mikil og státar af góðu vinnuplássi. Gluggatjöldin eru frá Skermi. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Sjónsteypan kemur vel út á móti bæsuðum innréttingunum.
Sjónsteypan kemur vel út á móti bæsuðum innréttingunum. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Sjónvarpsveggnum var komið sérstaklega fyrir þannig að sjónvarpið hefði pláss …
Sjónvarpsveggnum var komið sérstaklega fyrir þannig að sjónvarpið hefði pláss og að það væri útsýni úr sjónvarpsholinu. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Sjónsteypan er áberandi í húsinu. Ljósið fyrir ofan stigapallinn er …
Sjónsteypan er áberandi í húsinu. Ljósið fyrir ofan stigapallinn er frá Flos og fæst í Casa. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Svona lítur sjónvarpsveggurinn út hinum megin frá.
Svona lítur sjónvarpsveggurinn út hinum megin frá. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Horft úr stofunni inn í eldhús.
Horft úr stofunni inn í eldhús. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Rut segir að mikilvægt sé að velja gráan lit með …
Rut segir að mikilvægt sé að velja gráan lit með hlýjum undirtóni. Gluggatjöldin koma frá Skermi. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál